Á fjöllum erum við öll í sama liði

DREKADAGBÓKIN - 7
Hann stóð þarna og þreif sand úr augunum með blautu bréfi. Svo sagði hann mér undan og ofan af ævintýrum þeirra fjórmenninga fyrsta sólarhinginn á Íslandi. Ferðin hófst þegar þeir náðu landi í Seyðisfirði og keyrðu frá ferjunni á mótorhjólunum sínum. Fjallavegirnir leiddu þá frá Austurlandinu og upp í Drekagil, en það var ekki vandræðalaust.
Til þess að komast yfir vöðin, leiddu þeir hvert hjól yfir þrír saman, og urðu blautir í fætur. Vatnsbröltið var ekkert sem kom á óvart, þetta vissu þeir áður en þeir lögðu af stað. Það voru sandarnir sem voru erfiðastir. Mótorhjólin fóru hægt yfir og áttu erfitt með að ná ferð, og svo voru þvottabrettin ekki að gera góða hluti fyrir þann elsta í hópnum sem var nýbúinn að jafna sig þokkalega af brjósklossaðgerð.
Þeir komu upp í Drekagil í gærkvöldi um tíuleytið og tjölduðu, áður en þeir steinrotuðust eftir aðeins öðruvísi ferð en þeir bjuggust við. Í dag er svo búið að vera mjög hvasst, hviður vel yfir 20 metra á sekúndu og alls ekki ferðaveður fyrir mótorhjól á miðhálendinu. Þeir eru búnir að sitja inni í skála hjá okkur í allan dag og spila, hlæja og spjalla.
Strax á fyrstu tveimur sólarhringunum er allt ferðaplanið þeirra búið að riðlast til, enda ólíkindatól þessi eyja. Ég spurði hann hvað honum fyndist um Ísland, eftir þessa tvo daga. Fantastic! sagði hann strax. Hæstánægður með það að lenda strax í ævintýrum og mótvindi.
Hávaðarok og sandgusur í Drekagili. Skálavörðurinn ennþá úfnari en vanalega, og gestir staðarins leita skjóls. Myndir: RH
Við Íslendingar getum verið svolítið hlédræg. Við erum ekki mikið að gefa okkur að ókunnugum að ástæðulausu, hvort sem um ræðir útlendinga eða aðra Íslendinga. Ég áttaði mig ekki almennilega á þessu fyrr en ég bjó í fjögur ár í Bandaríkjunum. Það tók mig heilt ár að venjast því að vera stöðugt að lenda í spjalli við ókunnugt fólk, um allt og ekkert.
Á fjöllum er þetta öðruvísi. Hérna er færra fólk og allir meðvitaðir um að það er ekki hægt að útvega hvað sem er, hvenær sem er - eins og í byggðum. Fólk veitir hvort öðru athygli og býður fram aðstoð sína ef eitthvað vantar. Innan skekkjumarka, reyndar. Eitt sinn frétti ég af göngumanni sem ætlaði að fara á Hornstrandir með ekkert meðferðis, í strigaskóm og gallabuxum. Hann mætti allslaus í bátinn, og þegar hann var spurður um það, hvernig hann ætlaði sér að lifa af í óbyggðum, þá sagðist hann hafa lesið einhversstaðar að á göngu um Ísland væru allir svo gestrisnir og vinalegir. Fólk deildi með sér mat sínum og hann ætlaði að reiða sig á það. Skemmst er frá því að segja að hann fékk ekki að fara með bátnum.
Í gær kom hingað ung kona. Hún var bersýnilega búin að vera úti um tíma og var vel búin útivistarfatnaði. Henni var töluvert niðri fyrir, vegna þess að hún hafði gleymt bakpokanum sínum með öllu sem hún hafði með sér, í læstum skúr á bílastæðinu við Vikraborgir. Landverðirnir í Drekagili voru að vinna í því fyrir hana að endurheimta pokann, en á meðan var hún allslaus.
Hún fékk hjá okkur Prins Póló og var mjög þakklát, sagðist ekki hafa borðað í allan dag. Inni í skálanum sat maður frá Sviss, sem var búinn að vera hjá okkur í eina nótt. Hann heyrði á tal okkar, og gaf sig að konunni. Hann sagðist vera að fara að fá sér að borða, en væri með svo mikið að hann myndi endilega vilja bjóða henni að borða með sér. Hún var hissa, en þakklát, og þáði boðið. Svo sátu þau saman og hann deildi með henni klassískri útilegusúpu, sem hann hefði eflaust getað klárað einn.
T.v. Mótorhjólamennirnir vösku reyna að þrífa innvolsið á einu hjólinu. Sandurinn hefur smokrað sér inn í allar glufur. T.h. Engum tókst að tjalda í Drekagili þennan daginn, þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir og samvinnu. Myndir: RH
Mótorhjólamennirnir sitja ennþá og spila á spil. Skálinn er þess utan fullur af fólki, flest eru komin til þess að leita skjóls í vondu veðri. Rétt í þessu fýkur hurðin upp, og hurðarhúnninn rifnar af. Tveir íslenskir menn sem hafa setið inni með fjölskyldum sínum hlaupa til og loka hurðinni. Það kemur á daginn að annar þeirra er smiður og hinn á verkfæri í bílnum sem hægt er að nota, og nú eru þeir að hjálpast að við að laga hurðina fyrir okkur.
Þreytuleg þýsk kona kemur inn þegar dyrnar eru komnar í samt lag. Hún er búin að ganga úr Bræðrafelli með stóran bakpoka, með sandrokið í fangið. Hún er ein á ferð og óskar eftir því að fá að tjalda í Drekagili. Í dag hefur engum tekist að koma niður tjaldi, þó að nokkrir hafi reynt. Ég vara hana við, en hún er ákveðin í að reyna. Skömmu seinna kemur maður inn, skoskur maður sem reyndi að tjalda fyrr um daginn en gafst upp og keypti sér svefnpokapláss í skálanum.
Hann gefur sig að íslensku fjölskyldunum tveimur, dyrasmiðunum okkar góðu. Þau eru á stórum hálendishúsbílum, og Skotinn spyr hvort að það væri í lagi, að kona nokkur fái að tjalda í skjóli frá bílunum þeirra. Það er sjálfsagt mál þeirra vegna og ég rölti með honum út aftur. Þar er hann, í annað skiptið í dag, að reyna að tjalda í rokinu. Í þetta skiptið ekki sínu eigin tjaldi, heldur er hann að aðstoða þýsku konuna. Hún er við það að verða uppgefin, og fljótt gefst hún upp og biður um að fá að gista í skálanum. Eitt rúm er laust, og það er tilvalið fyrir hana.
Skyndilega minnist ég þess óvænt, þegar ég var móttökustarfsmaður á Hótel Sögu. Algengt var, að fólk hringdi niður til mín, til þess að kvarta undan öðrum gestum. Oftast vegna ófriðar af einhverju tagi. Misjöfn eru verkefnin.
Svefnskálinn okkar, Askja, er troðfullur, og minnir helst á fuglabjarg. Ljúf matarlykt leggur fyrir vit okkar þegar við röltum inn. Ólíkt fólk frá ólíkum stöðum eru saman í matsalnum að elda sér mat eða í herbergjum og svefnlofti að koma sér fyrir. Konan okkar góða fær efri koju í litlu herbergi, með ókunnugu fólki. Tvær konur sem voru að hvíla lúin bein í einu rúminu, standa strax á fætur og hliðra dótinu sínu til svo að konan geti lagt frá sér risavaxinn bakpokann.
Á fjöllum erum við öll í sama liði, sama hvaðan við komum.
_ _ _
- Í Drekadagbókinni eru hugleiðingar, frásagnir og myndefni frá dvöl höfundar í Drekagili við Öskju, þar sem hún sinnir skálavörslu sumarið 2025 fyrir Ferðafélag Akureyrar. Rakel Hinriksdóttir er listakona, skáld, náttúruverndarsinni og blaðamaður Akureyri.net.
DREKADAGBÓK 2025
DREKADAGBÓK 2024


Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

Andleg klósettþrif milli vídda

Að gleyma sér
