Fara í efni
Pistlar

Bjartsýni

Mér hefur oft verið sagt að ég sé alltof bjartsýnn, of treystandi og alveg hræðilega gjarn á að gefa endalaust séns þeim sem svíkja mig eða pretta. Og viðurkenni það fúslega enda kann ég ekkert annað. Ég á afskaplega erfitt með að dæma aðra fyrir að vera eitthvað á skjön við það líf sem ég lifi og einhverra hluta vegna finnst mér eins og allavega lang flestum sé við bjargandi, hversu djúpt sem þeir eru sokknir í líferni sem á endanum leiðir það afskiptalaust til dauða eða einhvers þaðan af verra. Reyndar er ekki margt sem við fyrstu sýn vekur manni von um betra líf. Ríkisstjórn sem púkkar undir rahúið á arðræningjum, kengruglaða einræðisherra sem hika ekki við að ráðast inn í lönd fyrir einhverskonar gróðahyggju, hvort sem það er rússneskur vitfirringur eða bandarískir vopnaframleiðendur og lyfjarisar, öfgasinnaðir múslimar eða kristnir söfnuðir sem gera ritningu sína að leiðbeiningarbæklingi um fordæmingu. Vissulega hræðilegt allt saman og örugglega vert svartsýni. Sem hamrað er á í fjölmiðlum og fréttum eins og það eitt sé að gerast í heiminum sem úrskeiðs fer og er hættulegt og ljótt. Í um það bil áratug vann ég sem frílans fréttaritari og tökumaður fyrir stöð2 og horfði á fréttir og hlustaði á allt tengt fréttum. Þar bauð ég oft upp á jákvæðari fréttir en venjulega, sem áttu ekki alltaf upp á pallborðið, þetta var ekki nógu spennandi. Eins fór með aðra fjölmiðla sem ég kom nærri, nema Dag á Akureyri. Þar fékk ég frjálsar hendur til að skrifa Poppfréttir, um nýjar hljómsveitir og svo eitthvað flipp á milli. Mjög skýr en samt óljós minning kemur upp í hugann af viðtali við Stuðkompaníið. Nú horfi ég lítið sem ekkert á sjónvarpsfréttir, hlusta stundum og líður mun betur með það en allan hasarinn. Ég stend mig að því að fylgjast frekar með mannlífinu eins og það birtist mér í strætó eða á götum úti þar sem almenn hegðun fólks vekur mér meiri bjartsýni en hasarinn. Ég hef kynnst stórmerkilegu fólki úr hópi þeirra óæskilegu, forfallnir neysluboltar sem eru eiginlega mjög beinskeytt sneiðmynd af þjóðfélaginu. Sumir eru siðlausir, aðrir ekki en allir manneskjur með sína kosti og galla, sitt siðferði, sína heimspeki sitt líf, hvernig svo sem það gengur. Með því að líta þannig á lífið hefur mér ef eitthvað er aukist mín algerlega óraunsæja bjartsýni. Og í þokkabót þá get ég ekki með nokkru móti haft áhyggjur af æskunni, þessari æsku sem ótrúlega margir hafa gleymt að hafa einhvern tímann upplifað. Meira að segja sumir kennarar sem vilja endilega innræta börnum og unglingum það að gleyma sköpunarþránni og fjörinu, og taka frekar upp einskonar geldingu hugans. Börn og unglingar og fólk án sköpunar viðheldur þeirri geldingu og viðheldur svartsýninni. Maður á nefnilega að verða fullorðinn sem fyrst og hegða sér eins og alltaf hefur verið gert. Eiginlega ætti að banna þessi orð í kennslustofum: „Þetta hefur alltaf verið gert svona.“ Og ég hef ekki áhyggjur af íslenskunni, hún aðlagar sig og breytist en verður alltaf íslenska. Og ef að fólki er leyft að blómstra, börnum og unglingum leyft að skapa, þá loksins „… er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur, komið fram með svörin þar sem sigldum við í strand.“

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30