Fara í efni
Pistlar

Skógar og ásýnd lands

TRÉ VIKUNNAR XX

Það er kunnara en frá þurfi að greina að ásýnd Íslands var ekki sú sama við landnám og nú er. Landið var allt betur gróið og 25-40% landsins var skógi vaxið. Undraskamman tíma tók forfeður okkar að breyta þessari ásýnd. Skógum var miskunnarlaust eytt og landgæðum hnignaði í kjölfarið. Eftir meira en aldalanga baráttu skógræktarmanna hefur þó tekist að klæða og viðhalda skógum og kjarri á um 2% landsins. Þar af þekja ræktaðir skógar rétt innan við hálft prósent. Ef við notum alþjóðlegar skilgreiningar og miðum við að skógar þurfi að vera fimm metrar á hæð hið minnsta, lækkar heildartala skóga niður í 0,5%. Stefnt er að því að auka þekju skóga enn meir, jafnvel tvöfalda hana, svo skógar og kjarr nái að þekja um 4% landsins. Þó að ekki sé víst að þetta markmið náist á næstu þrjátíu árum er mikilvægt að velta því fyrir okkur hvaða áhrif þessir skógar kunna að hafa á útivist og ásýnd lands. Þá er einnig gott að hafa í huga að jafnvel bjartsýnustu menn gera ekki ráð fyrir að skógar nái að þekja nema örfá prósent landsins.

Skógar og tré við Mývatn ramma inn útsýnið. Mynd: Sig.A.

Auðnir heilla

Við getum ekki horft fram hjá því að auðnir geta verið heillandi á sinn hátt. Í bókinni Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason fer saman vel skrifaður og skemmtilegur texti. Hér er brot af bls. 34 þar sem fjallað er um auðnir Íslands.

„Landið hafði verið numið af fólki sem flúði ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs á árunum kringum 900 og sú kenning var forn að landnámsmenn Íslands hefðu flestir verið hárlitlir menn; rammsköllóttir eða illa hærðir kollvikakóngar og strýhærðar konur þeirra. Skallagrímssynir og taðskegglingar upp til hópa. Konungur hlaut enda viðurnefni sitt af því heiti sínu að skerða ekki hár sitt fyrr en það næði niður í alla firði Noregs; frumbyggjar Íslands voru því einskonar hárflóttamenn. Enda hófu þeir þegar að trjáhreinsa sitt nýja land. Allar götur síðan hafa Íslendingar verið lítið fyrir gróður í hlíðum jafnt sem á höfði en una sér best á berangri, vilja sjá til hafs, og þola hvorki lauf né lufsur í augum. Fátt þykir þeim fegurra en jökulskalli sem ber við loft og þeir heimta sín fjöll og sínar heiðar með öllu hárlausar.“

Svei mér ef þetta er ekki rétt hjá Hallgrími.

Birkiskógur klæðir Skeiðarársand þar sem áður var svartur sandur. Því miður sást ekki til jökla vegna veðurs þegar myndin var tekin, en það er ekki birkinu að kenna. Mynd: Sig.A. 

Horft frá Dimmuborgum yfir birkiskóg í átt til Mývatns. Mynd: Sig.A.

Ferðamannastaðir

Áður en lengra er haldið langar okkur að biðja þig, lesandi góður, að ímynda þér að við þig hafi samband fjarskyld og forrík frænka frá Vesturheimi. Hún ætlar að koma í stutta ferð til landsins og er með öfluga þyrlu til umráða. Hún vill fá þig til að sýna sér 10 áhugaverða staði á landinu. Fjarlægð og kostnaður skiptir engu máli.

Vonandi gekk þessi hugartilraun vel.

Fátt er búsældarlegra á Íslandi en vel hirt tún í skjóli skóga. Mynd: Sig.A.

Nú langar okkur að spyrja: Hversu margir þessara staða eru á einhvern hátt skógi vaxnir? Voru Þingvellir, Skaftafell, Kjarnaskógur, Hallormsstaður, Þórsmörk, Heiðmörk, Leyningshólar, Skógarböðin í Vaðlaskógi, Dimmuborgir eða Ásbyrgi á listanum? Hversu hátt hlutfall þeirra staða sem þú valdir handa frænku þinni eru meira eða minna skógi eða kjarri vaxnir eins og á listanum hér að framan? Samt þekja skógar landsins (kjarr meðtalið) aðeins um 2%.

Við sækjum í skóga. Skógi vaxin svæði laða að sér fólk. Mest sótti ferðamannastaður á Austurlandi er Hallormsstaðaskógur. Kjarnaskóg heimsækja þúsundir manna, árið um kring. Sama á við um Heiðmörk, Þórsmörk og fleiri skógi- og kjarri vaxin svæði.

Skógar breyta nærviðri og veita okkur kærkomið logn ásamt fegurð og rólegheitum.

Rifjaðu nú upp eins og fimm tjaldstæði sem þú getur mælt með fyrir vini og kunningja. Hversu mörg þeirra eru á berangri og hversu mörgum er skýlt með trjágróðri?

Horft yfir Kjarnaskóg og tjaldstæðið á Hömrum til Akureyrar. Væri tjaldstæðið jafn vinsælt og raun ber vitni ef skógarskjólsins nyti ekki? Mynd: Sig.A.

Skógar og útsýni

Rétt er að hafa það hugfast að landslag breytist ekki að ráði þótt það verði hlýlegra. Fjöll hverfa ekki, gljúfur fyllast ekki, firðir verða áfram á sínum stað og svo framvegis. Ekkert af þessu hverfur þótt gróður klæði landið og skógar verði hluti af landslaginu. Samt er það svo að sýn getur breyst þegar skógar vaxa upp. Það á ekki hvað síst við um útsýni af þjóðvegum landsins. Hvergi eru samt það stórir og samfelldir skógar að þeir komi í veg fyrir fjallasýn nema í örfáar mínútur í einu. Vissulega er hægt að stilla sér þannig upp, t.d. í Kjarnaskógi, að ekki sjáist til fjalla. Samt er það svo að ekki þarf að ganga lengi þar til hægt er að skoða þau, ef löngunin hellist yfir fólk.

Hér verða tekin örfá dæmi um hversu jákvæð áhrif skógar hafa á útsýni og upplifun, en dæmin eru auðvitað mýmörg.

Birki klæðir móbergið við Brúarhlöð við Hvítá. Mynd: Sig.A. 

Skógar í fjallsrótum

Rannsóknir sýna að flestir ferðamenn sem koma til landsins eru að sækjast eftir náttúruupplifun. Helst er þá nefnt hversu fjölbreytt landið er með öllum sínum andstæðum. Margir trúa því jafnvel að hér komist þeir í „ósnortna náttúru“. Slíkir staðir eru vissulega til, svo sem á jöklum. En gróðurleysi landsins er fjærri því að teljast óspillt náttúra. Þvert á móti. Landið er mótað af rúmlega ellefu alda byggð í landinu.

Við skulum samt ekki vanmeta þá upplifun sem fylgir því að vera í auðnum Íslands. Sumar þeirra kunna jafnvel að vera náttúrulegar, þótt aðrar séu manngerðar. Meginhluti láglendisins á ekki að vera eyðimörk, nema í kjölfar náttúruhamfara. Náttúran sjálf græðir aftur upp slík svæði ef hún fær tækifæri til. Þetta má t.d. sjá á Skeiðarársandi þar sem birkiskógur er að vaxa upp. Er rétt að höggva hann niður áður en hann skyggir á jökla þegar ekið er eftir þjóðveginum á hámarkshraða?

Með því að hafa skóga í fjallsrótum og í hlíðum þeirra vinnst tvennt sem tengist upplifun og útsýni. Í fyrsta lagi virka fjöllin hærri. Þau eru það auðvitað ekki, en skóglaust fjall ofan við skóg virkar hærra og þar með tilkomumeira en þegar allt umhverfið er hrjóstrugt.

Svo aukast andstæðurnar til muna fyrir tilstilli skóga. Það er mun áhrifaríkara að aka úr vel grónu, jafnvel skógi vöxnu landi, og upp í eyðimerkurnar þar fyrir ofan en þegar ekið er upp úr uppblásnum láglendissvæðum upp í samskonar hálendi. Þannig geta vel staðsettir skógar aukið andstæðurnar í náttúru landsins.

Á Silfrastöðum má sjá skóg í fjallsrótum. Það er eins og fjallið virki hærra og tilkomumeira vegna skógarins. Mynd: Sig.A.

Opnanir

Fátt skapar oftar svokölluð „vá-andartök“ en vel heppnaðar opnur í skógum. Þegar farið er um fagran skóg og svo opnast, allt í einu, eitthvert magnað útsýni! Þá sjáum við fjöll, ár eða eitthvert annað landslag innrammað í skógarramma. Má nefna fjölmörg dæmi um þetta. Þegar keyrt er um Vaðlaskóg opnast svona svæði með útsýni til Akureyrar. Væri það jafn tilkomumikið ef bærinn sæist allan tímann? Stoppar fólk utar í firðinum til að skoða bæinn? Svipað gerist þegar gengið er um skóginn. Gamli stígurinn liggur upp á kletta þar sem stórkostlegt útsýni blasir við. Að vísu er þar ekki jafn mikið skjól og í skóginum, en þetta er svona staður þar sem ferðamenn stoppa, taka myndir og segja „vá!“. Nýi stígurinn býður einnig upp á svona staði.

Horft í átt að Seljalandsfossi. Skjólbelti prýða svæðið. Mynd: Sig.A.

Sambærilega staði má sjá um allt land. Þegar ekið er í áttina að Hallormsstaðaskógi er ekið yfir háls einn áður en komið er að bænum Strönd. Þar má oft sjá bíla sem hafa stoppað og fólk sem tekur myndir af Fljótinu og Snæfelli með skóginn í forgrunni. Þegar ekið er hinum megin við Fljótið sést það nær allan tímann. Það heyrir til undantekninga að það sjáist til ferðamanna sem stoppa þar til að taka myndir og segja „vá!“.

Þetta stafar væntanlega af því að skógarnir auka á andstæðurnar sem margir sækjast eftir. Hugsið ykkur bara hvað opnanir á jöklana á Skeiðarársandi verða glæsilegar þegar keyrt er út út birkiskóginum!

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30