Fara í efni
Pistlar

Litla gula hænan

Litla gula hænan fann eitt fræ
og fór með það í skyndi heim að baka.
Henni datt í hug að gera pæ
en hugsaði svo, best það verði kaka.
Að lokum varð þó úr að baka brauð
því bæði var hún löt og efnasnauð.

Litla gula hænan hringdi í svín
og hélt það myndi þreskja fræið góða,
en svínið lá með bjór og brennivín
í baðinu við skriftir gleðiljóða.
Það sagði henni að hundskast sjálf til þess
og hló og skálaði og rýtti bless.

Litla gula hænan þreskti þreytt
og þjáð sitt fræ og löng varð henni stundin.
Við það henni varð svo ósköp heitt
að veslingurinn þurfti að kalla í hundinn
- sem átti leið þar hjá með hjólið sitt -
að hjálpa við að mala þennan titt.

Litla gula hænan gól í hund
«Æ, hjálpaðu mér, elsku góði Snati!»
Hundurinn sem þurfti að fara á fund
í Fylki sagði: «Þú ert algjör rati,
mér finnst þú gætir alveg malað ein
og alveg laus við svona harmakvein.»

Litla gula hænan grét og grét
og gat ei skilið svona dýrahrekki
Hún malaði sitt korn og kvalin hét
í kasti sínu að næst þá myndi hún ekki
taka fræ og fara heim með það
en fleygja því í næsta drullusvað.

Litla gula hænan hringdi í kött
með höfuðverk sem leiddi fram í enni,
og sagðist finnast alveg út í hött
að allt sem þyrfti að gera mæddi á henni.
Hún sagði «viltu baka hveitibrauð,
ég bið þig, svo ég leggist ekki dauð»

Litla gula hænan hrökk í kút
er hundfúl kisan svaraði með usla:
«Alveg finnst mér ótrúleg þín sút,
þú erkilata og feita hænudrusla
og éttu skít og skammastín um leið»
svo skellti hún á og hvæsti örg og reið.

Litla gula hænan herptist öll
af hatri, grimmd og skömm og sorg og trega,
upphóf gól og gagg og rak upp köll
og grét og skældi frekar ámátlega,
uns kvölda tók og tunglið lýsti fullt
þá tók hún kipp og ýfði fiðrið gult.

Litla gula hænan hló um stund
og hristi sig af innibældri kæti;
«Fjandinn taki svín og hirði hund
og hatað kattarræsnið með sín læti,
ég baka skal þeim brauðið gott og heitt
og borða sjálf svo þau fái ekki neitt.

Litla gula hænan fann eitt fræ
og fór og þreskti það í kytru sinni,
malaði í blíðum sumarblæ
og bakaði, þó svitabaðið rynni,
af einu fræi ímyndunarbrauð
með ilm af von, og bragð af sálarnauð.

Litla gula hænan hóf upp gól
um himneskt brauðið sitt og bauð í gilli,
látandi sem loksins væru jól
og lofaði öllum brauði og útigrilli.
Hún sendi boðskort, hringdi út um allt,
í ísskápinn hún setti bjór og malt.

Litla gula hænan beið og beið
og bjórinn hvarf en maltið beið í kæli.
Áfengið í sinni hennar sveið
uns sat hún körg í illa hirtu bæli.
Hún velti sínum fulla hænuhaus
um heimsins fólsku, ill og vinalaus.

Litla gula hænan söng og hló
er hundur kom með kettinum og svíni:
«Feiti köttur, þú með þína kló,
og þú þarna, þú skitna flesk í víni,
og hundur, þarna, þú ert algjör tík,
ég þekki ykkur, ljótu dýrafrík.»

Litla gula hænan æpti óð:
«Já, ykkur gef ég síst af brauði mínu
ég lagði í það ást og svita og blóð,
þó enginn vildi gefa af hjarta sínu
né leggja til af öllum sínum auð
í einnar hænu von um lífsins brauð.»

Litla gula hænan hló og grét
og hristist öll í sínu drykkjuæði,
þagði svo og augun aftur lét
og einnig dyrnar til að fá í næði
að rækta hatur sitt og sálarstríð
að syngja bölbænir og yrkja níð.

Litla gula hænan hún er ein
í húsi sínu, rúin allri gleði,
hugur lúinn hjartað breytt í stein,
og hænan löngu orðin veik á geði.
hún étur enn sitt ímyndaða brauð
og óskar stundum þess hún væri dauð.

Litla gula hænan er samt eins
og allir þeir sem vilja heldur taka
en gefa og eru öllum þeim til meins
sem elska að sá og rækta, skera og baka
sitt lífsins brauð við ástarinnar eld
og eignast með því fagurt ævikveld.

Litla gula hænan hún er dauð
af hörmung þess sem andast þó hann lifi
eins og bragðlaust, flatt og fallið brauð
og falleg klukka, gersneydd lífi og tifi.
Við löbbum frá og lítum sorgmædd burt
og látum hænsnið eilíflega kjurt.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15

Sjálfbærni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
07. september 2024 | kl. 09:00

Hvað er svona merkilegt við það?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 06:00

Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 22:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30

Fyrr og nú við vatnsleiðslu

Sigurður Arnarson skrifar
04. september 2024 | kl. 08:50