Fara í efni
Umræðan

Stelpurnar okkar!

Stelpurnar okkar!

Í gær komum við nokkur saman í ákveðið verkefni og þegar því lauk þann daginn var tekin mynd af hópnum. Verkefnið fólst í því að þrífa Lundarskóla sem verið er að endubyggja nánast frá grunni og því um marga fermetra að ræða í þrifum.

Af hverju hittist þessi hópur í gær? Hvaða fólk er þetta?

Eins og áður segir kom þessi hópur saman til að þrífa. Hann fær greitt fyrir það. Hann fær greitt fyrir þrifin. Sú greiðsla rennur til meistarflokks kvenna Þórs/KA í fótbolta. Stelpurnar áttu leikdag og því hlupu foreldrarnir í skarðið. Þrifunum er hvergi nærri lokið og verður haldið áfram þegar það verður hægt.

Hópurinn á myndinni á það sameiginlegt að vera foreldrar þessara stelpna sem stunda fótboltann. Það er tengingin.

Stelpurnar okkar!

Í matarhléi sem við tókum okkur fórum við að spjalla saman eins og gengur og leiddist sú umræða inná þær alvarlegu brautir sem snéru að veru okkar þarna uppi í skóla. Þessum þrifum. Auðvitað var gaman og við gerðum grín en við vitum líka að grín er oft birtingarmynd alvörunnar.

Við veltum þessu fyrir okkur. Við veltum fyrir okkur stöðu stelpnanna okkar og stöðu strákanna okkar.

Sama áhugamál, sama alvara, sami metnaður og allt þetta sem við vitum svo vel og forskoti strákanna.

Er það lögmál að þar sem stelpur/konur koma saman til að stunda áhugamál eða sinna einhverjum málum að þá endi það alltaf með bakstri og þrifum?

Ég man eftir leikriti Hunds í óskilum þarna um árið, atriðið þar sem Hjöri ruggar vöggunni með öðrum fætinum á meðan hann/hún hrærir í pottunum og skipuleggur um leið jafnréttisbaráttu kvenna með símann við eyrað. Kvennasagan á Hundavaði. Grátbroslegt en sannleikurinn því miður.

Væri hægt að gera þetta einhvern vegin öðruvísi?

Saga fótbolta er samofin karlasögunni. Konur eiga alls ekki eins langa sögu í fótbolta. Og saga fótboltans hér á Íslandi er samofin því sem gerist úti í hinum stóra knattspyrnuheimi karlanna.

Ó það er svo mikið af karlmönnum þarna úti og það er svo mikið af peningum þarna úti!

Við konurnar, hvað gerum við?

Nú við bökum og þrífum.

Peningarnir eru einfaldlega ekki okkar megin.

Ekki Enn.

Iðunn mín hefur ekki sama aðgang að þessu fjármagni og æskuvinur hennar og jafnaldri sem fæddist drengur. Við pabbi hennar þurfum að baka og mæta í þrif. Ég fæ tár í augun þegar ég skrifa akkúrat þetta.

Ég er ekki sátt og ég veit í hjarta mínu að enginn er það. Þess vegna langar mig til að við breytum þessu. Þó það kosti sársauka til að byrja með. Ég geri mér grein fyrir því að fjármagn inn í knattspyrnuna hangir saman við árangur karla og það myndi fylgja því ákveðinn sárauki að stíga skref í þá átt að að útdeila fjármagni með öðrum hætti en nú er gert. Það þarf að rýma til fyrir stelpunum og hleypa þeim að kötlunum. Er hægt að stíga þau skref að stelpurnar okkar njóti góðs til jafns við strákana okkar þegar kemur að því að deila út því fjármagni sem safnast hér innanbæjar/innanlands?

Er raunverulegur vilji til að jafna stöðu karla og kvenna í knattspyrnunni (auðvitað allsstaðar) og gera það sem þarf að gera?

Flottu strákarnir okkar eru velkomnir í bæði bakstur og þrif.

Í matarhléinu var ákveðið að mynd skyldi tekin af hópnum sem sýndi það sem við höfðum verið að gera. Það fylgdi því smá fliss og hlátur en undir niðri kraumar óánægjan.

Yrsa Hörn Helgadóttir er fyrrverandi fótboltakona og núverandi fótboltamamma.

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00