Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Hafnarstræti 18; Tuliniusarhús

Einhver skrautlegustu og veglegustu híbýlin, sem fyrirfundust hérlendis í upphafi 20. aldar voru hin norskættuðu sveitserhús, einnig nefnd katalóghús. Þessi hús var hægt að panta úr sölubæklingum (katalógum) og fá þau send tilhöggvin frá Noregi. Helstu sérkenni þessara húsa voru einna helst mikil útskorin skraut á slútandi þakskeggjum og kvistum, stórir gluggar, oft með skrautlegum póstum. Þá voru flest þessara húsa talsvert stærri í sniðum en tíðkaðist hér, grunnflötur stærri, lofthæð meiri og kjallarar hærri og dýpri. Þakskegg oft slútandi og sperruendar útskornir. Svo fátt eitt sé nefnt. Húsin voru mörg hver forsmíðuð í Noregi, síðan tekin í sundur og hver einasti biti og bjálki merktur þannig að hægt væri að setja þau saman eftir leiðbeiningum. Einnig voru mörg dæmi þess að hús væru smíðuð hér að öllu leyti og katalóghús notuð til fyrirmyndar. Hafnarstræti 18, Tuliniusarhús er einmitt talið dæmi um slíkt. Heimildum virðist raunar ekki bera saman um hvort hönnuðir þess hafi verið íslenskir eða húsið komið að öllu leyti tilsniðið frá Noregi. Tuliniusarhús, sem byggt er 1902, er eitt af reisulegri og skrautlegri húsum bæjarins. Það stendur á horni Aðalstrætis og Hafnarstrætis og snýr framhlið þess að nokkurs konar torgi (bílastæði) norðan við ísbúðina Brynju. Stendur húsið á hinni eiginlegu Akureyri, smárri eyri sem mynduð er af framburði Búðarlækjar en er löngu runnin saman við síðari tíma landfyllingar.

Það var hinn 25. júní 1902 sem bygginganefnd Akureyrar kom saman á 225. fundi sínum og afgreiddi byggingaleyfi til handa „kaupmanni Otto Tulinius“. Húsið yrði 19x16 álnir, 10 álnir sunnan við bryggjuna en „parallellt“ með henni. Að vestan [m.v. legu hússins við götu, ekki vesturhlið hússins] sé „parallellt“ með götunni og standi húsið 10 álnir austur frá „fortagi“ götunnar (Hafnarstrætis). Hafði Tulinius gert ráð fyrir þessum 10 álnum (6,3m) á uppdrætti, sem fyrir lá. En ekki mátti Tulinius ráðstafa þessari spildu sinni að vild: „Þetta 10 álna svæði skal hann umgirða og nýta eingöngu sem blómgarð“. (Og hananú!) Einhverjum lesendum kann mögulega að þykja nokkur orð framandi sem þarna birtast og skulu þau því útskýrð hér: Parallellt þýðir einfaldlega samsíða, fortag (einnig nefnt fortó) er gangstétt og ein alin (álnir í fleirtölu) er 63 centimetrar.

Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Jóhannesson munu hafa hannað húsið en ekki hafa varðveist af því upprunalegar teikningar. Á kortavef Akureyrarbæjar má hins vegar finna uppmælingarteikningar Haraldar S. Árnasonar af húsinu, frá 1991. Það virðast raunar ekki liggja fyrir óyggjandi heimildir fyrir hönnun hússins. Sem fyrr segir hafa ekki varðveist af því teikningar en allar líkur til þess, að þeir Jónas og Sigtryggur hafi hannað húsið. Í húsakönnun 2012 er það raunar fullyrt (Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: án bls.) en í bókinni „Af norskum rótum“ er það ekki talið óyggjandi. Í þeirri bók kemur fram, að allt burðarvirki hússins sé merkt með rómverskum stöfum. (Hjörleifur Stefánsson, Kjell Halvorsen, Magnús Skúlason 2003:195). Það gæti bent til þess, að húsið hafi verið forsmíðað og burðarvirkinu raðað saman eftir númerum.

Tuliniusarhús er tvílyft timburhús með háu, portbyggðu risi og stendur á háum steinhlöðnum kjallara. Á framhlið er stór miðjukvistur en stigahús á bakhlið. Á suðurstafni er útskot á einni hæð, nokkurs konar sólstofa með skrautgluggum. Svalir til vesturs eru áfastar útskotinu á neðri hæð en einnig eru svalir ofan á og gegnt út á þær af annarri hæð. Veggir eru timburklæddir, lóðrétt vatnsklæðning á neðri hæð en lárétt borðaklæðning. Skreytt bönd eru við hæðarskil. Þakbrúnir og þakskegg slúta yfir veggi og þar eru sperrutær útskornar. Þaksbrúnir eru skreyttar nokkurs konar kögri og útskurður á hanabjálkum á stöfnum og kvisti. Í flestum gluggum eru sexrúðupóstar en krosspóstar á neðri hæð. Grunnflötur er 10x12m en stigabygging á bakhlið 1,8x3,0m. Útskot að sunnan er um 1,77x6,20m. Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi að ytra byrði, að frátöldum miðjukvistinum, sem byggður var rúmum áratug eftir að húsið byggt.

Otto Fredrik Tulinius (1869-1948) verslunar- og útgerðarmaður, var fæddur og uppalinn á Eskifirði. Hann stundaði verslunarrekstur m.a. á Papósi og á Hornafirði til 1901 er hann flutti til Akureyrar. Hann rak verslun sína á neðri hæð hins nýja og veglega húss en bjó á efri hæðum. Tulinius gegndi ýmsum embættisstörfum og sat í ýmsum nefndum, vísikonsúll Svía, formaður Verslunarmannafélags Akureyrar sat m.a. í bæjarstjórn, 1906-09 og 1911-20. Var hann kjörinn forseti bæjarstjórnar árið 1919, fyrstur manna til að gegna því embætti. Ekki varði sú embættisseta hans lengi, því árið eftir flutti hann til Kaupmannahafnar. Hann seldi þó ekki húsið, en við verslunarrekstrinum tók Jón C.F. Arnesen. Bjó hann hér ásamt fjölskyldu sinni á meðan hann rak verslunina. Árið 1915 fékk Ottó að breyta húsi sínu. Í bókun bygginganefndar kemur ekki fram í hverju þær breytingar felast, en þar var um að ræða kvistinn á framhlið.

Árið 1916 var húsið virt til brunabóta. Þá er húsið sagt tvílyft íbúðar- og verslunarhús með kvisti, háu risi og á háum kjallara. Veggir eru timburklæddir og pappi á þaki. Á gólfi var sögð sölubúð þvert yfir húsið fyrir stafni, við framhlið geymsluherbergi og forstofa, bakhlið 2 skrifstofur og 1 stofa „fyrir stafni“. Á lofti við framhlið voru 2 stofur og forstofa, en „undir bakhlið“ 2 stofur, eldhús og búr. Á efra lofti voru 5 íbúðarherbergi og gangur. Kjallara var skipt í þrennt og tveir skorsteinar. Húsið var sagt 11,6x10,4m að stærð og 10,6m hátt og á því 40 gluggar og í húsinu 9 ofnar og ein eldavél. Væntanlega allt kynt með kolum eða mó. Í matinu eru gerðar þær athugasemdir, að „skorsteinsveggir [séu] of þunnir í loftum og þekja ójárnvarin“ og stenst þannig ekki brunamálalög. (Brunabótafélag Íslands 1917:nr.105).

Sem áður segir dvöldu Otto Tulinius og fjölskylda í Kaupmannahöfn frá 1920. Sex manns eru skráðir til heimilis það ár, m.a. tveir innanbúðarmenn, vinnukona og eldabuska, mögulega starfslið Tulinius. Jón C.F. Arnesen tók við versluninni í ársbyrjun 1921. Það er fróðlegt að bera saman íbúafjölda Tuliniusarhúss, sex manns, þá eins af stærstu húsum bæjarins árið 1920 við t.d. Lundargötu 2, þar sem búsettir voru 20 manns. Þá bjuggu einnig 32 í Lækjargötu 6, sem reyndar er ekkert smáhýsi en miklum mun minna í sniðum en Tuliniusarhús.

Otto, Valgerður og fjölskylda sneru aftur frá Danmörku árið 1929 og fluttu þá aftur í Hafnarstræti 18. Þau munu hafa búið hér til um 1940, eru skráð hér í Manntali árið 1939. En 1940 og ´41 er Hafnarstræti 18 ekki að finna í manntölum Akureyrar. Á stríðsárunum var húsið nefnilega leigt breska setuliðinu. Eftir því sem líða tók á 20. öldina, sérstaklega síðari helming hennar, tók tímans tönn þó að naga hina hátimbruðu bæjarprýði. Steindór Steindórsson segir (1993:103): Kreppuárin settu síðar hnignunarmerki sín á Tuliniusarhús eins og mörg önnur gömul hús í Innbænum og Fjörunni“. Um 1975 var rætt um nauðsyn þess, að húsið, sem orðið var mjög hrörlegt yrði rifið. En til allrar hamingju varð það ekki raunin. Upp úr 1970 hófst nefnilega ákveðin vitundarvakning í samfélaginu um verndun gamalla húsa og marka eflaust gjörningar við Bernhöftstorfuna og stofnun Torfusamtakanna 1972 nokkurs konar vatnaskil þar. Friðun húsa hófst um þetta leyti. Tuliniusarhús var í hópi fyrstu húsa á Akureyri, sem voru friðlýst, árið 1977. Var það friðlýst í B-flokki en sá flokkur náði yfir ytra byrði húsanna. Endurbygging þess hófst um svipað leyti og um 1980 mun húsið hafa endurheimt sinn fyrri glæsileika. Og þeim glæsileika hefur húsið haldið með fyrirtaks viðhaldi allar götur síðan. Tuliniusarhús er sérlega skrautlegt og tilkomumikið hús og ein af helstu perlum og kennileitum Innbæjarins. Myndirnar eru teknar 7. janúar 2018 (framhlið) og 29. mars 2015 (bakhlið).

Heimildir:

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 225, 25. júní 1902. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 411, 18. maí 1915. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun - Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (2003). Af norskum rótum - gömul timburhús á Íslandi. Reykjavík: Mál og Menning.

Minjastofnun. (án höf). Akureyri. Hafnarstræti 18. Tuliniusarhús. Á slóðinni https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/akureyri/nr/611

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
08. júní 2024 | kl. 14:50