Fara í efni
Pistlar

Nangijala og bræðurnir Ljónshjarta ljóslifandi

LEIKHÚS„Það er ekki alltaf allt gott og fallegt í lífinu,“ sagði ég við sex ára son minn þegar við vorum að bíða eftir því að sýningin Bróðir minn Ljónshjarta myndi hefjast á Melum. Ég hafði fundið til skyndilegrar löngunar til þess að vara hann við, að það yrði eitthvað sorglegt og jafnvel eitthvað svolítið ógnvekjandi í leikritinu sem við vorum að fara að sjá saman. „Af hverju erum við að fara á leikrit sem er kannski sorglegt og hræðilegt?“ spurði hann. Bæði fyrir og eftir sýninguna, sköpuðust líflegar og djúpar umræður okkar á milli, um tilveruna, lífið og dauðann. Þannig á leikhúsferð einmitt að vera, vekja umhugsun og samtal. 

Leikfélag Hörgdæla frumsýndi í vikunni leikritið Bróðir minn Ljónshjarta, sem er samið upp úr ástsælli sögu Astrid Lindgren um tvo bræður, Snúð og Jónatan, sem hittast í ævintýralandinu Nangijala eftir dauðann. Þeir eru báðir lifandi, á jörðinni, þegar leikritið hefst. Þá er Snúður mjög veikur og ekki hugað líf, en Jónatan eldri bróðir hans er hvers manns hugljúfi og álitinn eiga langa og bjarta ævi framundan. Svo taka örlögin í taumana og bræðurnir tveir hittast, fyrr en við var að búast, við árbakkann í Nangijala. Þar sem ævintýri sögunnar hefjast fyrir alvöru. 

Sögupersónur í Bróðir minn Ljónshjarta eru ljóslifandi og leikhópurinn á Melum stóð sig vel við að skila þeim til áhorfenda. Snúður er í raun bæði söguhetja og sögumaður, en hann er einstaklega vel túlkaður af Katrínu Birtu Birkisdóttur, 12 ára. Jónatan Ljónshjarta er leikinn af Eden Blæ Hróa, 21 árs, og hán stendur sig virkilega vel. Persóna Jónatans var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil, en ég las bókina nokkrum sinnum. Mér fannst Jónatan Ljónshjarta vera í senn góðhjartaður, hugrakkur og fallegur, kannski hin fullkomna mannvera - ef slíkt er til. Samband bræðranna er burðarstykkið í sögunni, og mér fannst Katrín og Eden Blær skila bræðraástinni af mikilli hlýju til áhorfenda.

Katrín Birta Birkisdóttir og Eden Blær Hróa í hlutverkum sínum sem Snúður og Jónatan Ljónshjarta. Bræðrakærleikurinn ber söguna uppi. Mynd: Leikfélag Hörgdæla

En hvað er Nangijala? Er það Himnaríki? Sumarlandið? Staðurinn sem við förum á þegar við deyjum? Það sem er áhugavert að velta fyrir sér, um Nangijala, er að þar er alls ekki allt gott og fallegt. Jónatan segir Snúði, í upphafi sögunnar, að í Nangijala sé allt gott. Þar rætist allir draumar og varðelda og ævintýri beri upp á hvern dag. Þó að hamingjan ráði ríkjum þegar Snúður hittir bróður sinn aftur, kemur fljótt í ljós að það eru ill öfl í Nangijala líka. Rétt eins og á jörðinni. Alls staðar er tilvera mannanna lituð af baráttu góðs og ills, og það er skylda réttlátra að berjast gegn hinu illa, „vegna þess að annars ertu ekki manneskja, heldur bara lítið skítseyði.“ Svo við vitnum í Jónatan Ljónshjarta.

Leikritið kemur til okkar frá Leikfélagi Hörgdæla á góðum tíma. Við fylgjumst með stríði í öðrum löndum og börnin okkar spyrja spurninga. Eiga erfitt með að skilja að þessi stríð þurfi að eiga sér stað. Þó að það sé ekki hægt að útskýra það, sérstaklega þegar maður skilur það ekki sjálfur, þá er gott að rifja upp sögur fyrir börn sem taka á spurningum um líf og dauða í heimi mannanna. Og það sem alltaf stendur upp úr í sögunni um Bræðurna Ljónshjarta, þrátt fyrir stríð, illa svikara og eldspúandi dreka, er kærleikurinn og hugrekkið. Vonin og trúin á hið góða í manneskjunni.

Það er stórt verkefni að koma heilu ævintýralandi á svið í litlu leikhúsi, en Leikfélagi Hörgdæla tekst það vel. Háir, færanlegir veggir eru fluttir um sviðið og snúið við eftir því hvar við erum stödd í sögunni. Einnig nýtir leikhópurinn salinn og stundum berst sýningin upp í návígi við áhorfendur, sem heppnast vel og heldur áhorfendum á tánum. Vert er að minnast á að veggirnir eru afskaplega vel málaðir, sérstaklega Kirsuberjadalur, heimkynni bræðrana í Nangijala. Bleik kirsuberjatrén og heiðblái himinninn eru mér enn fersk í minni. 

Allur leikhópurinn á skilið hrós. Persónurnar eru ljóslifandi og bera ævintýrið uppi með líflegum og góðum leik. Leiksýning er þó aldrei eins góð og teymið sem skapar sviðsmyndina, ljósin, hljóðheiminn og allt hitt sem gerist utan sviðs. Þar býr Leikfélag Hörgdæla greinilega að góðu fólki, og leikstjórinn, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, má vera stolt af sýningunni sem þau hafa skapað saman. Vert er að minnast á að tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sér um hljóðheim verksins og tekst vel til. Niðurstaðan er falleg sýning sem hrifsar mann úr grámyglulegri vorhlákunni, inn í ævintýraheim Nangijala þar sem allt getur gerst.

Reiði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. september 2024 | kl. 08:50

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45

Verkstjórar eigin hugmynda

Magnús Smári Smárason skrifar
10. september 2024 | kl. 15:45

Kaupfélag verkamanna

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. september 2024 | kl. 10:30

Apótekaralakkrísinn

Jóhann Árelíuz skrifar
08. september 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15