Fara í efni
Pistlar

Beinkröm

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 5

Ég fékk beinkröm. Fárra ára snáðinn. Og fyrir mitt minni, mjög líklega. Kannski var ég bara þriggja, fjögurra ára.

En það var ekki mikið um það talað. Ekki frekar en önnur vanaleg vandræði. Því þau voru svo hversdagsleg. Og því þá að velta fyrir sér dæmigerðum dapurleika af því arna taginu.

En þetta var landlægur andskoti á Íslandi. Því þar er lifað norðan við ystu sól. Og svo lítið gefur hún af sér yfir helstu vetrarmánuðina – og þeir eru alvarlegir á norðurhjara – að líkaminn tapar æskilegustu efnum sínum.

Sólarleysið sækir sinn toll. Dimman dregur úr dug manns og þrótti.

Sjálfsagt var þetta þekkt í þá daga. Og alveg örugglega höfðu mæður landsins einhvern pata af þessu, en þær hafa vitað meira um aldirnar en þær hafa endilega þurft að koma í orð.

Hörgulsjúkdómarnir voru auðvitað fylgikvillar þessa einhæfa framboðs af fæðu sem þótti jafn sjálfsagður veruleiki í lífinu og að kaupfélagið hefði ekkert meira fram að færa í rekkum sínum og hillum.

Eða ef til vill var hitt svo miklu nærtækara. Fólk var að spara við sig. Það keypti náttúrlega bara helstu nauðsynjar – og ekkert sem út af bar, enga óráðsíu, en sú var mesta hneisan. Því ef það var ekki heimagert, þurfti kannski að fara út í búð. En þá helst sem sjaldnast.

Í mínu tilviki eru löngutangir beggja lófa fagurlega skakkar. Þær vísa augljóslega út á hlið. Undnar og snúnar. Og hafa verið þannig ævinlega.

En þær eru mér merki um hvaðan kynslóð mín kemur.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: HOLTSFÓLK

Dagur læknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
17. maí 2024 | kl. 18:00

Kolefnissugur og endurskinshæfni gróðurlenda

Sigurður Arnarson skrifar
15. maí 2024 | kl. 13:30

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 35 (Fagrastræti 1)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
15. maí 2024 | kl. 08:00

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Heilsukvíði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. maí 2024 | kl. 10:00