Fara í efni
Pistlar

Brúsaburður

EYRARPÚKINN - 28

Það voru ófáar ferðirnar í Ránargötu 10 eftir mjólkinni sem borin var heim á brúsum og flöskum.

Taldi ég ekki sporin í búðina og yfirgaf sjaldan Ránargötuna tómhentur heldur vældi gottið út úr mömmu framan af en skaffaði mér svo á ýmsa vegu með vaxandi þroska.

Rámar mig í glærar mjólkurflöskur álkulegar og þegar ausið var með könnum úr kerum á brúsa. Svo komu belgvíðu brúnu flöskurnar að gæta gerla og var gaman að horfa í gegnum þær tómar í gluggasyllu.

Tappar úr álpappír. Silfurlitur fyrir mjólkina, grænn súrmjólk, rjóminn gylltur en undanrennan blá. Flöskurnar heils- og hálfspotts og minni fyrir rjómann.

Svo var farið að dæla á brúsana úr vélum og hlupu upp bláhvítir pollar á taflborði kjörbúðargólfsins kringum kranana fyrir lokun.

En allt slampaðist þetta og maður bar fjögra lítra járnbrúsann í hægri hendi og þann þriggja lítra úr álinu í þeirri vinstri.

Og þótti búbót þegar tíulítrabeljurnar komu með krana. Kallaðist kassinn Búkolla og var tyllt á neðstu búrhilluna og svalandi að láta renna oní sig úr blessaðri kúnni.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Brúsaburður er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Segularmböndin

Jóhann Árelíuz skrifar
07. desember 2025 | kl. 06:00

Helstu elritegundir

Sigurður Arnarson skrifar
03. desember 2025 | kl. 09:30

Veldu þinn takt á aðventunni

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
02. desember 2025 | kl. 06:00

Hversdagshetjur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. desember 2025 | kl. 09:00

Fjalla-Bensi

Jóhann Árelíuz skrifar
30. nóvember 2025 | kl. 06:00

Hús dagsins: Aðalstræti 42

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. nóvember 2025 | kl. 06:00