Fara í efni
Pistlar

Brilljantín

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 89

Það var eitthvað við lyktina sem vakti athygli mína, þegar pabbi var að hafa sig til fyrir dansiböllin niðri á Hótel KEA. En ég man ekki betur en að hann hafi úðað einhverju kremi í hárið á sér, litlu eftir að hann var stiginn upp úr baðkarinu, og greitt það svo á alla kanta þar til sveipurinn var að hans skapi.

Þetta var brilljantín. Ég frétti það nokkru seinna. En það væri efni sem enginn fulltíða karlmaður á efstu tindum áttunda áratugarins gæti verið án, ef hann ætlaði sér á annað borð að vera hæstmóðins með öðru fólki.

Sigtryggur rakari var með aðstöðu sína og heimili á aðaltorgi Syðri-Brekkunnar þar sem Byggðavegur og Hrafnagilsstræti mætast við bestu Kaupfélagsbúðina í bænum, en hann átti efnin í hárin. Pabbi var einn helsti kúnni hans um áraraðir, enda elskur að hári sínu og sveigum sem hann ræktaði alla tíð af alúð, og kenndi sonum sínum löngum fyrr og síðar, að það fyrsta sem sæist alla jafna í fari karla, væri hvernig þeir væru hirtir til höfuðsins.

Þetta sást hvað best þegar hann var að fara með vandlega túberaðri móður okkar á útstáelsið í botni Gilsins, sem þar að auki var komin í bestu dragtina á heimilinu. En sjálfur færi hann ekki inn á KEA-salina með hárið flatt og gljáalaust, því ekkert lyfti því betur og héldi því jafn stilltu en brilljantínið hans Sigtryggs rakara, sem væri hverrar krónu virði.

Ég man þessar stundir, allt frá fyrstu tíð, þegar ég sat, eins kyrr og kostur var, í vel bólstraða rakarastólnum hjá Sigtryggi rakara og var snoðklipptur að hætti hússins, en það endaði allt saman með þeim forréttindum að fá snert af brilljantíni í broddana sem eftir stóðu á hvirfli manns.

Þar var lyktin komin.

Og fullvissa þess að eitthvað væri nú að togna úr manni.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: ATLAVÍK

Garðsvík; gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
20. júlí 2025 | kl. 13:00

Uppgrip í Vaglaskógi

Jóhann Árelíuz skrifar
20. júlí 2025 | kl. 11:30

Krísuvík

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
18. júlí 2025 | kl. 06:00

Trjávernd

Sigurður Arnarson skrifar
16. júlí 2025 | kl. 10:30

Hvernig væri ásýnd Akureyrar án stóru trjánna?

Rakel Hinriksdóttir skrifar
14. júlí 2025 | kl. 16:30

Ólæst

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. júlí 2025 | kl. 11:30