Hús dagsins: Aðalstræti 40 (Bibliotekið)
Ein elsta stofnun Akureyrar er Amtsbókasafnið, sem von bráðar á tveggja alda afmæli, en það var stofnsett árið 1827. Í tæpa tvo áratugi var safnið til húsa á heimili bókavarðarins, Andreas Mohrs, í íbúðarhúsi verslunarstjóra Gudmannsverslunar. Það hús hlaut löngu síðar nafnið Laxdalshús. Í sex ár var safnið geymt í kössum í pakkhúsi verslunarinnar, en var um skamma hríð í nýreistu húsi Gunnlaugs Guttormssonar. Árið 1854 fluttist safnið í hús Ara Sæmundssonar, sem hann hafði reist fáum árum fyrr. Hvenær nákvæmlega hann byggði húsið er þó ekki alveg ljóst.

Árið 1843 fluttist Ari Sæmundsson (Sæmundssen) umboðsmaður og skrifari til Akureyrar, nánar tiltekið í torfbæ, sem stóð þar sem nú er bakhús við Aðalstræti 38. Bæinn keypti hann af Grími Laxdal, sem þá hafði nýlega reist hús sunnarlega í Fjörunni (Aðalstræti 66). Landareignin virðist hafa samanstaðið a.m.k. af því svæði sem nú eru lóðirnar 38-42 við Aðalstræti. Nokkrum árum síðar reisti Ari nýtt íbúðarhús, sem nú er syðri hluti hússins Aðalstrætis 40. Skráð byggingarár þess er 1851 en í fasteignamati árið 1878 er húsið sagt 30 ára (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:48). Það gefur til kynna, að það sé byggt 1848. Syðri hluta lóðarinnar seldi Ari, Sigurði nokkrum Sigurðssyni árið 1850, sem þá reisti Aðalstræti 42. Árið 1850 eru þeir Ari og Sigurður skráðir í hús nr. 60 og 61, næst norðan við Ingimund Eiríksson, sem vitað er að reisti hús á lóðinni Aðalstræti 46 (elstu hlutar Friðbjarnarhúss). Þannig má ráða, að húsin nr. 40 og 42 hafi þegar verið risin árið 1850. Skráð byggingarár þessara húsa eru hins vegar 1851 (40) og 1852 (42). Látum Aðalstræti 40 hér njóta vafans og miðum við byggingarárið 1848.
Aðalstræti 40 er einlyft timburhús með háu, bröttu risi. Að framanverðu er kvistur, svo umfangsmikill, að nærri lætur, að telja megi austurhlið hússins tvílyfta með lágu, einhalla þaki á meðan bakhliðin er einlyft með bröttu risi. Á framhlið er einnig einhalla þak eða skyggni meðfram hliðinni og útskot með flötu þaki sunnarlega við framhlið. Einnig er samskonar útskot á suðurstafni og svalir út frá rishæð þar ofan á en undir skyggni á framhlið er einnig svalir eða pallur með skrautlegum pílárum. Á bakhlið er viðbygging með einhalla, aflíðandi þaki. Í ljósi þess, að húsið var í fyrndinni lengt til norðurs, hefur verið byggt við húsið til allra átta og á alla kanta, og það bókstaflega. Bárujárn er á veggjum og þaki en ýmist kross- eða margskiptir smárúðupóstar í gluggum. Af ónákvæmum mælingum á loftmyndagrunni map.is má ráða, að grunnflötur „meginhúss“ sé nærri 9x5m, viðbygging að norðvestan mælist um 6,5x3m en útskot að suðvestan 4,5x3m. Skagar það útskot um 1,5-2m út fyrir suðurstafn hússins, og mælist þar um 5,5m breitt. Útskot að framanverðu er um 2x2m. Sem fyrr segir eru þessar mælingar afar ónákvæmar en gefa einhverja hugmynd um stærðargráðu. Samkvæmt fasteignamati er húsið alls um 112 m2 .

Ari Sæmundsson, einnig nefndur Sæmundssen var fæddur árið 1797 í Lundarreykjadal, líkast til að Krossi þar sem faðir hans var bóndi lengst af. Ari lærði prentverk um 1820 og gerðist kennari og skrifari í Reykjavík. Hann fluttist norður aftur 1827, þar sem hann gerðist skrifari Gunnlaugs Briem, sýslumanns á Grund. Ari kvæntist árið 1829, Sigríði Grímsdóttur ljósmóður, frá Ytri-Villingadal í Saurbæjarhreppi. Sigríður var ljósmóðir og mun sérstaklega hafa fengist við árin sem þau Ari voru búsett í Eyjafjarðarhreppum. Ekki hafði Sigríður numið ljósmóðurfræði (sbr. Björg Einarsdóttir 1984: 538) en mögulega hefur hún fengið einhverja leiðsögn í n.k. „alþýðuheilbrigðisvísindum“ hjá föður sínum, Grími Magnússyni, sem var handlæknir, nefndur Grímur græðari. Árið 1832 hlaut Ari embætti umboðsmanns Munkaþverárklausturjarðar og hóf jafnframt búsetu þar. Á Munkaþverá bjuggu þau Ari og Sigríður til ársins 1837 er þau fluttust yfir Eyjafjarðará í Melgerði (sem Melgerðismelar eru kenndir við). Um Ara var kveðið, þegar hann flutti í Melgerði:
Frá Munkaþverá maðksmoginn
Mels í skríður gerði
Mel í gerði melétinn
meina ég hann verði
Þessi vísa var eignuð Ólafi Briem, timburmeistara á Grund en túnin á Munkaþverá munu hafa verið alræmd á þessum tíma fyrir óvenju stóra ánaðamaðka (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:1481). Kannski hafa ánamaðkarnir komist í feitt í leifum af fornum klaustrum á staðnum…
Frá Melgerði fluttust Ari og Sigríður til Akureyrar 1843, í torfbæ, sem stóð þar sem nú er lóðin Aðalstræti 38 (vestar og ofar en núverandi hús). Nýtt hús sitt, munu þau sem fyrr segir, hafa reist um 1848 og er þar komið Aðalstræti 40. Húsið var með torfþaki, mögulega 6x5m að stærð, með inngöngudyr fyrir miðju og tveimur gluggum á framhlið. Þessi lóð og húsin sem þar stóðu voru nefnd „Arabía“ eftir Ara og loðir það nafn enn við Aðalstræti 38, en heita má, að Aðalstræti 40 sé „byggð úr landi“ þeirrar lóðar. Enda þótt Ari flytti frá Munkaþverá og síðar til Akureyrar var hann áfram umboðsmaður Munkaþverárklaustursjarðar, enda var búseta á Munkaþverá ekki áskilið embættinu. Ari var sérlegur aðstoðarmaður Borgens sýslumanns og var m.a. nokkurs konar túlkur fyrir hann, þar sem sýslumaður var ekki sérlega sleipur í íslensku (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:1482). Árið 1854 tók Ari að sér bókavörslu Amtsbókasafnsins og fluttist safnið þá hingað í húsið, sem hlaut þá viðurnefnið Bibliotekið eða Bibliotekshúsið. Safnkosturinn var geymdur í suðurstofu en í herbergi ofan við var svefnherbergi Péturs, kjörsonar Ara og Sigríður. Ekki voru þó aðeins bækur geymdar í stofu þessari, því einnig var hún notuð sem líkhús þegar svo bar undir! (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:48). Bókasafnið var í umsjón Ara hér í húsinu til ársins 1864. Ari átti sætti í fyrstu bæjarstjórn Akureyrar, sem kjörin var 1863 og umboðsmannsstöðunni gegndi hann til ársins 1866 eða ´67. Ari og Sigríður áttu hér heima til æviloka, hún lést árið 1866 en hann áratug síðar. Þeim hjónum varð ekki barna auðið en ættleiddu bróðurson Sigríðar, Pétur Júlíus, sem tók upp nafnið Sæmundsen, eftir fósturföður sínum. Hann eignaðist húsið árið 1876, við lát Ara. Um 1860 eða þar um bil réði Ari til sín vinnumann, Þorgrím nokkurn Þorvaldsson. Sá eignaðist nyrðri og stærri lóðina, sem nú er Aðalstræti 38, er Pétur seldi eignir sínar hér, en syðri lóðina og húsið (Aðalstræti 40) seldi hann Edilon nokkrum Grímssyni.

Edilon Grímsson, skipstjóri frá Látrum í Grýtubakkahreppi, eignaðist húsið, sem síðar varð Aðalstræti 40, sem fyrr segir og var húsið þá nefnt Edilonshús. Hvenær þessi eignaskipti fóru fram fylgir ekki sögunni, svo greinarhöfundur viti, en líklega var það um eða fyrir 1880. Edilon mun hafa lengt húsið til norðurs en ekki liggur fyrir hversu mikil sú stækkun var. Enda þótt bygginganefnd hafi verið starfandi í bænum í rúma tvo áratugi lágu störf hennar niðri á árunum 1878 til 1884. E.t.v. hafa þessar framkvæmdir verið gerðar á þeim árum. Í Húsakönnun segir, að árið 1890 hafi búið hér fjórar fjölskyldur sem framfleyttu sér á sjómennsku, daglaunavinnu, skósmíði, söngkennslu og orgelleik (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa 2012:48). Orgelleikarinn var Magnús Einarsson (1848-1934), sem var mikilsvirtur í menningarlífi bæjarbúa um áratugaskeið. Magnús reisti nokkrum árum síðar hús í Bótinni, á upphafsárum byggðarmyndunar undir brekkunni ógurlegu, sem skildi að Oddeyri og Akureyri. Hús Magnúsar, sem var númer 105 við Hafnarstræti, var rifið fyrir um fjörutíu árum síðan og hýsti lengi vel rakarastofur. Þegar Magnús stóð á áttræðu reisti hann hús á Oddeyri, sem enn stendur, við Eiðsvallagötu 3. Hefur hann þá líklega verið með allra elstu húsbyggjendum bæjarins, fyrr og síðar.
Árið 1890 heitir húsið einfaldlega „16“ í manntali og er þar átt við hús nr. 16 á Akureyri (þess hluta bæjarins, sem nú kallast Innbærinn) og eru þar skráðir fjórtán manns til heimilis. Edilon Grímsson er ekki þar á meðal, enda var hann fluttur til Blönduóss, þar sem hann stundaði verslun. Þá eru hvorki Arnór Egilsson né Björn Árnason skráðir hér til heimilis, sem næstir eru á eftir Edilon í eigendatali hússins í Húsakönnun 1986 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:89). Mögulega hefur annar þeirra endurnýjað þak hússins, en árið 1892 var búið að skipta upprunalega torfþakinu fyrir pappaþak (sbr. Hjörleifur og Hanna Rósa 2012:48). Það gæti líka verið, að Edilon hafi farið í þakskipti við sínar framkvæmdir. Þá er ljóst, að byggt hefur verið bakhlið fyrir árið 1916. Árið 1895 er Guðmundur Vigfússon skósmiður eigandi hússins. Árið 1902 er húsið tvíbýli og líkt og 12 árum fyrr er íbúafjöldinn fjórtán manns; téður Guðmundur og kona hans, Guðrún Guðmundsdóttir, fjögur börn þeirra, vinnukona og tveir starfsmenn Guðmundar, annar skósmiður og hinn lærlingur. Ekki fylgir sögunni hvernig íbúðaskipan var, mögulega hefur hún verið um miðju eða milli hæða. En í öðru íbúðarrými býr systir Guðmundar, Ingibjörg Vigfúsdóttir ásamt manni sínum, Friðriki Magnússyni snikkara, tveimur börnum og vetrarstúlku. Árið 1903 er húsið eign Valgerðar Ólafsdóttur, en hún var ekkja Arnórs Egilssonar, sem átt hafði húsið á 10. áratug 19. aldar (lést árið 1900). Mögulega hefur húsið verið tveir eignarhlutar og þeir Arnór og Guðmundur átt sitt hvorn hlutann, en Valgerður ekki skráð meðeigandi Guðmundar árið 1902 og ári áður er hún búsett í Hafnarstræti. E.t.v. hefur hún einfaldlega keypt fyrrum hús sitt af Guðmundi. En Guðmundur og Ingibjörg og allt þeirra fólk er á bak og burt héðan árið 1903. Á þessum árum var húsið 31 við Aðalstræti, en það var árið 1906 sem númerakerfinu var snúið við og speglað og núverandi númeraskipan komst á. Í brunabótamati 1916 er húsinu lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðarhús einlyft á lágum steingrunni með háu risi. Á gólfi 2 stofur og eldhús. Á lofti 2 herbergi og geimsla[svo]. Við bakhlið hússins er geimsluskúr að stærð 3,7x2x2,5[m] (Brunabótafélag Íslands 1916 nr. 30). Húsið var sagt 8,6x4,5m að grunnfleti, 5 metra hátt og með níu gluggum. Veggir voru timburklæddur og pappi á þaki, í húsinu tveir kolaofnar og tvær eldavélar.

Árið 1912 eignaðist Magðalena Þorgrímsdóttir húsið. Hún var lengst af búsett í Aðalstræti 38, sem bræður hennar, Pétur og Friðrik, reistu árið 1892 og í einhverjum manntölum titluð ráðskona hjá þeim. Hún átti húsið áratugum saman (í einhverjum manntölum t.d. 1919 er Friðrik bróðir hennar skráður fyrir húsinu) og leigði húsið út. Íbúðirnar virðast hafa verið tvær lengst af og öfugt við það sem oft gerðist í sambærilegum húsum á fyrstu áratugum 20. aldar virðist almennt ekki hafa verið mjög fjölmennt hér. Það hefur sem sagt verið fremur rúmt um leigjendur Magðalenu, miðað við það sem tíðkaðist. Magðalena Þorgrímsdóttir átti húsið alla sína tíð en hún lést árið 1960, tæplega 95 ára að aldri. Samkvæmt eigendatali Hjörleifs (1986:89) eignast Lénharður Helgason húsið árið 1960, við lát Magðalenu. Hann var sonur Helga Tryggvasonar og Kristínar Jóhannsdóttur, sem leigðu húsið af Magðalenu um árabil á 3. og 4. áratug 20. aldar. Í nóvember 1960 selur Lénharður húseignina, Ara Jónssyni, (sbr. Viðskiptatíðindi 1960:11) og ári síðar er eigandi hússins orðinn Sigurður Jónsson.

Sigurður átti húsið til æviloka, 2016 og byggði nokkrum sinnum við húsið og segir Sigurður sonur hans í bókinni Innbær. Húsin og fólkið: […] Gárungar sögðu að gamli [Sigurður Jónsson] hafi byggt við húsið í hvert sinn sem fjölgaði í systkinahópnum (Kristín Aðalsteinsdóttir (Sigurður Sigurðsson) 2016:51). Það fylgir einnig sögunni, að aldrei hafi hann sótt um leyfi fyrir þessum byggingum og fyrst og fremst hugsað um notagildi fremur en fagurfræði. Það er þó engu að síður svo, að á teikningasafni map.is má finna eina teikningu, líklega í tengslum við kvistinn mikla, gerða af Mikael Jóhannssyni árið 1972. Á þeirri teikningu má sjá, að útskotið á suðurstafni er ekki risið, en það er hins vegar til staðar árið 1986. Í húsakönnun frá því ári segir, að ekki hafi gefist tækifæri að skoða húsið sem skyldi og að því hafi verið gjörbylt margsinnis en mögulega kunni einhverjar leifar af upprunalega húsinu að vera þar innan um, þó litlar séu (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986: 90). Þar eru einnig reifaðar þær hugmyndir, að húsið kunni að vera fyrsta hús hérlendis, sem reist var beinlínis undir bókasafn en líkast til er það ekki alveg svo, því húsið er byggt a.m.k. 3-6 árum áður en Amtsbókasafnið kom þar inn fyrir dyr. (En kannski vakti það alltaf fyrir Ara, að taka að sér bókasafnið, þegar hann reisti húsið, svo hver veit?)

Við skulum gefa Sigurði Sigurðssyni orðið þar sem hann segir frá byggingaframkvæmdum föður síns, sem lést í ársbyrjun 2016: Tveim árum áður en hann dó fékk hann bréf frá byggingaryfirvöldum um að húsið væri ekki í samræmi við teikningar og var honum veittur frestur til úrbóta. Hann lét sér fátt um finnast og í raun stórhneykslaður á að einhver, sem ekki var einu inni Innbæingur, skyldi voga sér að skipta sér af hans málum […] Núna má ekki breyta húsinu því að nú er húsið víst orðið minnisvarði um alþýðubyggingarlist síðustu aldar (Kristín Aðalsteinsdóttir (Sigurður Sigurðsson) 2016:51). Þannig er húsið raunar orðið friðað með áorðnum breytingum.
Aðalstræti 40 er einhvern veginn í senn stórbrotið og látlaust. Enda þótt því hafi verið „gjörbylt margsinnis“ er það algjörlega einstakt með sínu sérstæða viðbyggingasafni og kvisturinn mikli, svalirnar og skyggnið setja á það einkennandi svip. Þá er húsið í mjög góðri hirðu, skartar t.d. nýlegri járnklæðningu og nýjum margskiptum gluggum. Umhverfi þess er einnig sérlega gróskumikið og þar ber e.t.v. mest á birkitré miklu, nærri suðausturhorni lóðarinnar. Húsið er vitaskuld aldursfriðað, byggt margt löngu fyrir 1923 og í Húsakönnun 2012 er það sagt hluti af einstakri húsaröð sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi.
Meðfylgjandi myndir eru teknar 27. október 2025, 12. september 2022 og 14. apríl 2012.
Blogg Arnórs Blika Hallmundssonar
Heimildir
Án höf. 1960. Veðskuldabréf (listi yfir fasteignaviðskipti með veðskuldabréfum). Viðskiptatíðindi fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsýslu 4. tbl. 1.des. bls. 11.
Björg Einarsdóttir. 1984. Ljósmæður á Íslandi. Reykjavík: Ljósmæðrafélag Íslands.
Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU
Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.
Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Pdf-skjal á slóðinni  https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf.
Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar II. bindi. Akureyrarbær.
Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur gaf út.
Ýmsar upplýsingar af vefnum m.a. islendingabok.is, manntal.is, herak.is og timarit.is.
Frystiklefafælni
Ástand lands og landlæsi – Fyrri hluti: Staðan
Núvitund á mannamáli
Á Miðhúsum