Jólin í eldgamla daga – Anna Lilja
JÓLIN Í ELDGAMLA DAGA
Anna Lilja Hákonardóttir,10. bekk Lundarskóla skrifar
Mamma mín er fædd árið 1986 og voru jólin hennar full af hefðum og venjum sem henni þótti mjög vænt um. Langamma og langafi minn áttu bæði afmæli í desember, 12. og 21. desember. Þann 12. desember var alltaf tertuveisla og kakó. Síðan var haldin enn stærri veisla 21. desember, nokkurs konar „litlu jól“ með hangikjöti, munnhörpuspili og pökkum fyrir litlu krakkana þegar þau fórum heim úr veislunni. Þetta voru fjölmennar veislur, enda samheldin stórfjölskylda sem eyddi miklum tíma saman, t.d. var oft gist í sumarbústað sem móðurfjölskylda mömmu átti milli jóla og nýárs. Þar var mikið fjör, allir renndu sér á skíðum, léku sér á snjósleðum og spiluð borðspil. Aðfangadagur var alltaf yndislegur, jólamynd um morguninn, möndlugrautur í hádeginu og alltaf spil í verðlaun. Eftir að föðuramma mömmu lést fór mamma alltaf í kirkjugarðinn um kl. 14 með pabba sínum og systkinum og þótti það ómissandi partur af jólunum. Maturinn var stundvíslega kl. 18:00 eftir að búið var að hringja inn jólin. Í matinn var alltaf humarsúpa í forrétt, hamborgarhryggur í aðalrétt og jólafrómans í eftirrétt. Móðuramma og afi mömmu borðuðu oft með þeim á aðfangadagskvöld. Eftirminnilegasta jólagjöfinn hennar mömmu var páfagaukurinn hennar hún Mollý.

Pabbi minn er fæddur árið 1984. Hann ólst upp í sveit til 12 ára aldurs og eru jólin hans pabba einnig full af góðum minningum. Sveitin var nokkurs konar fjölskylduóðal, þar bjuggu mörg skyldmenni mömmu hans í nokkrum húsum á jörðinni þar á meðal amma hans og afi. Jólin voru því mikil fjölskylduhátíð hjá fjölmennum barnahóp. Fjölskyldan hans pabba er mjög tónelsk og sömdu þau m.a. jólalag sem heitir Jól á Uppsölum og er enn spilað um hver jól. Pabbi á afmæli 18. desember, þann dag hélt amma alltaf stóra veislu og eftir að pabbi flutti að heiman er alltaf kaka hjá ömmu og þykir systkinum ömmu það ómissandi hefð. Í jólamatinn hjá pabba var alltaf rjúpa og hangikjöt. Gamlárskvöld var mjög eftirminnilegt, það var alltaf kveiktur varðeldur og komu mörg skyldmenni pabba saman, sungu, skutu upp flugeldum og horfðu saman á skaupið.

Jólin okkar eru líka full af góðum hefðum, sumar hefðirnar eru þær sömu og þegar mamma og pabbi voru lítil og aðrar eru nýjar. Ein hefð er að vera alltaf búin að skreyta jólatréð fyrir afmælið hans pabba. Við förum í jólahúsið og veljum við systkinin hvert fyrir sig eitt nýtt skraut á tréið. 21. desember er ennþá „fyrsti í jólum“ í okkar huga. Þrátt fyrir að langafi minn sé látinn hittist stórfjölskyldan þennan dag og á góðar stundir saman og gæðir sér á hangikjöti. Á aðfangadagsmorgun höfum við alltaf horft saman á jólamynd eða farið upp í hesthús eftir að við urðum eldri. Í hádeginu er síðan möndlugrautur og spil í verðlaun. Mamma fer enn með afa í kirkjugarðinn og förum við oftast með. Rétt fyrir kl. 18 förum við til foreldra pabba í stutta heimsókn og borðum síðan humarsúpu og hamborgarahrygg hjá fjölskyldu mömmu. Síðan koma allir saman heim til okkar, opna pakka og borða brownies og marengs. Á gamlárskvöld er ennþá brenna í sveitinni hans pabba og höfum við oft farið á hana. Mér þykir vænt um þessar hefðir hjá okkur.

Jólin í eldgamla daga – Nökkvi Jón
Jólahefðirnar mínar – Kári Fannar
Hús dagsins: Aðalstræti 74
Hástig líffjölbreytni: Skóglendi