Fara í efni
Pistlar

Eftirmatur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 85

Það var enginn málsverður lakari en svo á Syðri-Brekkunni að eftirmatur fylgdi ekki með í enda borðhaldsins. Og hann var af öllu tagi.

En einkanlega þó heimagerður af því tagi sem brauðsúpa var, sá vinsæli kostur, sem búinn var til úr allra seinustu leifunum af helstu hleifum heimilisins, hvort heldur var úr byggi, hveiti, eða rúgi. Stundum með flóaðri mjólk í miðju skálar, og ef betur stóð á búri, þá með þeyttri rjómaklípu.

Berjasúpur voru líka af öllu tagi, og réð þar tíðarfarið miklu, en ef hretið varði sumarið á enda var alltaf hægt að stóla á rabarbaragrautinn, enda uxu stilkar þeirra styrku sætuefna, svo til óháð veðri og vindi, í öllu falli á Syðri-Brekkunni.

Kakósúpur voru vitaskuld vinsælastar hjá okkur smáfólkinu, með tvíbökum sem flutu margbrotnar í skálinni, og búðingur með sætri saft var heldur ekki af lakara taginu, og svo mátti alveg venja sig við allra handa maggi-súpur, sem þóttu lengi vel vera svolítið erlendis á okkar heimili, en þó ekki matarmiklar.

Eins var makkórónugrautur í náðinni, svo og sængurkonuvellingur, eins og hann var kallaður í Espilundinum, en þar voru komin saggógrjón, sem drukknuðu eins og margur annar eftirmaturinn í kanelsykri, innan um glásina af flóaðri mjólk.

En verst var þegar karlinn hann pápi okkar byrjaði að brugga launráð, að okkur krökkunum fannst, en þá hafði hann farið út í garð og tekið upp sitt lítið af hverju sem honum fannst vera hvað vænlegast í skákunum.

Rófulísa hans var moðsuða úr grænkáli og gulrófu, með þokkalegum slatta af hrísmjöli í bland við salt úr hnefa, en bragðið féll aldrei að kyrtlum okkar barnanna í húsi föður okkar, slíkur sem sullurinn var á tungu.

Þá var nú hræringur skárri, afgangar af hafragrauti og skyrleifum í einni skál.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: KANÍNUR

Úrillt og ráðvillt trippastóð

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. nóvember 2025 | kl. 10:00

Strandrauðviður

Sigurður Arnarson skrifar
26. nóvember 2025 | kl. 20:00

Hvalastrandið

Jóhann Árelíuz skrifar
23. nóvember 2025 | kl. 06:00

Þið kannist við jólaköttinn ...

Pétur Guðjónsson skrifar
22. nóvember 2025 | kl. 16:00

Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti

Sigurður Arnarson skrifar
19. nóvember 2025 | kl. 12:00

Hreyfing hreyfingarinnar vegna

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
18. nóvember 2025 | kl. 06:00