Andleg klósettþrif milli vídda

DREKADAGBÓKIN - 5
Ég lagði af stað úr bænum með hundrað áhyggjur á herðunum, en ég skildi þær eftir við Hrossaborg.
Andleg hleðsla þessa árs loksins hafin, vikulöng skálavarsla í Drekagili. Kannski finnst einhverjum að andleg hleðsla ætti ekki að innihalda klósettþrif og skúringar í skála, en það er nokkurn vegin þannig, að mér er alveg sama hvað ég tek mér fyrir hendur á fjöllum. Það er staðsetningin sem hleður mig. Rósemin. Andleg klósettþrif í hægum gangi.
Svo er lífið á fjöllum alltaf viðburðarríkt ef kveikt er á öllum skilningarvitum. Þegar þetta er skrifað er ég bara búin að vera hérna í tæpan sólarhring, en ég er strax komin með handfylli af sögum sem eru ólíkar þeim sem ég safna í dagsins önn í byggðum. Hér fylgir fyrsta sagan, um óvenjulegar móttökur hálendisins.
Drekagil og skálaþyrpingin þar. Lengst til hægri er Víti, aðstöðuhús og kaffisala skálavarða. Lága húsið eru salerni og sturtur. Lengst til vinstri sjáum við A skálann 'Gamla Dreka' og nýrri svefnskálann Öskju. Aftast á myndinni er Fjólubúð, þar sem skálaverðirnir búa og aðeins glittir í skála landvarðanna á svæðinu þar fyrir aftan. Mynd: RH
Á leiðinni eftir fjallvegi F88, frá þjóðveginum við Hrossaborg, framhjá Herðubreiðarlindum og upp í Drekagil, fór strax að draga til tíðinda. Ég fékk að keyra bíl Ferðafélags Akureyrar, fallega gráan Hilux, og var í fyrsta skipti að keyra svona stóran bíl. Fékk kikk útúr því að keyra yfir Lindána og fannst ég bara frekar nett. En það er ekki sagan sem ég ætla að segja.
Um það bil hálfa leið frá þjóðveginum, er Tumbi. Lítill hlaðinn „kofi“ Fjalla-Bensa. Skammt eftir að keyra fram hjá honum fer vegurinn að verða ansi kræklóttur, svolítið eins og maður væri að keyra eftir risavöxnum hreindýramosa. Hraunið í kring er úfið og allskonar, og margt að sjá. Með mér í bílnum var Jónína Sveinbjörnsdóttir, sem var að fara í skálavörslu í Herðubreiðarlindum.
Jónína var að segja mér frá einhverju, þegar ég sé ferðamann framundan í hrauninu. Hann var skammt frá veginum, gangandi. Ég sá aftan á hann, hann var með bakpoka og mér fannst hann hafa upprúllaða dýnu fasta á honum. Hann var með húfu.
Ég hugsaði að þarna væri göngumaður einsamall, eflaust á leið upp í Lindir. Fljótt nálguðumst við manninn, og þegar ég ætlaði að benda Jónínu á hann, var hann horfinn. Ekki nema nokkrar sekúndur höfðu liðið. Ég spurði hana hvort hún hefði ekki tekið eftir göngumanninum, það er ekkert mjög algengt að sjá fólk á göngu þarna. Hún varð hissa og sagðist engan hafa séð.
Ímyndun eða ekki, þá fór um mig svolítill hrollur. Hver var hann? Svipmynd frá annarri öld? Minning? Ævintýraþorstinn í mér að búa til efnivið fyrir næstu sögu?
Skynjunin er marglaga, á hálendi Íslands. Allt og ekkert getur gerst. Mynd frá Nautagili: RH
Það er einhvernvegin svoleiðis, að á þessum stað, fær ímyndunaraflið nýjar víddir ef maður leyfir sér að klæða sig úr rökhugsun og excel skjölum. Hver segir að það þurfi að geta útskýrt allt?
Hver veit nema þessi dularfulli göngumaður birtist mér aftur í Drekagili í dag? Mitt í andlegum klósettþrifum.
_ _ _
- Í Drekadagbókinni eru hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar í Drekagili við Öskju, þar sem hún sinnir skálavörslu sumarið 2025 fyrir Ferðafélag Akureyrar. Rakel Hinriksdóttir er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net.
DREKADAGBÓK 2024


Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

Að gleyma sér

Bláminn á barrinu
