Hús dagsins: Norðurgata 13

Sumarið 1885 var mæld út þvergata til norðurs út Oddeyrina út frá húsi Jóns Halldórssonar (Strandgötu 27). Þá voru þegar risin fjögur hús í götulínunni, næst norðan við hús Jóns, var hús Sigurðar Sigurðarsonar frá 1877. Yst þessara húsa, lengra úti á Eyrinni stóð timburhús frá um 1880, reist á grunni torfbæjar, sem var annar af tveimur fyrstu íbúðarhúsum sem risu á Eyrinni, 1858. Næst sunnan við umrætt hús, þó spölkorn í burtu stóð steinhús mikið, sem reist var í áföngum, líkast til 1880 og 1881 af Þorsteini Einarssyni og Birni Jónssyni. Sunnan steinhússins, nær húsi Sigurðar stóð hús, sem Snorri Jónsson timburmeistari hafði reist 1880, mögulega hafið byggingu þess ári fyrr. Þannig vildi til, að húsin höfðu öll verið reist í beinni línu, enda þótt engin skipulögð gata lægi fyrir. En það var vorið 1886, nánar tiltekið þann 10. maí, að bygginganefnd mældi út „[…]hússtæði […] 10 álnir fyrir norðan hús Snorra Jónssonar í beinni línu með því og húsi Björns Jónssonar. Húsið á að vera 10 al. á lengd og 8 al. á breidd (Bygg.nefnd. Ak. 1886: nr. 72). M.ö.o. átti húsið að byggjast 6,3m norðan við hús Snorra Jónssonar og vera 6,3m að lengd og 5,04m. Sá sem þarna fékk útmælt hússtæði á Oddeyri hét Þorvaldur Guðnason.

Norðurgata 13 er einlyft timburhús með háu, portbyggðu risi á háum kjallara. Áfast við kjallara á bakhlið er einlyft bygging með einhalla aflíðandi þaki. Nyrst á bakhlið (vesturhlið) er stór kvistur með aflíðandi þaki. Kvisturinn nær allt að stafni svo í rauninni er risinu lyft nyrst að norðanverðu. Norðarlega á bakhlið, í kverkinni milli viðbyggingar og framhússins er smátt útskot eða nokkurs konar kvistur út úr veggnum, sem er varla nema rúmur metri á kanta, eða rétt ein gluggabreidd- og hæð. Á útskoti þessu er aflíðandi A-laga ris. Sexrúðupóstar eru í flestum gluggum en einnig fjórskiptir krosspóstar, m.a. á norðurhlið og sunnanmegin á rishæð. steinblikk á veggjum og bárujárn á þaki. Á bakbyggingu er lárétt borðaklæðning. Grunnflötur hússins mælist 7x5,7m, bakbygging jafnlöng framhúsi, um 3,8 m breið, en ath. um ónækvæma loftmyndamælingu er að ræða.
Þorvaldur Guðnason var sjómaður, fæddur árið 1857 og uppalinn í Bárðardal. Hann var vinnumaður á Íshóli þar í sveit árið 1880 en stundaði sjóinn eftir að hann flutti á Oddeyri. Það gæti hafa verið um svipað leyti og hann byggir þetta hús. Þorvaldur var kvæntur Maríu Jónasdóttur (1862-1934), sem mun hafa verið úr Svarfaðardalnum, skráð til heimilis að Hofsá árið 1870. Árið 1890 er Þorvaldur ranglega sagður Guðmundsson í manntali og húsið kallað „Hús Þorv. Guðmundssonar [Oddeyri]“. Þá eru alls 10 manns skráð hér til heimilis: Þorvaldur og María, fóstursonur þeirra Kristján Mikaelsson (systursonur Þorvalds) og systir Maríu, Svanfríður Jónasdóttir. Einnig foreldrar Þorvalds, Guðni Þorgrímsson og Anna Friðfinnsdóttir. Auk þeirra leigðu hér þau Jón Jónatansson og Guðrún Sesselja Jónsdóttir og barnungur sonur þeirra, Kristján, en sá stofnaði síðar Brauðgerð Kr. Jónssonar eða Kristjánsbakarí. Þetta sama ár og manntalið var tekið, fékk Þorvaldur útmælda lóð undir skúr spölkorn sunnan við hús sitt, handan götunnar. Þar reisti hann svo nýtt íbúðarhús árið 1897 og er þar komin Norðurgata 2. Svo vildi til, að sama ár var nágranni hans, Snorri Jónsson, einnig að byggja hús á næstu lóð sunnan við Þorvald. Þannig endurtók sagan sig, Þorvaldur var aftur í næsta húsi norðan við Snorra. Snorri er raunar talinn hönnuður og byggingarmeistari Norðurgötu 2 (og 4, um systurhús er að ræða og byggingarleyfin afgreidd samhliða). Ekki er ósennilegt, að Snorri hafi einnig haft hönd í bagga þegar Þorvaldur reisti fyrra hús sitt.

Þegar Þorvaldur flutti milli húsa við götuna, sem skömmu síðar fékk heitið Norðurgata, tók faðir hans, Guðni Þorgrímsson við húseigninni og fjórum árum síðar er Gunnlaugur Gunnlaugsson, frá Draflastöðum í Sölvadal orðinn meðeigandi hans. Gunnlaugur hafði verið bóndi á Þormóðsstöðum árin 1893-95 en mögulega flutt á Oddeyri þegar hann brá búi þar fremra. Gunnlaugur gerðist ökumaður er hann fluttist til Akureyrar (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 1178) en fékkst einnig við sjómennsku og er stundum titlaður tómthúsmaður. Bróðir Gunnlaugs, Valdimar skósmiður, reisti um svipað leyti (1899) hús við Norðurgötu, nánar tiltekið Norðurgötu 3. Það hús brann til ösku síðla hausts 2019 og þegar þetta er ritað í ársbyrjun 2026, rís á þeirri lóð mikil nýbygging. Kona Gunnlaugs var Ósk Jónsdóttir frá Hofsá í Svarfaðardal.

Í árslok 1916 var húsið metið til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús einlyft með porti og háu risi á kjallara. Lengd 6,3, breidd 5,2 hæð 5,2 [allar stærðir í metrum]. Á gólfi við framhlið 1 stofa og forstofa. Við bakhlið 1 stofa, eldhús og búr. Á lofti 1 stofa, eldhús og geymsla. Í kjallara [er] geymsla. Áfast við bakhlið hússins er að stærð 6,3 [m lengd] 3,2 [m breidd] 2 [m hæð]. (Brunabótafélag Íslands 1916: nr.189). Á húsinu voru 9 gluggar, einn skorsteinn sem tengdist þremur kolaofnum og tveimur eldavélum (væntanlega ein á hvorri hæð). Þak var pappaklædd, á húsi jafnt sem geymsluskúr. Þarna sést að skúr við bakhlið er risinn, en ekki er minnst á kvist á húsinu. Hann virðist hins vegar kominn um 1922, þegar gerðar voru raflagnateikningar af húsinu. Á þeim teikningum er hins vegar ekki að sjá skúrinn að aftan en það gæti stafað af því, að þar hafi ekki verið lagt rafmagn í árdaga rafvæðingar. Í bókunum Bygginganefndar á fyrstu áratugum 20. aldar virðist húsið raunar aðeins einu sinni koma fyrir, það er 18. maí 1915, þegar Þóra Guðnadóttir fær leyfi til að reisa skúr. Tveimur vikum fyrr hafði bygginganefnd ekki haft fyrir því að svo mikið sem taka erindi hennar fyrir um skúrbyggingu fyrir, þar sem teikningar lágu ekki fyrir. En orðrétt segir: Beiðni frá Þóru Guðnadóttur verður ekki sinnt vegna vantandi [svo] teikninga og upplýsinga (Bygg.nefnd. Ak. 1915 nr. 410). Á næsta fundi bygginganefndar var eftirfarandi bókað: Framl. [framlögð] teikning af skúrbyggingu þeirri, sem Þóru Guðnadóttur á síðasta fundi var synjað um að láta byggja sökum þess, að teikningu vantaði. Þar sem glögg teikning liggur fyrir, leyfði nefndin, að hún byggði skúrinn (Bygg.nefnd. Ak. 1915 nr. 411). Hinar „glöggu“ teikningar virðast ekki hafa varðveist og hvorki kemur fram mál eða afstaða skúrsins né heldur hvort hann er áfastur húsinu eða stakstæður. Nærtækast væri að álíta, að hér sé um að ræða viðbygginguna við kjallarann á bakhliðinni, þó ekki sé hægt að fullyrða um það. Alltént er bakbyggingin risin árið 1916.
Í Húsakönnun 1995 er sagt frá því, að skömmu eftir aldamótin 1900 hafi húsinu verið lyft og steyptur undir það hár kjallara, og líkast til hafi það gerst um svipað leyti og sams konar framkvæmd var gerð við Norðurgötu 11 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 1995:70). Það var sumarið 1922 og var þar að verki Hermundur Jóhannesson og samhliða þeim framkvæmdum lengdi hann húsið um nokkra metra. Ekki finnast bókanir bygginganefndar um þess háttar framkvæmd fyrir Norðurgötu 13. (Kannski hafa Hermundur og hans menn einfaldlega lyft næsta húsi norðan við „í leiðinni“).

Á öndverðri 20. öld (og fram yfir miðja öld) skiptist húsið í tvo eignarhluta, hér bjuggu annars vegar fjölskylda Gunnlaugs og Óskar og hins vegar foreldar og skyldmenni Þorvalds, sem byggði húsið. Kristján Mikaelsson og Þóra Guðnadóttir, móðir hans (og systir Þorvalds Guðnasonar) voru búsett á rishæð en Gunnlaugur, Ósk og fjölskylda á jarðhæð. Enda þótt Norðurgata 13 virðist næsta smátt hús að grunnfleti hefur þó verið nokkuð rúmt um fjölskyldurnar tvær í samanburði við mörg hús t.d. í Lundargötu, þar sem 4-5 fjölskyldur bjuggu oft samtímis í svipuðum eða lítið rýmri húsum en Norðurgötu 13. Kristján Mikaelsson og móðir hans, Þóra Guðnadóttir, voru búsett í risi hússins en Gunnlaugur og Ósk á neðri hæð. Árið 1947 var rishæðin á Norðurgötu, ásamt lóðarréttindum, eign dánarbús Kristjáns Mikaelssonar, auglýst til sölu á uppboði. Hana virðist, Kristján Tryggvason 65 ára ekkill frá Neðri-Dálksstöðum á Svalbarðsströnd og fyrrum bóndi í Ytri-Skjaldarvík, hafa keypt, því í manntali það ár er hann skráður þar til heimilis og eigandi, ásamt Rannveigu Gunnlaugsdóttur. Kristján lést árið 1956.
Á meðal barna Gunnlaugs og Óskar var Rannveig, fullu nafni Jónína Rannveig, sem starfaði sem prentari. Hún giftist Ósvaldi Sigurjónssyni, sjómanni úr Hafnarfirði árið 1925 og áttu þau hér heima. Þekktu þá margir (og þekkja enn) húsið sem Ósvaldshús. Ósvald og Rannveig bjuggu hér til dánardægra en þau létust bæði árið 1961, Ósvald þann 22. mars, er hann varð bráðkvaddur um borð í togaranum Svalbaki, en Rannveig þann 28. október. Hafa síðan ýmsir átt hér heima. Síðar eignaðist húsið Jóhannes Hermundarson, líkkistusmiður í Gránufélagsgötu 23, en hann átti auk þess Norðurgötu 11. Það átti hann eftir föður sinn, Hermund Jóhannesson, sem eignaðist Norðurgötu 11 um 1915. Var þessi húsaþrenning á norðvesturhorni Norðurgötu og Gránufélagsgötu í eigu Jóhannesar, og síðar erfingja hans allt til ársins 2016. Síðustu áratugi hefur Norðurgata 13 verið einbýlishús.

Norðurgata 13 er látlaust og snoturt hús, skemmtilega einfalt og látlaust með sinn eina glugga á götuhlið ásamt inngöngudyr en bakhliðin stórbrotin með kvistum á þekju og vegg. Húsið hefur líkast til alla tíð fengið gott viðhald og er í frábærri hirðu, í því eru t.d. nokkuð nýlegir ( um 15 ára) gluggapóstar, sem væntanlega eru í samræmi við upprunalegt útlit. Húsið er hluti einstaklega skemmtilegrar húsaraðar milli Gránufélagsgötu og Eiðsvallagötu, raðar sem er í senn heildstæð en gjörólík innbyrðis. Í Húsakönnun 2020 (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021:95) eru hús metin til varðveislu eftir sex flokkum; listrænu gildi, menningarsögulegu gildi, umhverfisgildi, upprunalegu gildi og tæknilegu ástandi (umhirðu). Hlýtur Norðurgata 13 einkunnina „hátt“ í fjórum flokkum en „miðlungs“ fyrir listrænt og upprunalegt gildi, vegna viðbyggingar og ósamræmis milli kjallaraglugga og annarra glugga hússins. Niðurstaðan er sú, að húsið hlýtur hátt varðveislugildi með umsögninni: Húsið er með elstu húsum Akureyrar og fellur vel inn í umhverfi sitt (Bjarki Jóhannesson 2021:95). Þá er Norðurgata 13 friðuð vegna aldurs, en undir þá friðun falla öll hús, byggð fyrir 1923, en það ár var Norðurgata 13, þrjátíu og sjö ára gömul.
Meðfylgjandi myndir eru teknar 7. jan. 2026, 19. júní 2022 og 2. des. 2013.
Heimildir:
Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.
Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.
Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 410, 3. maí 1915. Fundur nr. 411, 18. maí 1915. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: Oddeyri. Húsakönnun.
Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.
Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.
ʻŌhiʻa Lehua
Vökustaurar
Runnkennt elri til landgræðslu - Seinni hluti: Tegundir
Hreyfing – þegar gæði skipta meira máli en magn