Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Aðalstræti 32

HÚS DAGSINS
 
Á árinu sem nú er liðið hefur áherslan verið lögð á elstu hús Akureyrar í aldursröð eftir því sem við verður komið. Það er nefnilega ekki einfalt mál að ákvarða þessa röð í raun, enda þótt allar byggingar séu með skráð byggingarár, sem í langflestum tilfellum standast. Þó geta verið annmarkar á þessum kennitölum húsanna, sér í lagi þegar í hlut eiga hús sem byggð eru fyrir tíma bygginganefnda eða áður, en það þótti slíkt tiltökumál að menn kæmu sér upp húsum, að það væri fært í einhverjar skráningar eða annála. (Það er þá e.t.v. einna helst í bréfum, persónulegum gögnum, reikningum eða öðru slíku, sem endanlegar upplýsingar um slíkt liggja fyrir, auk þess sem ævisögur og endurminningar varpa oft ljósi á þess háttar staðreyndir). Það flækir svo málin enn frekar, ef hús hafa verið flutt, því slíkra upplýsinga er sjaldan getið sérstaklega og þá enn síður, hvenær hið flutta hús var byggt á sínum upprunalega stað. Frá ársbyrjun hafa birst hér pistlar um nokkur elstu hús Akureyrar í aldursröð eftir skráðum byggingarárum en stundum hefur komið í ljós, að húsin kunna að vera yngri eða eldri. Oftast er hægt að staðsetja byggingarárin með nokkurri nákvæmni, t.d. á 5 ára bili en í sumum tilfellum hlaupa möguleg byggingarár á áratugum. Hér er ætlunin að taka fyrir eitt hús, sem samkvæmt skráðu byggingarári ætti ekki heima í þeirri aldursröð, sem tekin hefur verið fyrir hér á vefnum á þessu ári. Skráð byggingarár þess er nefnilega 1888, og það talið nokkuð líklegt en vitað er að þarna var reist hús um 1854. Í Húsakönnun 2012 er talið líklegast, að húsið frá 1854 hafi verið rifið fyrir 1880 og núverandi hús reist 1888. Hér leyfum við hins vegar Aðalstræti 32 að njóta vafans og höfum það með í hópi allra elstu húsa Akureyrar. (Ef byggingarárið er 1854 hefði það með réttu átt að vera á undan Gamla Apótekinu í röðinni).
 

Aðalstræti 32 er einlyft timburhús á lágum steingrunni, með háu portbyggðu risi. Á bakhlið eru viðbyggingar, úr timbri og steyptar og þar er einnig kvistur á þekju framhúss. Sú viðbygging, sem næst er framhúsi er úr timbri með háu risi en aftast eru steyptar byggingar með einhalla aflíðandi þaki. Sexrúðupóstar eru í flestum gluggum hússins, bárujárn á þaki, listasúð á framhúsi og lárétt panelklæðning (vatnsklæðning) á viðbyggingu en á nyrstu viðbyggingu er máluð steypa, þar sem mótar fyrir uppsláttartimbri. Grunnflötur framhúss mælist um 10,4x5m, viðbygging að suðvestanverðu 7,9x3,2m, viðbyggingar bakatil 3,9x3,8m og 4,5x5,7m (sú nyrsta) auk þess sem á loftmynd sést þak í porti milli framhúss, suðurálmu og miðálmu að aftan, um 3,2x3,8m. Allt eru þetta ónákvæmar mælingar af kortagagnagrunni map.is.

Lóðin Aðalstræti 32 er líklega með elstu lóðum Akureyrar, en á fyrri hluta 19. aldar mun hafa staðið þarna hús, sem nefnt var Skrína (Hjörleifur Stefánsson 1986: 86). Þessi staður er auðvitað í námunda við upprunalegu kaupstaðarlóðina en hvort Skrína þessi hafi verið reist sem hluti af kaupstaðarhúsum eða sem einhvers konar bæjarhús utan hennar fylgir ekki sögunni. En Skrína var á bak og burt um miðja 19. öld, þegar Kristján Magnússon tómthúsmaður, og fyrrum bóndi í Skjaldarvík, settist að hér. Mögulega hefur hann rifið Skrínu en vitað er að hann reisti hér íbúðarhús úr timbri. Mögulega er þar um að ræða elstu hluta núverandi húss. En það var árið 1854 sem Kristján settist hér að, og reisti íbúðarhús úr timbri. E.t.v. hefur það verið með torfþaki, en það var ekki óalgengt á timburhúsum hér um slóðir. Upprunalega mun húsið hafa verið 37 fermetrar að grunnfleti.

Árið 1860 eru skráð til heimilis í húsinu, Kristján Magnússon, Kristín Bjarnadóttir úr Þóroddsstaðasókn, skráð sem tökubarn á Draflastöðum árið 1835, og börn þeirra. Árið 1868 vildi það til, að eldur var laus í kjallara þeirra Kristjáns og Kristínar og varð nokkurt tjón, en húsið stóð uppi. Var þetta þriðji bruninn sem sögur fara af í Akureyrarkaupstað (sá fyrsti var reyndar átta árum áður en kaupstaðurinn var stofnaður, þegar smiðja Benedikts nokkurs Þorsteinssonar brann til ösku árið 1854) (sbr. Jón Hjaltason 1994:197).

Fáum sögum fer af húsinu næstu tvo áratugina, raunar engum bókstaflega: Árin 1878 og 1882 voru öll hús Akureyrar virt vegna húsaskatts og í hvorugt skiptið var getið byggingar á þessari lóð (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa 2012:44). Það rennir stoðum undir þá kenningu, að húsið hafi ekki verið byggt fyrr en eftir 1882. Var þá húsið sem Kristján reisti rifið fyrir árið 1878? Var húsið e.t.v. það lítilfjörlegt, að í tvígang þótti ekki taka því að meta það? Úr því verður ekki skorið hér. En árið 1892 er húsið virt og sagt íbúðarhús Friðriks Kristjánssonar, portbyggt, 7x15 álnir að grunnfleti með úthýsum, en þess ekki getið, að það sé nýbyggt. Skráð byggingarár hússins er 1888, en ekki finnst byggingarleyfi á nafni Friðriks Kristjánssonar frá þeim tíma; Friðrik er raunar aðeins nefndur í bókunum bygginganefndar þegar hann fær að reisa hlöðu, 15x6álnir, á bakvið íbúðarhús sitt árið 1898. Ekki verður ráðið af byggingargerð hússins, hvort það sé byggt 1854 eða 1888, en portbyggð ris tíðkuðust almennt ekki á smáum íbúðarhúsum um miðja 19. öld, en voru móðins nær 1890. (Gamla Apótekið var líkast til fyrsta húsið á Akureyri með því þaklagi). Það er þó alls ekki útilokað, að þak hússins hafi á einhverjum tímapunkti verið hækkað.

Árið 1890 eru skráð til heimilis hér, í „21“ Friðrik Kristjánsson, sem sagður er húsráðandi og verslunarmaður, Jakobína M. Jakobsdóttir frá Seyðisfirði, húsmóðir, Steinunn Guðmundardóttir og Kristján Magnússon, faðir húsbónda. Og þar er um að ræða téðan Kristján Magnússon, sem hingað fluttist árið 1854. Kristín Bjarnadóttir, eiginkona Kristjáns og móðir Friðriks lést árið 1885. Eins og Umbi segir á einum stað í Kristnihaldi undir jökli „nú vakna torleystar gátur“ (Halldór Laxness 1968:39). Getur verið, að Kristján hafi rifið íbúðarhús sitt fyrir árið 1878 en sonur hans reist þar hús tíu árum síðar. Áttu þeir þá lóðina húslausa þann tíma? Þurfti Friðrik e.t.v. ekki að fá byggingarleyfi vegna fyrra húss föður síns? Í manntali árið 1880 kallast byggðin í Fjörunni „Stóra Strandgata“. Þá eru einmitt skráð til heimilis, í húsi sem sagt er númer 22, Kristján Magnússon, Kristín Bjarnadóttir og börn þeirra en í næsta húsi er búsettur Ólafur nokkur Sigurðsson, sem þremur árum fyrr reisti húsið sem nú er Aðalstræti 34. Þar með er engum blöðum um það að fletta, að hér hefur staðið hús árið 1880.

Einhvern tíma nálægt aldamótum 1900 eignast húsið Óli Guðmundsson trésmiður. Hann er hér skráður til heimilis árið 1902 ásamt konu sinni, Sigríði Magnúsdóttur og uppkomnum dætrum þeirra, Soffíu og Ólínu. Þá er einnig búsettur hér, Friðbjörn Björnsson, sem titlaður er trésmiður af Seyðisfirði. Væntanlega hefur hann verið í vinnu hjá Óla. Óli fékk árið 1904 leyfi til að byggja skúr vestan við húsið, með því skilyrði, að skúrinn væri í „flugti“ við suðurstafn hússins, 12 álna langur „frá húsinu og vestur að brekkunni“, 6 álnir að breidd, portbyggður með risi, jafnháu mæni hússins og áfastur við það. Þar er líklega kominn fyrsti hluti að viðbyggingunni við húsið vestanmegin (sbr. Bygg.nefnd. Ak. 1904: nr. 268).

Þegar matsmenn brunabótafélagsins heimsóttu Aðalstræti 32 í lok nóvember 1916 var því lýst sem einlyftu timburhúsi með pappaklæddu og járnvörðu timburþaki, 9,4x4,4m að grunnfleti og 5 metrar á hæð, með sex gluggum. Á neðri hæð (gólfi) voru tvær stofur að framanverðu, að aftanverð eldhús, stofa og búr. Á lofti voru tvö herbegri og geymsla ásamt gangi með stiga niður í forstofuna. Þá var áfast við bakhlið hússins geymslu- og gripahús, einlyft á lágum steingrunni með lágu risi (viðbyggingin frá 1904). Sú bygging var 7,8 x3,7m að grunnfleti, 4,4m á hæð og með tveimur gluggum. 3 kolavélar og ein eldavél voru í húsinu (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 35). Eigandi árið 1916 var Jóhannes Jónsson en fyrri eigandi Sigríður Magnúsdóttir. Jóhannes Jónasson, sem var fæddur árið 1886 að Ystu-Vík í Grýtubakkahreppi mun, samkvæmt manntölum, hafa átt húsið til ársins 1925 eða 1926, en þegar manntal er tekið síðarnefnda árið er eigandi hússins Lárus Bjarnason (1876-1956) kennari frá Prestsbakka í Skaftafellssýslu. Lárus var alla tíð ókvæntur og barnlaus, bjó með ráðskonu og leigjendum. Árið 1928 er skrifað í manntal, að eigandi sé Lárus Bjarnason með 15 manns, en hann er ekki skráður hér til heimilis. Þrjár fjölskyldur eru hér búsettar árið 1928 í jafn mörgum íbúðum og eru það umræddir 15 manns.

Lárus Bjarnason átti húsið líkast til í þrjú ár og staldraði því ekki lengi við hér. Það sama verður aldeilis ekki sagt um næstu eigendur og íbúa hússins: Húsið við Aðalstræti 32 seldi Lárus árið 1929, þeim Jóni Pálssyni (1885-1972) trésmiði frá Hallgilsstöðum í Arnarneshreppi og Kristínu Eiríksínu Ólafsdóttur (1901-2003), fædd í Nefsstaðakoti í Fljótum en uppalin á Steinhóli í Flókadal í Vestur-Fljótum. Þau byggðu við húsið verkstæði, hlöðu og gripahús, líklega á fjórða áratug 20. aldar (það virðast ekki liggja fyrir byggingarleyfi í bókunum Bygginganefndar). Um svipað leyti var húsið og klætt að utan með asbesti. Jón og Kristín voru, eins og tíðkaðist, með ýmsa leigjendur á þessum árum. Árið 1934 flutti hingað inn Jóhanna nokkur Jónsdóttir, sem fædd var á Illugastöðum í Fnjóskadal árið 1900 með nýfæddan son, Birgi Hólm Helgason. Sambúð þeirra Kristínar og Jóhönnu í Aðalstræti 32 varð afar löng og raunar einsdæmi. Ekki aðeins fyrir það, hversu lengi hún varði heldur einnig fyrir það, hvað íbúarnir náðu háum aldri. Þær lifðu báðar fram yfir tírætt og héldu hér hvor fyrir sig heimili fram yfir aldarafmæli sín. Kristín bjó á neðri hæðinni en Jóhanna á þeirri efri. Stigann upp þætti eflaust mörgu fullfrísku ungu fólki óárennilegur; hann fór Jóhanna leikandi upp og niður fram yfir 100 ára aldur. Aðalstræti 32 kvöddu þær árið 2003, höfðu þá búið hér undir sama þaki í 69 ár, en deildu herbergi á dvalarheimilinu Hlíð, þar sem Kristín Ólafsdóttir lést 3. ágúst það sama ár, 102 ára og fjórum vikum betur. Jóhanna lést rúmlega 106 ára, 26. september 2006, þá elst allra Akureyringa. Gísli Sigurgeirsson heimsótti þær heiðurskonur í Aðalstræti 32 í tengslum við aldarafmæli þeirra og gerði um þær mjög fróðlega heimildamynd, sem sjá má hér.

Það er saga allmargra húsa við Aðalstrætið, að þau hafa haldist innan sömu ætta í áratugi og svo er einnig tilfellið með Aðalstræti 32. Það er í eigu barnabarns Kristínar Ólafsdóttur, Kristins Björnssonar. Hann segir svo frá: Oft komum við til ömmu, Kristínar Ólafsdóttur og afa, Jóns Pálssonar, í Aðalstrætinu og „sunnudagslærið“ er ógleymanlegt. Þau keyptu húsið 1929 en elsti hluti hússins, 37 m2, er frá 1854 (Kristinn Björnsson (Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:42). Kristinn getur þess, að amma hans og afi hafi aðlagað húsið að því lífi sem var þá, heimilið hafi verið það sem nú kallist sjálfbært, hér var verkstæði, fjós, kartöflugarður og hæsnakofi. Slíkt var raunar ekki óalgengt á fyrri hluta 20. aldar, húsin í kaupstöðunum voru eins og örbýli. Við Aðalstrætið háttar raunar svo til, að lóðirnar eru afar víðlendar, líkt og litlar jarðir enda þótt þær hafi e.t.v. lítt hentað til túnræktar. Þar var löngum mikil kartöflu- og matjurtarækt, en nú er trjárækt fyrirferðarmikil í brekkum þessum. Gefum Kristni aftur orðið: Ég hafði fært í tal [Kristinn við ömmu sína, Kristínu Ólafsdóttur] að ég hefði áhuga á að endurbyggja húsið. „Þú átt að rífa þetta,“ sagði amma, því hún var svo praktísk (Kristinn Ólafsson (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017:43). Kristinn lýsir því, að endurbyggingin hafi hafist um 2005, með stoðvegg við brekkuna og dreni í kringum húsið, en 2011 var komið að húsinu sjálfu og var þá m.a. asbestklæðningin rifin af. Þau Edda vildu að húsið héldi sem flestum sínum sérkennum og því hafi þurft að sérsmíða flest; Þetta hefur verið ævintýri. Ég sá alltaf fyrir mér hvernig húsið ætti að vera, draumurinn varð að veruleika og ég hef notið hverrar stundar (Kristinn Ólafsson (Kristín Aðalsteinsdóttir) 2017:43) segir Kristinn og þegar viðtalið var tekið við þau hjónin í júní 2016 stefndu þau á að flytja inn þann 6. júlí, sem var einmitt afmælisdagur Kristínar Ólafsdóttur.

Aðalstræti 32 er látlaust, snoturt og fallegt hús og er til mikillar prýði í umhverfi sínu. Það er í mjög góðri hirðu, enda nýlega endurbyggt og hefur sú endurgerð tekist einstaklega vel. Húsið er byggt í mörgum áföngum og segir það vissa sögu en engin viðbygginga hússins gegnum tíðina hefur spillt útliti þess á nokkurn hátt. Umhverfi hússins og lóð er einnig til fyrirmyndar. Þá er að mörgu leyti notalegt að vita af þessari skemmtilegu sögu hússins; kvennanna tveggja, sem hér bjuggu undir sama þaki í samlyndi drjúgan hluta 20. aldar og fáein ár fram á þá tuttugustu og fyrstu. Í Húsakönnun 2012 er húsið sagt einstakt hús eða húsaröð sem vert er að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa 2012:44). Þá er húsið aldursfriðað en mögulega voru elstu hlutar hússins um sjötugt á viðmiðunarári aldursfriðunar, 1923. Meðfylgjandi myndir eru teknar á aðfangadag jóla 2025, 5. október 2014 og 23. október 2010.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 274, 12. júlí 1904. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Gjörðabækur Akureyrarbæjar | Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Gísli Sigurgeirsson. 2006. Kjarnakonur [mynddiskur] : um hvunndagshetjurnar Kristínu Ólafsdóttur og Jóhönnu Jónsdóttur í Aðalstræti 32. Akureyri: Listalíf. (Einnig aðgengileg á efnisveitunni Youtube: https://www.youtube.com/watch?v=b8d13MZEj0o )

Halldór Laxness. 1968. Kristnihald undir jökli. Reykjavík: Helgafell.

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Pdf-skjal á slóðinni https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.

Ýmsar upplýsingar af vefnum m.a. islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is.

Nú árið er liðið …

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. desember 2025 | kl. 06:30

Skógarpöddur

Sigurður Arnarson skrifar
31. desember 2025 | kl. 06:15

Jólin í eldgamla daga – Svanhildur Anna

31. desember 2025 | kl. 06:00

Jólahefðirnar mínar – Sigrún Dania

31. desember 2025 | kl. 06:00

Jólahefðirnar mínar – Þórdís Sunna

31. desember 2025 | kl. 06:00