Fara í efni
Pistlar

„Ertu ennþá að redda stráknum?“

ORRABLÓT - XXI

Laugardaginn 27. maí 1989 lögðum við, leikmenn 2. flokks Þórs í knattspyrnu, upp í keppnisferð til Reykjavíkur. Ég get ómögulega gleymt þessari dagsetningu vegna þess að þetta var daginn eftir að Arsenal varð enskur meistari á Anfield. „It‘s up for grabs now,“ fullyrti Brian heitinn Moore, sinni ómþýðu röddu, og jörðin hætti eitt augnablik að snúast. „Thomas, right at the end.“

Sjálfur man ég ekki meira fyrr en mörgum mínútum síðar, var staddur miðja vegu milli alsælu og sturlunar. Þá var langþráður titillinn í höfn.

„Thomas, right at the end.“ Arsenal varð enskur meistari á Anfield, heimavelli Liverpool, föstudagskvöldið 26. maí 1989.

En jæja, um það á þetta blót ekki að fjalla, enda þótt það yrði auðvitað skemmtilegt, og það sem ég vildi vera fluga á vegg þegar ritstjóri Akureyri.net, einn harðasti Púlari sem ég þekki, leitar að ljósmynd úr þessum sögufræga leik! Hann er ábyggilega ekki með hana í veskinu sínu.

Nei, blótið á að fjalla um ferðalag okkar Þórsara suður. Oftast flugum við í leiki á suðvestur horninu eða undir okkur var sett rúta en að þessu sinni fórum við á einkabílum; skiptum okkur niður á nokkra.

Ég lagði sjálfur til bíl, svarbláa Hondu Accord árgerð 1981, sem ég hafði keypt sumarið áður þegar ég fékk bílprófið. Sá hafði reynst vel, aldrei bilað og áður tekið strauið suður yfir heiðar; þannig að hann átti að rata. Þess utan bjó Hondan að mergjuðum steríógræjum með ennþá mergjaðri tónjafnara sem ljómaði eins og diskótek á Magaluf þegar langt var komið inn í nóttina. Hljómburðurinn var fyrir lengra komna.

Varmahlíð og dökk Honda Accord, þó ekki sú sem Orri Páll lagði til á sínum tíma.

Sumir héldu raunar að þetta væri búnaður sem ég hefði komið mér upp til að hafa samskipti við geimverur en ég gaf mig talsvert að þeim málum á þessum tíma, Flugskýli 18 og öllum þeim pakka. Órætt og spennandi stöff og ómögulegt að útiloka að jafnvel sumir úr manns nánasta umhverfi kæmu úr annarri vídd.

Með mér í bílnum voru stórvinir minir Arnaldur Skúli Baldursson og Birgir Karl Birgisson. Bara býsna brattir, þakka ykkur fyrir að spyrja, og að ég held örugglega ekki geimverur.

Allt gekk eins og í sögu í Varmahlíð en fljótlega eftir það fór Hondan að haga sér eitthvað undarlega og örmagnaðist loks rétt áður en við komum í Vatnsskarðið. Það var kúplingin sem gaf sig. Ég hafði ekki hugmynd um það á þeirri stundu en var upplýstur um það síðar, af bílfróðum mönnum.

Hver man eftir tíkallasíma? Þeir litu svona út þegar þoka lá stundum yfir Húnavatnssýslu og enn var ekið á malarvegum hluta leiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur. Til hægri er Páll Viðar Gíslason, fyrirliði 2. flokks Þórs í knattspyrnu árið 1989.

Nú voru góð ráð dýr. Við vissum ekki stöðuna á hinum bílunum enda höfðu menn ekki samflot en grunaði að við hefðum jafnvel lagt síðastir af stað. Við komum auga á fjárhús niðri á túni og við Biggi Kalli héldum sem leið lá þangað til að leita að kaðli til að draga bílinn, kæmi til þess. Skúli varð eftir uppi á vegi, ef ske kynna að bíll færi hjá.

Og viti menn, það gerðist innan tíðar og sem meira var, í honum Þórsarar. Undir stýri enginn annar en fyrirliði liðsins, Páll Viðar Gíslason, og honum við hlið Friðrik Magnússon, sem síðar átti eftir að gera Víking að stórveldi í knattspyrnu. Það var svarta þoka á svæðinu en þeir komu eigi að síður auga á veru í vegkantinum. Skúli er hins vegar ofboðslega vel upp alinn og týpan sem vill alls ekki láta fyrir sér hafa, þannig að ekki hvarflaði að honum að veifa eða baða út öngum þegar bíllinn brunaði hjá. Palli ók því dágóðan spöl, þangað til Frikki fékk bakþanka og mælti:

„Heyrðu, fyrirliði sæll, var þetta ekki okkar maður, Arnaldur Skúli?“

,,Gott ef ekki,“ svaraði Palli en þess má geta að báðir eru þessir menn ákaflega mannglöggir.

Palli nauðhemlaði því í grófri mölinni og sneri bílnum við á punktinum. Sem var djarft spil við þessar aðstæður í biksvartri þokunni á Þjóðvegi 1.

Feðgarnir, Orri Páll Ormarsson og Ormarr Snæbjörnsson, í góðum áramótagír áratugum eftir bílavandræðin. 

Þeir voru snöggir að finna Skúla sem stökk strax niður á tún til að sækja okkur hina. Síðan pökkuðum við okkur í aftursæti bílsins. Ekki var um annað að ræða en að skilja Honduna eftir enda höfðum við ekki fundið eitt einasta reipi, ekki einu sinni spotta, þarna í fjárhúsinu. Hvurslax fjárhús er nú það?

Palli áði á Blönduósi svo ég gæti látið vita af hrakförum mínum enda óþægilegt að vita af bílnum steindauðum þarna í vegkantinum í þokunni. Ég hringdi heim í pabba úr tíkallasíma í seinni sjoppunni á staðnum, sem nú er horfin. Það er að segja sjoppan en ekki staðurinn. Blönduós var þarna síðast þegar ég vissi og verður vonandi áfram.

Það er gæfa mín að enda þótt ég verði 120 ára þá mun ég ekki kynnast bónbetri manni en föður mínum. „Ég bjarga þessu,“ sagði hann um leið og ég heyrði hann bókstaflega rjúka út í bíl. Því næst sótti pabbi Sigfús Hreiðarsson félaga sinn, sem er bifvélavirki, og fékk hann til að bruna með sig á staðinn. Fúsi batt traust reipi í Honduna og setti pabba undir stýri. Úr varð líklega æsilegasta ökuferð sem hann hefur farið í um dagana en Fúsi dró pabba á 150 km hraða alla leið til Akureyrar, yfir Öxnadalsheiðina og allan pakkann. Þið munið hvernig umhorfs var í Giljareit á þessum tíma? Maður starði beint af veginum niður í djúpt og hrikalegt gilið. Þess utan var malarvegur svo til alla leiðina til Akureyrar.

„Hvað, ertu ennþá að redda stráknum?“ spurði Ingi Þór Jóhannsson sem þarna er að finna. Rétt er að taka fram að myndin af Öxnadalsheiði var ekki tekin þegar Ormarr Snæbjörnsson og Sigfús Hreiðarsson áttu þar leið um heldur af vef Vegagerðarinnar í morgun eins og raunar má sjá.

„Drengur minn, það get ég sagt þér að ég hef aldrei á ævinni orðið eins smeykur,“ trúði pabbi mér fyrir löngu seinna. Þegar hann var búinn að safna nægilegum kjarki til að tala um þetta.

Ef lögreglan er að lesa þá skulum við segja að téður hraði, 150, séu eyfirskar ýkjur að hætti Grundarbræðra. Svo er þetta ábyggilega líka fyrnt. Hvað er annars gert ef bíll sem er að draga annan bíl á 150 km hraða er stöðvaður? Fá báðir bílar sekt eða bara sá sem dregur? Ég bara spyr.

Um tuttugu árum síðar endurtók þessi saga sig, merkilegt nokk. Þá var ég fluttur suður og á leið í vinnuferð til Spánar að taka viðtal við Eið Smára Guðjohnsen, sem um þær mundir var að gera garðinn frægan hjá Barcelona, þegar bíllinn bilaði miðja vegu milli Mosfellsbæjar og Grafarvogs. Hondan var horfin úr lífi mínu þá en í staðinn kominn Ford Focus, sem átti að vera ofboðslega áreiðanlegur.

Aftur sló ég á þráðinn til pabba. Þarna voru gemsarnir að vísu komnir til sögunnar, þannig að ég þurfti ekki að leita að næsta tíkallasíma. Áður en ég hafði náð að depla auga var pabbi mættur á staðinn. Svo því sé til haga haldið þá var hann líka fluttur suður, ég hefði líklega ekki ræst hann út að norðan. Og þó!

Sérblað Morgunblaðsins um Eið Smára Guðjohnsen sem kom út í apríl það eftirminnilega ár, 2007. Blaðið hefði ef til vill ekki orðað að veruleika hefið faðir Orra Páls ekki komið honum til bjargar þegar Fordinn bilaði á leiðinni á Keflavíkurflugvöll ...

Ég var kominn í tímaþröng vegna flugsins og pabbi lét mig bara hafa sinn bíl. „Ég bjarga þessu,“ varð honum aftur að orði. Einhver ráð hafði hann til að láta draga Fordinn á verkstæði og þegar þangað var komið tók, merkilegt nokk, á móti honum sami náungi og á Akureyri vorið 1989. Ingi heitir sá ágæti maður og var þá líka búinn að flytja sig suður yfir heiðar.

Hann rak að vonum upp stór augu. Horfði fyrst á pabba og síðan á bílinn áður en hann spurði, sposkur á svip:

„Hvað, ertu ennþá að redda stráknum?“

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00

„Ertu gjörsamlega orðinn galinn?“

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
14. september 2024 | kl. 06:00

Hver á að ala upp barnið mitt? Við þurfum allt þorpið

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
13. september 2024 | kl. 06:00

Reiði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. september 2024 | kl. 08:50

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45