Fara í efni
Pistlar

Brot og brotabrot

Ég var staddur í Búdapest um daginn og hitti þar margt hlýlegt og velviljað fólk. Einni gangstétt var þó eitthvað uppsigað við mig og réðist á mig óforvarendis. Ég reyndi að berja hana til baka og handleggsbrotnaði fyrir vikið. Gangstéttin lagðist bara kyrr og ánægð með afraksturinn. Um nóttina hringdi ég á sjúkrabíl sem fór með mig á slysadeild sjúkrahúss þar sem sú deild leit út eins og klippt út úr fræðslumynd um Chernobyl. En þetta var lagað einhvern veginn og ég fór heim á hótel og flaug til Íslands í veðursældina um morguninn. Síðan er ég búinn að vera eins og afdankaður pirraður karlfauskur, vælandi yfir því að geta ekki athafnað mig eins og venjulega. Áðan fór ég svo í Bónus og fann til með sjálfum mér yfir þessu öllu, vandræðaganginum við að setja vörur í poka og svo þegar ég kom út var farið að snjóa. Þá gerðust tveir hlutir í einu í hausnum á mér. Ég varð afskaplega pirraður, eða eins mikið og ég kann að vera pirraður og í sömu mund fattaði ég að milljónir fólks hafa það margfalt verra en ég og skammaðist mín fyrir pirringinn. Fólks sem glímir við hryllileg kjör, fólk sem er líkamslest, fólk sem býr við þjáningar alla æfi og svo ég að væla yfir einu skitnu handleggsbroti sem er eitthvað sem er búið eftir sex vikur. Og eins og oft áður varð mér hugsað til þess hvað það þurfa margir að lenda í alvarlegum áföllum, heilsubresti eða missi til að gera sér grein fyrir því hvað það er merkilegt og dýrmætt að vera til og hvað þá að hafa heilsu. Mér fannst ég vanþakklátur fyrir að vera eitthvað að agnúast út í tilveruna þegar í raun var ekkert svo mikið að mér og að þetta yrði búið innan skamms. Samt finnst mér alltaf stórmerkilegt hvað það þarf mikið af óförum og sorg til að gera sér grein fyrir því hvað lífið er gott. Enda dettur manni stundum í hug að ofbeldisfullir einræðisherrar sem samviskulaust slátra þúsundum ef ekki milljónum manneskja hafi aldrei upplifað neitt neikvætt, eða þá að einhver reynsla hafi orðið þeim um megn og þess vegna þurfi þeir ekkert að skammast sín fyrir að láta aðra ráðast inn í lönd, stúta mótmælendum og leika sér að ofbeldi. Ekki þar fyrir, þetta er samt pirrandi og það er allt í lagi að vera svolítið pirraður. Bara ekki þannig að aðrir verði fyrir því. Að lokum, ein skemmtileg saga af föðurbróður mínum einum nokkurra sem einhvern veginn göslaðist fram af húsi og braut á sér báða handleggina. Hann sagði stuttu síðar að það væri hryllingur að geta varla skeint sér almennilega og bætti svo við: „Ég verð líklega bara að fá mér hund.“

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Hinn fágæti rúmenareynir og ný ættkvísl reynitrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
09. október 2024 | kl. 12:00

Fóa og Fóa feykirófa

Pétur Guðjónsson skrifar
08. október 2024 | kl. 16:30

Danstímar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. október 2024 | kl. 11:30

Heljarstökk í lestri

Jóhann Árelíuz skrifar
06. október 2024 | kl. 11:30

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00