Fara í efni
Pistlar

Gamla-Gróðrarstöðin og garðyrkjuskólinn sem aldrei varð

TRÉ VIKUNNAR - 143

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Um aldamótin 1900 var mikil vakning í ræktunarmálum á Íslandi. Þá var reynt að virkja almenning til fjölbreyttrar ræktunar og á þremur stöðum í Eyjafirði eru merkilegir trjáreitir eða -garðar frá þessum tíma. Fyrst ber að nefna Grundarreit sem hefur áður borið á góma og er ótvírætt systurreitur Furulundarins á Þingvöllum, enda stóðu sömu menn fyrir ræktun beggja þessara reita og í sama tilgangi. Hér og hér má sjá pistla þar sem Grundarreit er gert hátt undir höfði. Svo má nefna Minjasafnsgarðinn. Til hans var stofnað skömmu fyrir aldamótin 1900 og fóru þar fram tilraunir með tré og annan gróður. Um þann garð höfum við skrifað sérstakan pistil sem sjá má hér og að auki höfum við skrifað um einstök tré í garðinum. Fljótt kom í ljós að hann var of lítill fyrir yfirgripsmiklar tilraunir með trjárækt og þá kom þriðji reiturinn til sögunnar. Hann er efni þessa pistils. Fyrsta kastið gekk garðurinn undir nafninu Gróðrarstöðin meðal almennings. Stöðinni var komið á fót við Naustagil árið 1904 og þar má enn finna fögur og tignarleg tré sem plantað var í tilraunaskyni snemma á öldinni sem leið.
 
Mynd úr grein Bjarna E. Guðleifssonar og Hallgríms Indriðasonar frá árinu 2012 sem væntanlega er tekin árið 1904 þegar framkvæmdir eru að hefjast á vegum Ræktunarfélags Norðurlands. Skúrinn á myndinni er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið er í dag. Höfundur myndar er ókunnur.
Mynd úr grein Bjarna E. Guðleifssonar og Hallgríms Indriðasonar frá árinu 2012 sem væntanlega er tekin árið 1904 þegar framkvæmdir eru að hefjast á vegum Ræktunarfélags Norðurlands. Skúrinn á myndinni er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið er í dag. Höfundur myndar er ókunnur. 

Útdráttur

Í þessum pistli er sagt frá Gömlu-Gróðrarstöðinni á Krókeyri. Garðurinn við húsið er einn af þremur trjáreitum í Eyjafirði frá fyrstu árum síðustu aldar, Stöðin var formlega stofnuð árið 1904 af Ræktunarfélagi Norðurlands sem tók til starfa ári áður. Í greininni er stiklað á stóru í sögu garðsins og sýndar gamlar og nýjar myndir úr honum. Einnig segjum við frá hugmyndum sem uppi voru um að stofna garðyrkjuskóla á staðnum og hvernig það mál var svæft í nefnd á sínum tíma. Að lokum segjum við frá hugmyndum um að svæðið verði trjásafn sem gæti orðið hluti af safnasvæðinu á Krókeyri.

 
Nú er þarna að finna fjölbreyttan og fagran gróður. Hengibjörkin á myndinni er um 12,5 metrar á hæð. Hver hefði trúað því árið 1904? Mynd: Sig.A.
Nú er þarna að finna fjölbreyttan og fagran gróður. Hengibjörkin á myndinni er um 12,5 metrar á hæð. Hver hefði trúað því árið 1904? Mynd: Sig.A.

Stofnun

Árið 1903 var hið merkilega félag Ræktunarfélag Norðurlands stofnað. Fyrsti formaður þess var Páll Briem (1856-1904) amtmaður sem einnig hafði komið við sögu þegar Trjáræktarstöðin var stofnuð þar sem nú er Minjasafnsgarðurinn. Að félaginu stóð áhugafólk um ræktun en markmið þess var að virkja vísindin í þágu atvinnulífsins og hafa forgöngu um jarðræktartilraunir og kennslu í jarðrækt. (Ásta og Björgvin 2012, bls. 10 og 11).

 
Í garðinum má sjá styttur af frumkvöðlunum Sigurði Sigurðarsyni og Páli Briem.
Í garðinum má sjá styttur af frumkvöðlunum Sigurði Sigurðarsyni og Páli Briem.

Hugmyndin að stofnun félagsins mun upphaflega hafa komið frá Sigurði Sigurðarsyni (1871-1940) sem seinna varð búnaðarmálastjóri (Ásta og Björgvin 2012, bls. 10) og fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands sem stofnað var á Þingvöllum í júní árið 1930. Enn er ónefndur þriðji mikilsvirti ræktunarhugsjónamaðurinn sem í upphafi lagði einnig sín lóð á þessa vogarskál ræktunarmála. Það var Stefán Stefánsson frá Möðruvöllum.

 
Árið 1906 var reist íbúðarhús fyrir tilraunastjóra Ræktunarfélagsins. Þetta hús stendur enn og nú hýsir það starfsmenn Lands og skógar. Myndin var sennilega tekin árið 1910 og við fengum hana úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012. Mynd: Hallgrímur Einarsson/Minjasafnið á Akureyri.
Árið 1906 var reist íbúðarhús fyrir tilraunastjóra Ræktunarfélagsins. Þetta hús stendur enn og nú hýsir það starfsmenn Lands og skógar. Myndin var sennilega tekin árið 1910 og við fengum hana úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012. Mynd: Hallgrímur Einarsson/Minjasafnið á Akureyri.
Benjamín Davíðsson stendur við gamalt lerki sem farið er að halla meira en ráðlegt er. Fyrr eða síðar mun það falla. Þessi gróður er á gamla tilraunasvæðinu við Gömlu-Gróðrarstöðina. Mynd: Sig.A.
Benjamín Davíðsson stendur við gamalt lerki sem farið er að halla meira en ráðlegt er. Fyrr eða síðar mun það falla. Þessi gróður er á gamla tilraunasvæðinu við Gömlu-Gróðrarstöðina. Mynd: Sig.A.

Nafnið

Þegar þessi gróðrarstöð Ræktunarfélags Norðurlands var stofnuð fékk hún fyrst hið virðulega nafn Aðaltilraunastöð Ræktunarfélags Norðurlands en síðar gekk hún undir nafninu Gróðrarstöðin. Á sama tíma var eldri garðurinn, sem nú heitir Minjasafnsgarður, kallaður Trjáræktarstöðin. Árið 1947 var stofnuð gróðrarstöð á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarna. Þessar gróðurstöðvar þurfti að greina að og þá var farið að tala um Gömlu-Gróðrarstöðina. Heitið Gróðrarstöðin hafði með tímanum fest í sessi þótt það hefði ekki verið hugsað þannig í byrjun. Sama ár og Skógræktarfélagið stofnaði gróðrarstöð, eða 1947, tók ríkið við rekstri stöðvar Ræktunarfélagsins. Hið opinbera heiti var þá Tilraunastöðin á Akureyri. Árið 1974 var stöðin flutt að Möðruvöllum í Hörgárdal (Bjarni og Hallgrímur 2012).

Í garðinum eru falleg og fjölbreytt tré. Lengst til vinstri er glæsilegur garðahlynur sem talið er að hafi verið gróðursettur um 1930. Hæsta tréð á myndinni er bergfura 13,6 m há, sem gróðursett var tíu árum áður. Lengst til hægri sér í reynivið sem vex upp af rótum eldra trés sem kann að hafa verið gróðursett snemma á öldinni sem leið. Mynd: Sig.A.
Í garðinum eru falleg og fjölbreytt tré. Lengst til vinstri er glæsilegur garðahlynur sem talið er að hafi verið gróðursettur um 1930. Hæsta tréð á myndinni er bergfura 13,6 m há, sem gróðursett var tíu árum áður. Lengst til hægri sér í reynivið sem vex upp af rótum eldra trés sem kann að hafa verið gróðursett snemma á öldinni sem leið. Mynd: Sig.A.

Ræktunarfélag Norðurlands fékk til afnota um þriggja hektara land í kringum Naustagil og rúma fimm hektara uppi á brekkunni, sunnan við Naustatúnið sem þar var. Þetta voru því samtals rúmir átta hektarar sem Akureyrarbær afhenti félaginu til afnota árið 1903. Þar hófust tilraunir með ræktun ýmissa jurta og trjáa ári síðar og er miðað við það ár sem stofnár Gömlu-Gróðrarstöðvarinnar. Sama ár hófust einnig tilraunir með notkun áburðar og voru í því sambandi gerðar uppskerumælingar við mismunandi aðstæður. Það sem nú er mest áberandi á þessum átta hekturum eru trén sem plantað var í tilraunaskyni (Bjarni og Hallgrímur 2012).

Horft yfir Gróðrarstöðina um árið 1930. Krókeyrin til vinstri á myndinni. Aðalræktunarsvæði trjáa er á milli íbúðarhússins og verkfærahússins sem er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið stendur í dag. Einnig sést að trjágróður teygir sig upp eftir Naustagilinu til hægri á myndinni. Myndina fengum við úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012 en hana tók Vigfús Sigurgeirsson.
Horft yfir Gróðrarstöðina um árið 1930. Krókeyrin til vinstri á myndinni. Aðalræktunarsvæði trjáa er á milli íbúðarhússins og verkfærahússins sem er um það bil þar sem Iðnaðarsafnið stendur í dag. Einnig sést að trjágróður teygir sig upp eftir Naustagilinu til hægri á myndinni. Myndina fengum við úr grein Bjarna og Hallgríms frá árinu 2012 en hana tók Vigfús Sigurgeirsson.
Nú er hinn fegursti garður upp með Naustagilinu sem sést á myndinni hér að ofan. Þetta er óþarflega vel varðveitt leyndarmál á Akureyri. Mynd: Sig.A.
Nú er hinn fegursti garður upp með Naustagilinu sem sést á myndinni hér að ofan. Þetta er óþarflega vel varðveitt leyndarmál á Akureyri. Mynd: Sig.A.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Þakklæti

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
16. desember 2025 | kl. 06:00

Þegar mamma eyðilagði jólin

Þráinn Lárusson skrifar
14. desember 2025 | kl. 17:00

Orustan um Waterloo

Jóhann Árelíuz skrifar
14. desember 2025 | kl. 06:00

Gefjun skóp ekki annan Játvarð Loðvík

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 12:00

Hvenær kemur flugstöðin?

Sverrir Páll skrifar
10. desember 2025 | kl. 17:00

Gráþröstur

Sigurður Arnarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 12:30