Blak: KA-liðin ennþá á sigurbraut
Kvennalið KA í blaki gerði góða ferð til Húsavíkur í gærkvöld þar sem liðið bar sigurorð af Völsungi, 3:0. Um síðastliðna helgi léku bæði kvenna- og karlalið félagsins við Þróttara í Neskaupstað og þar vann kvennaliðið sinn leik og karlaliðið hafði betur í tveimur leikjum gegn heimamönnum.
Sigur kvennaliðsins gegn Völsungi í gær var aldrei í hættu. Heimakonur skoruðu fyrsta stigið í fyrstu hrinu en KA svaraði með því að skora sex næstu stig og vann hrinuna 25:18. Önnur hrinan vannst 25:19 og með 25:17 sigri í þriðju hrinu var öruggur 3:0 sigur í höfn.
Sigurinn gegn Þróttarkonum fyrir austan á laugardaginn var öllu torsóttari. KA vann fyrstu hrinu 25:14 en Þróttarkonur svöruðu með 25:23 sigri í þeirri næstu. KA komst aftur yfir með 25:22 sigri en Þróttur jafnaði að bragði með sigri í einn einni hörkuhrinunni, 25:21. KA-stelpur reyndust síðan sterkari í oddahrinunni og með 15:9 sigri í henni vannst leikurinn, 3:2.
KA hefur þar með unnið 10 fyrstu leiki sína í Unbrokendeild kvenna og er í efsta sæti deildarinnar.
Karlalið KA lagði Þrótt í tveimur baráttuleikjum fyrir austan
Karlaliðið lék tvo baráttuleiki gegn Þrótti í Neskaupstað um helgina og hafði sigur í báðum. Fyrri leikurinn var á laugardaginn og vannst 3:1, þar sem úrslitin réðust í upphækkun í fjórðu hrinu eftir mikla baráttu, 29:27. Áður hafði KA unnið fyrstu hrinuna 25:15 og þá þriðju 25:18 en Þróttarar svarað með 27:25 sigri í annarri hrinu.
Seinni leikurinn var síðan ennþá jafnari og þar unnu KA-strákarnir frækinn 3:2 endurkomusigur, eftir að Þróttur hafði unnið fyrstu tvær hrinurnar. Þær fóru 27:25 og 25:19 en KA jafnaði með sigri í tveimur næstu hrinum, 25:15 og 25:22. Oddahrinuna unnu KA-strákarnir síðan 15:12.
Karlaliðið hefur því unnið 9 leiki og tapað tveimur í fyrstu ellefu umferðunum og deilir efsta sætinu í Unbrokendeild karla með Hamri frá Hveragerði. Hamar telst þó ofar í töflunni, með örlítið betra hrinuhlutfall.
Hvalastrandið
Þið kannist við jólaköttinn ...
Um nöfn og flokkunarkerfi. Seinni hluti
Hreyfing hreyfingarinnar vegna