Fara í efni
Pistlar

Slides

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 29

Það henti ekki nema endrum og sinnum að haldin voru slides-kvöld í húsum fjölskyldunnar á Syðri-Brekkunni, vanalega þó að vetri til og vel fram á vor, en þá var reynt að telja sér einhverja lítilfjörlega trú um að sumarið fram undan yrði með skaplegra móti.

Og því var um að gera að varpa á veggi heimilisins því valda safni sem til var af bestu augnablikum síðasta sumars. Og ylja sér við endurminningarnar.

En það þurfti að hafa fyrir þessu. Mikil ósköp. Gott ef við Gunni bróðir þurftum ekki báðir að aðstoða pabba okkur við að koma sjálfri sleðagræjunni ofan úr efri skápunum innan úr hjónaherbergi, þar sem hún var geymd í upprunalega kassa sínum, en það var þó aðeins forleikurinn að því sem koma skyldi. Því helsta vinnan var að raða í hólfin. Það þurfti nefnilega að lyfta hverjum slides-rammanum upp í ljóma Luxor-lampans til að sjá hvaða mynd átti heima á eftir þeirri næstu á undan, og vanalega var kvöldskammturinn um tíu sleðar af myndefni, tilbúnir að tikka framhjá auga vélarinnar.

Svo var gestum vísað til stofu, öfum, ömmum og frændfólki, og jafnvel boðið upp á innflutt Macintosh með Braga-kaffinu, en Jolly Cola fyrir styttra komna.

En því næst birtust ævintýri fjölskyldunnar um allt land, ferðirnar í Vaglaskóg og að Mývatni, austur yfir Tjörnesið, að Ásbyrgi, og þá fyrst saup Sigmundur afi hveljur þegar myndir tóku að birtast af gula Seglagerðistjaldinu okkar í Atlavík, en það fannst honum svo aldeilis erlendis.

Svo endaði slides-kvöldið með nokkrum vel völdum minningum úr Borgarfirði eystra, heima hjá Bubba frænda, en svo erfitt var að komast þangað út eftir örmjóum Njarðvíkurskriðunum að frekar færi móður mín um þann farartálma á fótunum, en á Cortinu karlsins hennar.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SUNNUDAGSSTOFA

Hús dagsins: Syðra-Gil

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:30

Skautun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:00

Fíflin á götum Akureyrar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
20. júlí 2024 | kl. 06:00

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30