Fara í efni
Pistlar

Jólahefðirnar mínar – Brynja Dís

JÓLAHEFÐIRNAR MÍNARBrynja Dís Hafdal Axelsdóttir,9. bekk Lundarskóla skrifar


Í minni fjölskyldu höfum við ekki margar hefðir, en þó alveg nokkrar. Ein af uppáhalds jólahefðunum mínum er laufabrauðsútskurðurinn en um miðjan nóvember förum við fjölskyldan til ömmu og skerum út í laufabrauð. Við kaupum tilbúnar laufabrauðskökur og skerum út allskonar mynstur í þær á meðan við hlustum á Verkstæði Jólasveinanna. Þetta er hefð sem að ég gæti aldrei sleppt og fyrir mér byrja jólin í laufabrauðsútskurðinum.

Það er eiginlega orðin hefð að fara á jólatónleika Gospel kórsins, okkur fjölskyldunni finnst tónlistin svo falleg og líka af því að þau syngja mikið af fallegum sálmum. Við förum líka með ömmu á jólatónleikana Vitringarnir 3, og mér finnst það skemmtilegt því þeir eru svo ólíkir Gospel tónleikunum.

Næst kemur hefð sem mér finnst alls ekki jafn skemmtileg eða vel lyktandi, það er skatan. Á hverju ári höldum við skötuveislu á Þorláksmessu og bjóðum frændum okkar og afa. Á hverju ári borða ég ekkert af skötunni og á hverju ári kvarta ég yfir lyktinni. Þetta er kannski ekki alveg svona slæmt en þetta er tvímælalaust hefð sem að ég væri til í að sleppa. Við setjum svo jólatréð okkar yfirleitt upp á Þorláksmessukvöld og við systurnar skreytum það síðan saman. Mörgum finnst við setja jólatréð seint upp en við gerum það svo að kisan okkar eyðileggi það ekki. Henni finnst eiginlega skemmtilegast að vera uppi í miðju trénu en miðað við að hún sé í stærri kantinum að þá myndi jólatréð enda á hliðinni.

Ein af skemmtilegustu hefðunum er á aðfangadag en í hádeginu förum við í möndlugraut og bingó hjá vinafólki okkar. Við erum alveg frekar mörg en það er alltaf svo gaman að hitta þau, fyrir utan það að ég hef aldrei fengið möndluna. Það skemmtilega við bingóið er að allir fá vinning og það er gaman því að ég tapa alltaf. Eftir möndlugrautinn og bingóið förum við fjölskyldan heim og svo er bara allt það venjulega, mamma og pabbi að græja matinn, ég og systir mín að reyna að lesa á pakkana og finna út hvað er í þeim, mamma að skamma okkur fyrir það og síðan allir að græja sig. Amma og frændi minn koma í mat og við höfum alltaf hamborgarhrygg í matinn, mér finnst það sjúklega gott en ég borða ekki brúnuðu kartöflurnar svo að ég fæ bara venjulegar. Eftir matinn hjálpumst við öll að við að ganga frá matnum og síðan opnum við pakkana. Ég og systir mín sitjum alltaf á gólfinu fyrir framan jólatréð og skiptumst á að velja pakka og lesa á þá, síðan afhendum við pakkann til manneskjunnar sem að á að fá hann. Aðfangadagur er ekki alltaf svona eins og ég lýsti honum en þó oftast. Stundum er pabbi að vinna en þá missir hann af möndlugrautnum og bingóinu eða þá að við þurfum að opna pakkana á undan matnum áður en hann fer að vinna eða þá klukkan svona tíu um kvöld þegar hann er búinn að vinna. Mér finnst frekar leiðinlegt þegar hann er að vinna á aðfangadag en við finnum alltaf út úr því og dagurinn endar alltaf vel.

Síðast en alls ekki síst kemur lang besti dagur í heimi, það er jóladagur.

Það vakna alltaf allir glaðir á jóladag og það er allt eitthvað svo frábært. Í hádeginu löbbum við til ömmu í hádegismat og það er alltaf hangikjöt með jafningi og laufabrauði, sem er örugglega besti matur í heimi. Eldhúsið hennar ömmu er ekki stórt og eldhúsborðið er aðeins ætlað í mesta lagi fimm manneskjum og þar sem frændi minn kemur líka í mat að þá er bara ekkert pláss eftir við borðið svo að ég og systir mín borðum inni í herbergi, sem er mjög skemmtilegt og það er alltaf svo gaman hjá okkur, ég elska þessa stund með henni. Eftir matinn förum við heim og skellum okkur í náttföt. Ég er viss um að það sé besta tilfinning í heimi að fara í náttföt á miðjum degi, fara síðan upp í sófa með konfekt og jólaöl, undir teppi og lesa bækurnar sem að við fengum í jólagjöf. Ég og pabbi gerum líka oft saman krossgátur fyrir framan arininn og mér finnst það ljúf stund. Við gerum þetta á hverju ári og það er alltaf jafn gaman og notalegt. Mér finnst jóladagur vera besti dagur í heimi og fullkominn fjölskyldutími, ég elska allt við þennan dag og fyrir mér eru þetta jólin.

Takk fyrir mig, Brynja Dís.

Jólin í eldgamla daga – Anna Lilja

25. desember 2025 | kl. 06:30

Jólin í eldgamla daga – Nökkvi Jón

25. desember 2025 | kl. 06:30

Jólahefðirnar mínar – Kári Fannar

25. desember 2025 | kl. 06:30

Hús dagsins: Aðalstræti 74

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
25. desember 2025 | kl. 06:00

Hástig líffjölbreytni: Skóglendi

Sigurður Arnarson skrifar
24. desember 2025 | kl. 06:00

Þúsund ær á fæti

Jóhann Árelíuz skrifar
21. desember 2025 | kl. 06:00