Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Fróðasund 10

Um uppruna Fróðasunds 10, eða 10a, er í raun ekki mikið vitað. Það er að öllum líkindum þriðja elsta hús Oddeyrar, en gæti þó mögulega verið það annað elsta. Líkt og í tilfellum margra elstu húsa Oddeyrar liggur ekki fyrir byggingarleyfi en vitað, að Sigurður nokkur Sigurðsson er búsettur þarna árið 1877. Það er eflaust ekki óvitlaust, að miða við það, að hann hafi byggt húsið það ár. Á þessum árum voru fyrstu íbúðarhús Oddeyrar að byggjast upp og eigandi landsins, Gránufélagið, virðist ekki hafa kippt sér mikið upp við það, þó menn byggðu þar, svo fremi sem menn gengu frá lóðarmálum. Og þar lá heldur ekkert á, Snorri Jónsson fékk t.d. sína lóð um þremur árum eftir að hann reisti hús sitt. Þá fengu Björn Jónsson og Þorsteinn Einarsson lóð undir steinhús mikið, sem þeir reistu, fáeinum árum síðar. Bygginganefnd Akureyrar virðist einnig hafa kært sig kollótta, en hún útvísaði þó lóðum fremst á Eyrinni, þ.e. við Strandgötu. Og í tilfelli húss Sigurðar Sigurðssonar fylgdi raunar ekki lóð.

Húsið var upprunalega reist spölkorn sunnar og austar á Eyrinni, á austurbakka Fúlalækjar og varð síðar Norðurgata 7. Það er freistandi að áætla, að lega hússins hafi tekið mið af nýbyggðu húsi Jóns Halldórssonar (Strandgötu 27) í suðri. Árið 1877 lá nefnilega ekki fyrir neitt formlegt gatnaskipulag á þessum slóðum, það var ekki fyrr en sumarið 1885 að gatan, sem síðar fékk heitið Norðurgata, var ákvörðuð. Þá höfðu tvö önnur hús risið í sömu stefnulínu. Um aldamótin 1900 fékk sama gata nafnið Norðurgata.

Fróðasund 10 er einlyft timburhús á háum kjallara og háu risi. Á suðurhlið er inngönguskúr. Veggir eru klæddir steinblikki eða múrhúðaðir (norðurveggur) og bárujárn á þaki og þverpóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins mælist um 5,5x6m á kortavef, inngönguskúr 5x2m.

Sem fyrr segir stóð húsið við Norðurgötu 7. Árið 1890 er eigandi hússins Karl Kristinn Kristjánsson og húsið nefnt „Hús Karls Kristjánssonar, Oddeyri.“ Þá eru búsett þar Karl og kona hans, Guðný Jóhannsdóttir og þrjú börn. Á meðal þeirra var Jakob (1885-1957), síðar verslunar- og athafnamaður hjá Eimskipafélaginu og Skipaútgerð ríkisins. Hann byggði mikið sveitasetur, Lund, ofan Akureyrar (nú í miðri byggð) árið 1925. Karl Kristjánsson lést árið 1894 og árið 1901 býr Guðný og börn hennar í Aðalstræti 19. Fróðasund 10a, sem síðar varð, var eitt þeirra húsa, mögulega það fyrsta, sem hýsti Oddeyrarskólann hinn eldri. Barnakennsla hófst á Oddeyri árið 1879 og fór fram í hinum ýmsum íbúðarhúsum næstu tuttugu árin.

Einhvern tíma á þessu árabili flytur Bjarni Hjaltalín fiskimatsmaður frá Neðri Dálksstöðum á Svalbarðströnd ásamt fjölskyldu sinni í húsið. Var húsið löngum nefnt Hjaltalínshús eftir þeim. Húsið var þó í eigu Gránufélagsins og síðar Hinna sameinuðu íslensku verslana til ársins 1916, ef marka má manntöl. Árið 1917, þegar húsið er virt til brunabóta, er Bjarni hins vegar orðinn eigandi hússins, og kemur það einnig heim og saman við manntal það ár. En það var 8. mars það ár sem matsmenn Brunabótafélagsins sóttu Hjaltalínsfjölskylduna heim og lýstu húsinu þannig: Íbúðarhús einlyft með porti og háu risi á steingrunni, lítill skúr á bakhlið. Á gólfi við framhlið ein stofa, forstofa og búr, við bakhlið ein stofa og eldhús. Á lofti tvö íbúðarherbergi og gangur. Veggir timburklæddir og þak járnvarið. Grunnflötur 6,3x5,2m, hæð 5,7m, átta gluggar á húsinu og einn skorsteinn. (Brunabótafélagið, 1917, nr. 1917). Fylgir það sögunni, að skorsteinn þessi var ekki í samræmi við brunamálalög, þar eð hann var of þunnur.

Það er óneitanlega nokkuð sérstakt, að þau rúmlega 20 ár sem Bjarni Hjaltalín og fjölskylda eru búsett hér, eru Hinar sameinuðu verslanir (Gránufélagið þar áður) skráðar eigandi hússins í öllum manntölum öðrum en 1917. Hjaltalínsfjölskyldan mun hafa flutt úr húsinu 1924 en í október það ár búa hér Jóhannes Jónsson verslunarmaður og Sigrún Sigvaldadóttir.

Árið 1942 búa í Norðurgötu 9 þau Valdimar Kristjánsson og Þorbjörg Stefanía Jónsdóttir. Á meðal barna þeirra var Óðinn (1937-2001) stórsöngvari. Hann er m.a. þekktur fyrir ódauðlegan flutning margra dægurlagaperla á borð við Ég er kominn heim, Í kjallaranum, og Útlaginn. Valdemar eignaðist einnig hús nr. 7. Daginn fyrir lýðveldisstofnun, 16. júní 1944, heimilar Bygginganefnd Valdimari að flytja húsið Norðurgötu 9 á lóð við Fróðasund, milli Fróðasunds og 9 og Norðurgötu 17. Um leið var Norðurgata 7 flutt á lóðina sunnan við. Þar með urðu húsin nr. 7 og 9 við Norðurgötu að Fróðasundi 10a og 11. (Fróðasund 10b stóð sunnan við nr. 10a, en það hús var rifið árið 1998).

Margir hafa átt húsið og búið hér frá því það varð Fróðasund 10a, en öllum auðnast að halda húsinu vel við og er það í fyrirtaks hirðu. Það stendur á gróskumikilli lóð og er til mikillar prýði í umhverfinu. Staðsetningu þess má lýsa þannig, að það „leyni á sér“ en Fróðasund 10 og 11 eru bakatil á milli Lundargötu og Norðurgötu. Húsið hefur varðveislugildi sem hluti af heild, hlýtur miðlungs varðveislugildi í Húsakönnunn 2020. Það er vitaskuld aldursfriðað, enda byggt 1877 og líklega um að ræða þriðja elsta hús á Oddeyri, á eftir Gránufélagshúsunum og Strandgötu 27. Myndirnar eru teknar annars vegar 8. ágúst 2022 og 10. október 2010.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Hskj.Ak. F-117/1 Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 980, 16. júní 1944. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30