Jólin í eldgamla daga – Eyþór Atli
JÓLIN Í ELDGAMLA DAGAEyþór Atli Rúnarsson,10. bekk Lundarskóla skrifar
Þegar foreldrar mínir voru lítil voru jólin aðeins öðruvísi en þau eru í dag. Móðir mín fæddist árið 1976 og faðir minn 1974. Pabbi man eftir því að jólatréð var sett upp og skreytt á Þorláksmessu. Það var minna um sælgæti en núna en á aðfangadag var samt alltaf heitt súkkulaði og marengskaka. Mamma segir að hjá sér hafi tréð líka verið sett upp á Þorláksmessu en börnin máttu ekki hjálpa við að skreyta það pabbi hennar gerði það sjálfur. Þau notuðu skraut sem kallaðist englahár og þurfti að setja á með hönskum því það stakk svo mikið. Hún segir að það hafi samt verið ótrúlega jólalegt að vakna á aðfangadag og sjá tréð tilbúið. Hún og systir hennar sungu svo jólalög fyrir foreldrana á meðan þau biðu eftir jólasteikinni.
Sumar hefðir hafa fylgt þeim inn í fullorðinsárin. Pabbi segir að hann haldi fast í hefðina um svínahamborgarahrygg á aðfangadagskvöld. Mamma segir að enn sé farið að sofa með brakandi hrein rúmföt á aðfangadag eins og þegar hún var lítil þó að þau hafi þá jafnvel þurft að sofa án rúmfata á Þorláksmessu því rúmfötin voru enn að þorna. Það var nefnilega ekki til þurrkari á heimilinu þá.
Þegar þau bera þessar hefðir saman við jólin í dag segja þau bæði að allt sé orðið aðeins frjálslegra. Mamma nefnir að hún hafi ekki mátt spila á jóladag þegar hún var barn og að nú sé líka skreytt miklu fyrr. Pabbi er sammála og bætir við að áður fyrr hafi engar búðir verið opnar í nokkra daga yfir jólin þannig að ef eitthvað gleymdist var maður í tómu klandri.
Skógarpöddur
Jólin í eldgamla daga – Svanhildur Anna
Jólahefðirnar mínar – Sigrún Dania
Jólahefðirnar mínar – Ýma Rúnarsdóttir