Fara í efni
Pistlar

Skógrækt og fæðuöryggi

TRÉ VIKUNNAR - 120

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Ísland er sannkölluð matarkista og magn þeirra matvæla sem héðan er flutt er margfalt meira og verðmætara en það sem er flutt inn (Hagstofan 2025; Erla Sturludóttir o.fl. 2021). En þrátt fyrir að matvælaútflutningurinn sé mjög arðbær, er hann einhæfur og samanstendur nær eingöngu af sjávar­afurðum. Og ein þjóð nærist ekki á fiski eingöngu. Þess vegna þarf að flytja hingað úrval annarra matvæla, mest kornmeti, grænmeti og ávexti. Kjöt- og mjólkurframleiðsla innanlands er líka að stórum hluta byggð á innfluttu fóðri (Erla Sturludóttir o.fl. 2021).
 
Rýrt land sem nýtt er til beitar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.

Rýrt land sem nýtt er til beitar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.

Stór hluti Íslands er nýttur til sauðfjárbeitar, þar á meðal hálendið. Nýting láglendissvæða er einnig að stórum hluta til beitar og þar bætast við hestar og nautgripir. Ræktuð tún og akrar þekja um 1% af flatarmáli landsins (Erla Sturludóttir o.fl. 2021). Samantekið þýðir þetta að nær allt tiltækt land á Íslandi er nýtt til matvælaframleiðslu, þótt yfirleitt sé framleiðni landsins lítil.

Vegna þeirra takmarkana sem loftslagið á Íslandi setur og vegna smæðar markaðarins, mun framleiðsla innanlands ekki nema að hluta til geta keppt við innfluttar vörur. Innflutningurinn verður því um fyrirsjáanlega framtíð mjög mikilvægur fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar.

Skógar á Íslandi þekja í heildina um 2% landsins. Þar af þekja náttúrulegir birkiskógar og -kjarr 1,5%. og áform eru uppi um að rækta skóga til við­bótar á 0,6% landsins fyrir árið 2040 (Matvælaráðuneytið 2022). Á sama tíma er áformað að hefja vinnu við aukna útbreiðslu birkiskóga þannig að þeir þeki um 5% landsins á næstu áratugum. Er aukin skógrækt þar með ógn við matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar? Eða mun aukin skógrækt skapa tækifæri til aukinnar kornræktar, garðræktar o.fl. og vera jafnvel forsenda fæðuöryggis þjóðarinnar til langs tíma?

Megnið af flatarmáli Íslands hentar illa til matvælaframleiðslu og meira að segja illa til sauðfjárbeitar. Um 40% Íslands eru auðnir og nær öll önnur svæði eru rofin að einhverju leyti eða illa gróin. Þau svæði sem á hverju ári eru tekin til skógræktar voru áður að stærstum hluta nýtt til sauðfjárbeitar. Ætli nokkrum detti í hug að andmæla skógrækt á gömlu beitilandi í nafni fæðuöryggis? Færa má rök fyrir því að það sé ekki skortur á landrými sem standi sauðfjárrækt fyrir þrifum heldur skipti landgæði, beitarstjórn og skipulag landnýtingar meira máli. Vandamál sauðfjárræktar er lítil fram­leiðni og lítill arður, þannig að hún er varla stunduð nema með háum ríkis­styrkjum eða sem áhugamál, nema hvort tveggja sé (Stjórnarráðið e.d.; Merida o.fl. 2024). Styrkirnir eru leið stjórnvalda til að bæta rekstrarskilyrði og stuðla að fæðuöryggi. Þessi rekstrarskilyrði má líka bæta með því að auka landgæði, til dæmis með ræktun skóga og skjólbelta. Skógar þola stýrða beit mjög vel þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri og eins og vikið er að hér á eftir bæta skjólbelti staðviðri og um leið skilyrði fyrir allan gróður, þar með líka beitargróður. Ræktun skóga og skjólbelta getur því stuðlað að því að á heimalöndum bænda verði til gjöful beitilönd sem gefa færi á því að stytta þann tíma sem fé er haft á fjalli eða jafnvel losna alveg við upp­reksturinn á vorin og smölun á haustin. Bæti þetta rekstrarskilyrði sauðfjár­ræktar hlýtur það að vera liður í því að auka fæðuöryggi um leið og það eflir gróðurauðlindir landsins.

Nýskógrækt á rofnu landi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.
Nýskógrækt á rofnu landi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.

Gróinn úthagi getur hentað vel til beitar, en til akuryrkju henta eingöngu slétt, steinlaus svæði. Akuryrkju- og túnræktarsvæði á Íslandi eru yfirleitt framræstar mýrar, gamalt mólendi eða sandar. Skógrækt gengur best í brekkum og fjallsrótum, þar sem er nægt framboð af vatni og hagstætt nær­viðri, þó flest annað land komi til greina, þ.m.t. rofið, illa gróið eða ör­foka land ellegar grýtt og jarðgrunnt, óplógtækt land. Flatlendi getur nýst ágæt­lega til skóg- og skjólbeltaræktar sé undirbúningur landsins nægur. Flatar­mál virks ræktunarlands hefur dregist mikið saman undanfarna ára­tugi (Erla Sturludóttir o.fl. 2021). Ef ráðist verður í átak til að auka kornrækt í landinu mætti endurrækta aflagt ræktunarland og brjóta nýtt land á ein­hverjum af þeim víðfeðmu láglendissvæðum sem lítið sem ekkert eru nýtt í dag.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Pétur Halldórsson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga. Pétur, Úlfur Óskarsson og Aðalsteinn Sigurgeirsson eru starfsmenn Lands og skógar

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Kanínur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 11:30

Eldhúsdagsumræður

Jóhann Árelíuz skrifar
29. júní 2025 | kl. 06:00

Lýsið frá Tona og Jónda

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. júní 2025 | kl. 10:00

„Við erum einu skrefi frá því að sagan endurtaki sig“

Halldóra Margrét Pálsdóttir skrifar
26. júní 2025 | kl. 08:15

„Ég yfirgaf ekki Rússland, Rússland yfirgaf mig“

Sveinn Brimar Jónsson skrifar
26. júní 2025 | kl. 08:15

Skaðvaldar á birki

Sigurður Arnarson skrifar
25. júní 2025 | kl. 09:30