Fara í efni
Pistlar

Sviðsmynd

Sviðsmynd

Í heilt ár höfum við Íslendingar verið hluti af viðureign heimsbyggðarinnar gegn hinni skæðu veiru, kófinu, og hafa verið haldnir allt að því daglega upplýsingafundir í fjölmiðlum, auk allra fréttatíma, þar sem fjallað hefur verið um ástandið og horfurnar og atburðarásina. Ekki minnist ég þess að nokkru sinni hafi verið nefnd sviðsmynd í því sambandi, enda algerlega óþarft og eiginlega út í hött. Hins vegar hefur þríeykið og gestir þess verið í ágætri sviðsmynd, með veggi og skildi að baki, púlt til að standa við og upplýsingaskjái á áberandi stöðum. Það hefur ekki þótt umtals vert.

Svo ber við nýlega að jörð tekur að skjálfa óvenjumikið og ört þar sem Reykvíkingar vilja búa til flugvöll í stað þess sem þjóðin á í Vatnsmýrinni. Þá skýtur upp nánast fyrirvaralaust orðinu sviðsmynd og gengur á milli nánast allra sem fjalla um ástandið, kringumstæðurnar, horfurnar, útlitið, ferlið og framvinduna. Sviðsmynd er nánast eina orðið sem notað hefur verið um þetta – að vísu skaut hinn frábæri óróapúls upp kollinum, en það er annað mál.

En hvað er sviðsmynd? Orðabók íslensk segir okkur að sviðsmynd sé leikmynd á sviði, í kvikmynd eða í sjónvarpi. Önnur orðabók segir að sviðsmynd sé leiktjöld og aðrir munir á sviði á leiksýningu. Hvernig stendur þá á því að fólk tekur upp á því að tala um ástand og horfur í tengslum við jarðhræringar og hugsanlegt eldgos og kalla það sviðsmynd. Þau vísindi eiga fátt skylt við leikhús eða bíó.

Vinur minn, sem er miklu meiri málamaður en ég, sagði mér, þegar ég spurði hann, að hérna væri örugglega um að ræða þýðingarvillu eða mislestur í orðabók. Hér væri örugglega verið að tala um eitthvað sem væri kallað scenario á ensku og ef til vill öðrum málum. Svo ég fletti upp í ensku orðabókinni minni og viti menn: Þar segir: Scenario ... 1 sviðsetningarhandrit (óperu, kvikmyndar o.s.frv.) Það virðist vera sem sá sem þurfti að segja scenario á íslensku hafi látið hér við sitja og snarað þessu sviðsetningarhandriti yfir í sviðsmynd, sem er reyndar nokkur ónákvæmni. En sá sem hér var að verki virðist ekki hafa lesið nema aðra tveggja skýringa á orðinu scenario í orðabokinni, hin er: 2 framtíðarmynd (í spá), framtíðarsýn.

Þetta sem fólk, jafnvel vísindafólk, hefur tönnlast á síðustu dagana, sviðsmynd, gæti eftir aðstæðum verið framtíðarsýn, framtíðarmynd, útlit, atburður, atburðarás, aðstæður, ástand, viðfangsefni, mál, kringumstæður, ferli, staðhættir, möguleikar, tilgáta, framvinda, horfur og sjálfsagt margt annað, sem of langt yrði að telja upp hér.

Leyfum leikhúsum og kvikmyndum endilega að eiga sviðsmyndir sínar en tölum um annað, eins og jarðhræringar og hugsanleg eldgos, á skiljanlegra máli. Og þegar þýða þarf eitthvað úr ensku eða öðrum tungumálum, munum þá að fyrsta skýringin af mörgum er ekki endilega sú rétta. Lesum til enda og veljum það sem skynsamlegast er og fellur að málinu. Grundvallarspurning hvers íslensks þýðanda á að vera: Hvernig er réttast og einfaldast að segja þetta á íslensku?

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Heimsóknavinir

Starfsfólk Rauða krossins skrifar
28. janúar 2023 | kl. 06:00

Gljávíðir

Sigurður Arnarson skrifar
25. janúar 2023 | kl. 12:00

Kvikmyndir og raunveruleiki

Sigurður Ingólfsson skrifar
23. janúar 2023 | kl. 10:45

Hús dagsins: Lundur

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
21. janúar 2023 | kl. 06:00

Ekkert vandamál er of lítið eða stórt

Starfsfólk Rauða krossins skrifar
21. janúar 2023 | kl. 06:00

Stjörnuljós í Hofi

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
18. janúar 2023 | kl. 18:00