Fara í efni
Umræðan

Skólahald í Evrópu og Menntaskólinn á Akureyri

Rekja má skólahald í Evrópu 2500 ár aftur í tímann. Gríski ræðumaðurinn Isokrates, sem uppi var um 400 árum f. Kr. [436-338], er oft nefndur upphafsmaður skólakennslu í Aþenu, en hann stofnaði skóla til þess að kenna ræðulist, rehétoriké, en ræðulist var þá talin undirstaða æðri menntunar. Í Grikklandi hinu forna voru auk þess reknir skólar bæði fyrir börn og fullorðna. Nafntoguðustu skólar landsins voru hins vegar heimspekiskólarnir: Akademía Platóns [427-347 f. Kr.], Lýkeion Aristótelesar [384-324 f. Kr.] og Kepos eða „garðskóli” Epíkúrosar [341-271 f. Kr.], sem þekktur var fyrir vingjarnlegt og menningarlegt andrúmsloft og konum og þrælum heimill aðgangur, en slíkt var einsdæmi í fornöld. Skólahaldi í Grikklandi hinu forna verða ekki gerð skil hér. Aftur á móti verður reynt að gera grein fyrir skólahaldi í hinu forna Rómaveldi af því að í skólum Rómverja er að finna rætur að evrópsku skólahaldi, bæði barnaskólum, menntaskólum og háskólum svo og skólum kaþólsku kirkjunnar, en skóli Jóns helga Ögmundarsonar [1052-1121] á Hólum í Hjaltadal er meiður á þeim mikla stofni.

Skólahald í hinu forna Rómaveldi

Í Rómaveldi hinu forna var kennsla einkamál manna – eða með öðrum orðum: frjálsir þegnar ríkisins, sem vildu öðlast skólamenntun eða veita börnum sínum uppfræðslu, urðu sjálfir að kosta fræðslu barna sinna. Börn hófu skólagöngu við sjö ára aldur, eins og síðan tíðkaðist nær tvö þúsund ár. Svonefndur paedagogus, grísku paidagogos, „barnaleiðari”, fylgdi börnunum úr og í skóla og vakti yfir velferð þeirra, en kennari, ludi magister, „skólameistari”, kenndi þeim. Algegnt var að pedagogus og ludi magister væru grískir leysingjar eða grískir þrælar. Þegar fram liðu stundir voru barnaskólar af þessu tagi reknir hvarvetna í rómverska ríkinu. Í þessum einkaskólum Rómverja var kenndur lestur, skrift og reikningur og stunduðu börn nám til tólf ára aldurs, og af myndum og veggjakroti í Pompei hafa menn ráðið að lestrar- og skriftarkunnátta yfirstéttarinnar hafi verið almenn.

Um þrettán ára aldur settust dugandi nemendur, bæði piltar og stúlkur, í framhaldsskóla – eða menntaskóla, sem raunar voru nefndir málfræðiskólar, á latínu schola grammaticae. Árið 130 er talið að tuttugu slíkir skólar hafi verið í Rómaborg sjálfri þar sem þá bjó um ein milljón manna. Í þessum menntaskólum Rómverja var kennd latnesk málfræði, grísk tunga, latneskar og grískar bókmenntir, tónlist, stjörnufræði, saga, trúfræði og heimspeki með lestri og skýringum á ljóðum góðskáldanna. Framhaldsskólakennararnir, grammatici, „málfræðingar”, voru eins og grunnskólakennararnir flestir grískir leysingjar. Mikil rækt var því lögð við grískar bókmenntir og gríska sögu, enda grísk áhrif mjög sterk í Róm á öldunum fyrir og eftir Krists burð og margir borgarbúar töluðu grísku.

Sú menntun sem tók við af framhaldsskólunum – og líkja má við háskóla síðari tíma, fór fram í skólum málskrúðsfræðinga, retora, og hafa þessir skólar verið kallaðir málskrúðsskólar. Í þeim var einkum kennd ræðulist eða málskrúðsfræði, á latínu rhetorica, en ræðulist var í Rómaveldi, eins og á Grikklandi hinu forna, talin æðsta stig menntunar og undirstaða lýðræðis til þess að geta komið fyrir sig orði og skýrt mál sitt. Auk þess var í málskrúðsskólum kennd heimspeki, á latínu philosophia, og rökfræði, á latínu dialectica. Nemendur lásu klassísk verk á latínu, bæði ljóð og ritverk ræðumanna eins og Ciceros [106-43 f. Kr.], Quintilianusar [um 35 - um 95] og verk keisara keisaranna Júlíusar Caesars [um 100 f. Kr.-15. mars 44 f. Kr.]. Varð málið á ritum þeirra fyrirmynd að klassískri latínu og málnotkun um margar aldir. Sumir retoranna ferðuðust milli borga og fluttu erindi um bókmenntir, heimspeki, stjórnmál og sögu. Nemendur hófu nám í þessum háskólum um sextán ára aldur og gátu dvalist þar eins lengi og þeir vildu, en skólagjöld voru há. Þeir sem vildu hljóta frekari menntun fóru síðan í heimspekiskólana í Aþenu.

Ríkisskólar

Títus Flavíus Sabínus Vespasíanus [9-79], keisari í Róm 69 til 79, er talinn með merkustu keisurum Rómaveldis vegna endurbóta sem hann gerði á stjórn ríkisins eftir óstjórn og spillingu fyrri keisara, m.a. hins illræmda Nerós [37-68] sem var keisari frá 54 til 68. Vespasíanus var sonur tollheimtumanns í bænum Reate á Norður Ítalíu en gerðist ungur hermaður og varð að lokum landstjóri Rómverja í Júdeu. Vespasíanus var talinn hygginn og hógvær, hann virti öldungaráðið, endurskipulagði herinn, styrkti fjármál ríkisins, reisti hús og hallir, efldi vísindi og fræði og stofnaði fyrstu ríkisskóla sem um getur. Vel lærðir kennarar í latneskum og grískum fræðum og í mælskulist fengu laun af almannafé og þágu eftirlaun eftir 20 ára starf.

Eftir brautryðjendastarf Vespasíanusar styrktu allir keisarar Rómaveldis skólarekstur á vegum ríkisins og fylgdu aðrir þjóðhöfðingjar í Evrópu á eftir. Í stjórnartíð Hadríanusar [76-138], sem var keisari árin 117 til 138, var ríkið farið að kosta framhaldsskóla í mörgum borgum víðs vegar um ríkið og fengu kennarar eftirlaun og hinir fremstu voru leystir undar skattgjaldi og öðrum álögum. Smám saman risu skólar af þessu tagi, bæði barnaskólar og málfræðiskólar, í borgum víða um Rómaveldi sem að lokum náði um alla sunnanverða Evrópu, austan frá Svartahafi vestur að Atlantshafi, norður á Þýskaland og Frísland og til Bretlands norður að múr Hadríanusar sem gekk þvert yfir Skotland frá Edinborg eða Firth of Forth vestur að Clydefirði þar sem nú er Glasgow, en þar voru norðurmörk Rómaveldis. Rómarveldi náði auk þess yfir Miðjarðarhafsströnd Afríku austur um Egyptaland og löndin við botn Miðjarðarhafs. Veldi Rómverja náði hins vegar ekki til Rússlands, Eystrasaltsríkjanna, Póllands eða Norður-Þýskalands né Norðurlandanna og Írlands, enda þróuðust mál þar á annan veg.

Þjóðflutningarnir miklu

Þjóðir þær, sem á öldum eftir Krists burð byggðu norðurhéruð núverandi Þýskalands, Jótland og dönsku eyjarnar svo og sunnanverða Skandinavíu, voru af germönskum stofni. Margar þessara germönsku þjóða voru á þessum öldum á faraldsfæti um álfuna. Eru þessar ferðir kallaðar þjóðflutningarnir miklu, eins og kunnugt er, og þetta tímabil Evrópusögunnar kallað þjóðflutningatímabilið, enda var allt á ferð og flaug margar aldir. Ríkjaskipan gerbreyttist og ásýnd álfunnar og menningaráhrif af ýmsu tagi bárust fram og aftur, m.a. áhrif kristni og áhrif skólamenntunar, eins og vikið verður að hér á eftir.

Talið er að þjóðflutningarnir miklu hefjist á annarri og öld eftir Krists burð en nái hámarki á fimmtu og sjöttu öld. Á þessum tíma héldu þjóðirnar, sem bjuggu á Norður-Þýskalandi og Danmörku, Saxar, Englar og Jótar, vestur yfir Norðursjó til Bretlandseyja. Aðrar germanskar þjóðir, s.s. Gotar, Vandalar, Svávar og Búrgundar, héldu suður álfu og lögðu undir sig lönd og þjóðir og stofnuðu ný ríki. Í árslok 406 ruddust Vandalar og Svávar suður yfir Rín, gegnum varnir Rómverja, og héldu inn í Gallíu, þar sem nú er Frakkland, og stofnuðu þar ríki.

Aukin kristin áhrif

Eftir að Konstantín keisari mikli [280-337] veitti kristnum mönnum trúfrelsi í Rómaveldi árið 313 og ekki síst eftir að kristni varð ríkistrú í Rómaveldi árið 381, breyttist þetta smám saman, eins og gefur að skilja, er kristnum kennurum fjölgaði. Eitt höfuðmarkmið skólakennslu Rómaveldis var að gera börn að góðum þegnum ríkisins. Börn skyldu tileinka sér reglur, hugsjónir og gildismat ríkisins og lesa klassískar bókmenntir á latínu og grísku til þess að geta tjáð sig sem frjálsir borgarar, enda var mælskulist talin grundvöllur menntunar og lýðræðis, eins og áður er að vikið. Kirkjan lagði hins vegar áherslu á sálarlíf fólks og tilfinningar, trú á guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar og á einkason hans, frelsarann Jesúm Krist. Trúin átti að veita mönnum frið og þegnarétt í himnaríki og gera alla undirgefna kirkjunni og valdsmönnum hennar, páfanum í Róm, biskupum og prestum. Viðhorf valdhafa Rómaveldis og páfans í Róm, eftir að vald hans tók að vaxa, voru um margt ólík, en markmiðið svipað: undirgefni og velsæld þessa heims eða annars.

Kennarar í hinu forna Rómaveldi notuðu lengi kennsluefni grískrar heiðni, enda byggðu skólarnir á heiðnum, grískum grunni og kennarar voru lengi grískir. Í frumkirkjunni urðu umræður um skólakennslu og kennsluefni af þessum sökum, en lengi gátu kristnir menn lítið að gert. Smám saman breyttist bæði kennsluefnið og viðhorfin til kennslunnar – og kom margt til. Ein ástæðan var að sjálfsögðu að kirkjan efldist og kristin áhrif jukust af þeim sökum og kristindómsfræðsla kom í stað gömlu grísk-rómversku goðafræðinnar. Það sem þyngst vó var, að fram á sjónarsviðið komu rithöfundar og heimspekingar sem aðhylltust kristna trú og skrifuðu bækur og rit sem fluttu annan siðferðisboðskap og aðra kenningu en áður hafði þekkst og kaþólska kirkjan var fyrsta „heimsveldið” sem notaði ritað orð til þess að útbreiða kenningu sína og hafði það mikil áhrif. Einnig má nefna að kristin kirkja boðaði einn guð og gekk smám saman til samstarfs við einvalda þjóðhöfðingja, konunga og keisara, sem gátu samsamað sig hinum eina alvaldandi og almáttuga guði og urðu að lokum sjálfir einvaldar og þágu vald sitt af guði, urðu konungar „af guðs náð”, rex dei gratia, eins og það hét á latínu. Urðu þeir að hljóta blessun kirkjunnar sem jók enn vald hennar. Þjóðþing ríkjanna samþykktu smámsaman vald kirkjunnar og varð valdakerfið gagnvirkt, ríki annars vegar og kirkja hins vegar og hvort öðru háð.

Rómarveldi og kaþólska kirkjan

Segja má að kaþólska kirkjan sem heimsveldi hafi í ýmsu tilliti verið arftaki hins forna Rómaveldis og stofnanir þess hafi lifað áfram innan kirkjunnar, þótt í breyttri mynd væri. Kaþólska kirkjan varðveitti auk þess menningu fornaldar til þess að efla styrk sinn og áhrifamátt en leiðtogar hennar áttuðu sig snemma á því, að róttæk menningarbylting gæti skaðað stöðu kirkjunnar, vöxt hennar og viðgang, ekki síst á sviði menningar, skólahalds og kennslu. Á dögum frumkirkjunnar var litið á kristnar kenningar annars vegar og hins vegar lærdóm og menningu fornaldar sem andstæður. Þegar kristnin tók að festast í sessi á fjórðu öld – og ekki síst eftir að kristni varð gerð að ríkistrú í Róm 381, breyttist þetta viðhorf og þegar fram kom á fimmtu öld er talið að kirkjan taki að notfæra sér ýmsa þætti úr menningu fornaldar og fella að kenningum sínum.

Ágústínus kirkjufaðir

Sá einstaklingur sem mest áhrif hafði á þessa þróun kirkjulegra fræða og kenninga, er Ágústínus kirkjufaðir [354-430]. Bent hefur verið á að sjálfur hafi hann numið hin heiðna lærdóm fornaldar áður en hann tók kristna trú og hafi í raun gengið í gegnum sömu þróun og kirkjan. Sé hann því góður fulltrúi fyrir þetta tímabil í sögu kaþólsku kirkjunnar og menningarsögu Evrópu. Ágústínus fæddist í bænum Þagaste í Númidíu á norðurströnd Afríku, sem þá var hluti af Rómaveldi og náði yfir núverandi Túnis og Alsír. Ágústínus var lærður í fornum fræðum Grikkja og Rómverja og aðhylltist kenningar Platóns – var nýplatónisti, eins og kallað er, og þótt miklar breytingar yrðu á viðhorfum hans eftir að hann tók kristna trú, er talið að hann hafi alla tíð borið með sér menningu og viðhorf fornaldar. Eftir að Ágústínus tók kristna trú árið 387 stofnaði hann eins konar klaustur í bænum Hippo á norðurströnd Afríku, miðja vegu milli núverandi Algeirsborgar og Túnisborgar, og stundaði þar kennslu. Segja má að þessi kennsla Ágústínusar í Hippo væri fyrsti vísir að kristnum klausturskóla. Tók hann að uppfræða unga karlmenn í kristnum fræðum og búa þá undir skírn og samdi lítið kver fyrir nemendur sína og nefndi það De catechizandis rudibus, „undirstöðufræði lærdómsins”. Var þetta fyrsti katekismi – eða kristið lærdómskver sem sögur fara af. Ágústínus samdi síðar annað kennslurit, miklu meira, sem hann nefndi De doctrina Christiana, „um kristinn lærdóm”, þar sem m.a. er að finna leiðbeiningar í mælskufræði, retorik, og skýringar á ritningunni. Bæði þessi rit hans urðu síðar hluti af kennsluefni prestaskóla og lærðra skóla í Evrópu um margar aldir. Ágústínus kirkjufaðir andaðist árið 430 í umsátri Vandala um borgina Hippo sem þeir síðan hertóku og lögðu undir sig. Vandalar héldu herför sinni áfram austur til Karþagó og síðan til Rómaborgar árið 455 þar sem þeir rændu og rupluðu, og er orðið vandalismi þaðan runnið.

Breytingar á miðöldum

Rómaveldi liðaðist sundur árið 395, einkum sakir flokkadrátta innan Vestrómverska ríkisins og deilna um auð og völd, sem leiddu til innanríkisátaka. Af þessum sökum veiktist rómverski herinn og keisarar urðu háðir germönskum hershöfðingjum, málaliðum, sem sáu um varnir ríkisins. Þegar ofan á þetta bættist spilling innan ríkisins, urðu keisarar Rómaveldis valdalitlir gagnvart hernum og hershöfðingjum og þá gat þetta naumast farið nema á einn veg. Árið 476 rak germanski hershöfðinginn Ódóvakar [433-493] síðasta keisara Vestrómverska ríkisins, Rómúlus Ágústúlus, frá völdum og gerðist sjálfur konungur. Með því er talið að Vestrómverska ríkið hafi liðið undir lok og jafnframt talið að sá atburður marki endalok fornaldar og upphaf miðalda. Ódóvakar féll árið 493 fyrir hendi Þjóðreks, konungs Austgota, sem frægur er úr sögum, en þeir Ódóvakar höfðu gert með sér hernaðarbandalag sem endaði með þessum ósköpum, eins og flest önnur hernaðarbandalög.

Eins og áður er að vikið, hélt kaþólska kirkjan klassískri menningu fornaldar í þessu umróti. Mörgum kann að þykja þetta undarlegt. Svo er ekki ef betur er að gáð. Í fyrsta lagi renna ólíkir menningarstraumar gjarna saman á umbrotatímum og úr verður nýr menningarheimur. Þannig var það einnig í lok fornaldar. Það sem kirkjan taldi gott og nytsamlegt frá heiðinni fornöld, fékk að lifa áfram í menningu og boðun hinnar alþjóðlegu, kaþólsku kirkju sem var eina kirkja í heiminum allt til loka miðalda. Auk þess taldi kirkjan heppilegt að til væri sameiginlegur menningararfur, arfleifð sem margar þjóðir gætu sameinast um undir veldi kirkjunnar. Til þess að efla kristna trú og kristinn boðskap og til þess að efla vald sitt stofnaði kirkjan hvern skólann af öðrum á grunni fyrri skóla í rómverska ríkinu. Að lokum varð skólakerfi kirkjunnar bæði margþætt og öflugt og náði að lokum til allra landa Evrópu – og síðar til flestra landa heims og til allra skólastiga: barnaskóla, framhaldsskóla og háskóla. Hefur annað eins skólakerfi aldrei fyrirfundist. Verður nú lítillega vikið að þessum skólum kaþólsku kirkjunnar og fyrst vikið að klausturskólum.

Klaustur og klausturskólar

Benedikt af Núrsía [um 480 - 547] stofnaði árið 529 fyrsta kristna klaustrið á fjallinu Monte Cassino, skammt fyrir sunnan Rómaborgar. Í reglu hans, Benediktsreglunni, var lagður grunnur að fyrirmælum um íhugun og annan klausturlifnað, en munkar af reglu Benedikts af Núrsía hafa alla tíð verið mildari og umburðarlyndari í trúarafstöðu sinni en munkar annarra klausturreglna. Munkar af Benediktsreglu sinntu í upphafi lítið kennslu og lærdómsiðkan, þótt reglan yrði að lokum vagga menntunar og bóklegra fræða í Evrópu, þ.á.m. á Íslandi. Sá sem mestan þátt átti í því að gera reglu Benedikts af Núrsía að vöggu menntunar og bóklegra fræða, var rómverski embættismaðurinn Flavius Cassiodorus [um 490-um 583]. Árið 540 stofnaði hann klaustur af Benediktsreglu á ættaróðali sínu í Vivarium syðst á Ítalíu, skammt vestur af Brindisi, þar sem hann lifði síðan til dauðadags. Hann fyrirskipaði munkum að stunda bóklega iðju og líkamlega vinnu auk kristilegra íhugana. Varð kjörorð Benediktsreglunnar Ora et labora – „bið þú og vinn”. Cassiodorus var sonur héraðsstjóra Rómverja á Suður-Ítalíu, en var um árabil æðsti embættismaður í ríki Vestgota á Suður-Frakklandi. Þjónaði hann þar fleiri en einum konungi Gota, þar á meðal Þjóðreki hinum mikla [455-526], og var um hríð kanslari hans eða forsætisráðherra. Vestgotar höfðu hins vegar snemma tekið kristna trú og hafði Wulfila [311-382], biskup þeirra, þýtt Biblíuna á gotnesku á ofanverðri fjórðu öld. Sýnir þetta með öðru að alþjóðahyggja er ekki nýtt fyrirbæri, eins og margir virðast halda á okkar dögum.

Cassiodorus skrifaði mörg rit. Fyrsta rit hans hét Variarum - „samtíningur” – og fjallar um afskipti hans af stjórnmálum. Þá ritaði hann sögu Gota til ársins 519. Þetta rit er aðeins varðveitt sem hluti af sagnfræðiritinu De origine actibusque Getarum – „um uppruna og afrek Gota” eftir Gotann Jordanes sem fært var í letur árið 551. Auk þessa skrifaði Cassiodorus ritið Institutiones divinarum et sæcularium litterarum – „stofnanir kirkjunnar og veraldlegar bókmenntir”, en ritið er eins konar inngangsfræði í guðfræði og veraldlegum vísindum einkum ætlað munkum. Er Cassiodorus var um nírætt skrifaði hann ritið De Orthographia – „um réttritun”, sem er eins og nafnið bendir til réttritunarbók fyrir latínu, sem var samskiptamál í Evrópu í þúsund ár og hafði svipaða stöðu og ensk tunga nú. Með ritum sínum lagði Cassiodorus grunn að bóklegri mennt Benediktsmunka og gætti áhrifa rita hans lengi.

Áhrif kirkju og kristni bárust smám saman norður álfu með kaupmönnum og hermönnum og þó einkum fyrir tilstilli trúboða og farandbiskupa kirkjunnar, eins og íslenskar heimildir herma. Kunnasti trúboðsbiskup þessa tíma er Bonifatius [672-754], sem nefndur hefur verið postuli Þýskalands. Bonifatius stofnaði klaustur af Benediktsreglu víða um Þýskaland og lagði áherslu á bóklega menntun og andlega menningu. Gætti áhrifa þýsku klaustranna mjög á Norðurlöndum, enda voru Norðurlönd lengi undir sterkum áhrifum frá Þýskalandi.

Skipan klaustra og klausturskóla

Eftir að klaustrum tók að fjölga og kirkjuskipanin að festast í sessi varð alltítt að ungum piltum var komið í umsjá klaustra af Benediktsreglu til þess að undirbúa þá undir að gangast reglunni á hönd. Fyrir þessa pilta ráku klaustrin skóla sem kallaðir voru schola claustri, klausturskólar, eða schola interiores, skólar fyrir þá sem eru innan múranna. Fyrir önnur börn, sem ástæða þótti til að setja til mennta, enda þótt þau ætluðu sér ekki að ganga í þjónustu klaustra eða kirkjunnar, voru reknir skólar sem nefndust schola canonicae, kirkjuskólar, eða schola exteriores, skólar fyrir þá sem eru utan klausturmúranna. Báðar þessar skólagerðir voru hvort tveggja í senn: kennslustofnanir og uppeldisstofnanir, á latínu convictus, þ.e.a.s. áttu ekki aðeins að kenna bóklegar greinar heldur einnig að innræta nemendum guðsótta og góða siði. Klausturskólar Benediktsreglunnar voru undir stjórn skólameistara, sem nefndur var á latínu magister principalis. Allmiklar heimildir eru um klausturskóla miðalda. Af þeim má ráða að í skólunum voru eins og áður lesin verk klassískra höfunda Grikkja og Rómverja, bæði ljóðskálda, heimspekinga, ræðulistarmanna og sagnfræðinga. Auk þess afrituðu Benediktsmunkar gömul handrit og urðu þeir þannig til þess að varðveita klassísk verk fornaldar og eru dæmin frá Íslandi ein sönnun þess.

Margir af mestu lærdómsmönnum miðalda tengdust Benediktsreglunni. Einna fremstur þeirra var Beda prestur hinn enski [673-735], sem nefndur var venerabilis – „hinn æruverðugi”. Beda skrifaði um guðfræði, sagnfræði og náttúruvísindi svo og mikið rit um enska kirkjusögu: Historia ecclesiastica gentis anglorum, þar sem hann fjallar bæði um veraldleg og kirkjuleg mál. Vert er að nefna að í upphafi Landnámabókar er minnst á aldarfarsbók Beda prests hins heilaga. Annar lærdómsmaður af reglu Benediktsmunka var engilsaxneski presturinn Alcuin [um 730-804] sem fæddur var í York, Jórvík, á Norðimbralandi. Alcuin dvaldist við hirð Karls mikla Frankakeisara í Aachen, Aix-la-Chapelle, frá 782-796, þar sem hann veitti forstöðu hirðskóla Frankakeisara sem sniðinn var eftir klausturskólum Benediktsreglunnar. Frá 796 og til dauðadags var Alcuin ábóti í klaustrinu í Tours í Frakklandi. Alcuin ritaði um guðfræði, málfræði og málskrúðsfræði og átti í bréfaskiptum við lærða menn um alla álfu. Er hann ásamt sagnfræðingnum Einhard [770-840] og sagnfræðingnum Paulus Diaconus [d um 799] talinn frumkvöðull að endurreisn þeirri sem kennd er við Karl mikla og hafði mikil áhrif víða um álfu og byggðist m.a. á bókmenntum og fræðum fornaldar.

Dómskólar og stiftsskólar

Stofnun klausturskóla Benediktsreglunnar var hins vegar ekki eina nýmælið í kennslu- og skólamálum miðalda. Þegar starfsmönnum kaþólsku kirkjunnar fjölgaði var álitið nauðsynlegt að bæta menntun þeirra. Upphaf dómskólanna er rakið til tilskipunar, á latínu kanon, sem Chrodegang [715-766], biskup í Metz gaf út árið 760. Tilskipunin mælti fyrir um að prestar í biskupsdæmi hans skyldu koma reglulega saman til þess að lesa, ræða og skýra texta Biblíunnar. Voru mynduð klerkaráð, canonicus, við allar dómkirkjur. Stofnuðu þessi klerkaráð síðan lærdómssetur eða skóla við flestar dómkirkjur í Evrópu. Dómkirkjurnar voru miðstöðvar og stjórnarsetur biskupsdæmanna, stiftisins. Dómskólar, á ensku cathedral schools, dönsku katedraskoler voru einnig nefndir stiftsskólar, á latínu schola capituli, dönsku stiftsskoler. Þessir skólar voru reknir af klerkum við dómkirkjurnar og höfðu að markmiði að mennta presta til starfa við kirkjurnar, voru eins konar starfsmenntaskólar eða verkmenntaskólar kirkjunnar. Þegar lengra leið voru þessir skólar nefndir prestaskólar.

Á þriðja kirkjuþinginu í Lateran 1179 var samþykkt, að við allar dómkirkjur skyldi ráða skólameistara er kenndi klerkum kirkjunnar án endurgjalds. Ekki er vitað hvernig þessi skipan þróaðist á Norðurlöndum, en talið er sennilegt að eftir að klerkaráð voru stofnuð við dómkirkjur á Norðurlöndum á 13. öld hafi skipanin verið með sama sniði og suður í álfu þar sem háskólamenntaðir guðfræðingar störfuðu við kennslu og fræðistörf. Kennsla bæði í klausturskólum og dómskólum var undir stjórn skólameistara, magister principalis. Námsgreinarnar voru guðfræði og guðfræðilegar kennisetningar, þ.e. ritskýring og kirkjuréttur. Grundvöllur skólaskipunarinnar voru hinar sjö frjálsu listir: septem artes liberales, sem Martianus Capella lagði grunninn að og áður er á minnst. Hinum sjö frjálsu listum var skipt í tvennt: þríveginn, trivum, og fjórveginn, quadrivium. Í þríveginum voru málfræði, grammatica, málskrúðsfræði, rhetorica, og rökfræði, dialectica. Málfræðin, sem hér um ræðir, var að sjálfsögðu málfræði latneskrar tungu og málskrúðsfræði miðuð við latínu. Í fjórveginum voru kennd hljómlist, musica, reikningur, arithmetica, rúmfræði, geometria, og stjörnufræði, astronomia. Þetta er raunar grundvöllurinn að skiptingu menntaskóla á Norðurlöndum í máladeild, þríveginn, og stærðfræðideild, fjórveginn, sem lengi eimdi eftir af.

Upphaf klausturskóla og dómskóla á Norðurlöndum

Heimildir um upphaf klaustur- og dómskóla á Norðurlöndum eru af skornum skammti. Fræðimenn hafa því leitað til enskra og franskra heimilda en þó einkum til þýskra heimilda um sögu þessara skóla, en talið er að klaustur- og dómskólar á Norðurlöndum hafi þróast með svipuðum hætti og skólarnir á Englandi og Frakklandi, en þó einkum eins og skólarnir á Þýskalandi. Elsti dómskóli á Norðurlöndum er dómskólinn í Lundi á Skáni, sem þá var danskt land og lá undir danska kónginum. Skólinn í Lundi var stofnaður 1085 af Knúti II Danakonungi helga [um 1043-1086], sem ríkti á árunum 1080-1086 og var sonur Sveins Ástríðarsonar sem Íslendingar kalla Svein Úlfsson, þess hins sama og Jón helgi Ögmundarson heimsótti barn að aldri með foreldrum sínum til Danmerkur og frá er sagt í sögu Jóns helga. Í Lundi var stofnað erkibiskupssetur 1104 og þar vígðist Jón biskup helgi til biskups árið 1106.

Aðrir dómskólar í Danmörku á miðöldum voru dómskólinn Viborg, stofnaður um 1130, í Ribe 1145 og dómskólinn við Hróarskeldudómkirkju, grafarkirkju Danakonunga, sem stofnaður var árið 1158. Þá var dómskóli stofnaður í Óðinsvéum 1277, en þar var þá ekki klerkaráð heldur Benediktsklaustur og var því frekar um að ræða klausturskóla en dómskóla. Í Árósum var síðan stofnaður dómskóli árið 1280. Árið 1246 var stofnaður stiftsskóli við Frúarkirkju í Kaupmannahöfn, sem síðar var kallaður Metropolitanskolen, en við skólann stundaði Hallgrímur Pétursson nám á 17. öld. Talið er að dómskólinn í Niðarósi sé stofnaður um 1153 fyrir tilstilli sendimanns páfa, enska prestsins Nicolaus Brekespear sem síðar varð páfi og nefndist Hadrianus IV. Dómskólans í Niðarósi er fyrst getið árið 1217 þegar Hákon Hákonarson [1204-1253], síðar konungur Noregs og Íslands og nefndur Hákon hinn gamli, stundaði þar nám, en erkibiskupssetur hafði verið sett í Niðarósi árið 1153, og kann skólinn þar því að vera eldri en frá 1217. Dómskóli er nefndur við dómkirkjuna í Ósló árið 1225 og í Bergen er fyrst getið dómskóla árið 1320. Síðan koma dómskólar í Stafangri og á Hamri um 1200 eða í upphafi 13. aldar. Í Svíþjóð voru fyrstu dómskólarnir stofnaðir í Skara og Strängnäs í upphafi 13. aldar, Linkjöping um 1260, Västerås 1311 og í Växjö í upphafi 14. aldar. Í sænskumælandi héruðum Finnlands er getið um dómskóla árið 1326, þegar maður að nafni Matthías Ketilmundsson ánafnaði fátækum skólasveinum styrk. Það er því eftirtektarvert að skólarnir á Hólum og í Skálholti eru með elstu dómskólum á Norðurlöndum og sýnir það með öðru að Ísland var á þessum tímum ekki einangrað land og stóð jafnfætis öðrum Norðurlöndum hvað menntun snerti, þótt það breyttist er fram liðu stundir.

Kristin áhrif á Íslandi á landnámsöld

Saga trúboðs Ólafs konungs Tryggvasonar á Íslandi verður ekki rakin hér. Hins vegar skal tekið fram að kristin áhrif og kristnar hugmyndir bárust til Íslands með landnámsmönnum sem margir voru kristnir, auk þess sem hugsanlegt er að áhrif frá Pöpum hafi verið meiri á 9. og 10. öld en íslenskir sagnaritarar hafa viljað vera láta. Svo mikið er víst að Papar létu eftir sig bækur írskar, bjöllur og bagla og enn fleiri hluti, eins og Ari fróði segir í Íslendingabók, og Örlygur gamli Hrappsson, landnámsmaður á Esjubergi, hafði út með sér plenarium, járnklukku og gullpening og mold vígða og reisti kirkju að Esjubergi, að því er segir í Landnámabók. Fleiri landnámsmenn en Örlygur gamli voru kristnir og bókarmennt og kristin áhrif hafa því án efa verið meiri á Íslandi á landnámsöld en áður var álitið.

Hér verður að geta þess, sem er sérstakt hugðarefni höfundar þessara orða, að ótvíræð kristin áhrif – eða biblíuáhrif koma fram í Hávamálum og Völuspá, sem lengi voru talin alheiðin, eins og kallað var. Ekki er hins vegar óeðlilegt að kristin áhrif séu að finna í þessum kvæðum af því að kristni hafði verið ríkistrú í Rómaveldi meira en fimm aldir þegar kvæðin voru saman sett. En þessi kristnu trúarminni í Hávamálum og Völuspá sýna, að kristnar hugmyndir hafa borist norður álfu fyrr en áður var talið og hefur slíkt án efa flýtt fyrir kristnitöku og stofnun skóla og klaustra, en þessum áhrifum verða ekki gerð skil hér og nú.

Vitað er að trúboðsbiskupar héldu uppi kennslu á Íslandi. Fyrstur erlendra trúboðsbiskupa hér var Bjarnharður hinn bókvísi Vilráðsson sem var á Íslandi um 1020. Síðan er nefndur Kolur biskup sem var með Halli Þórarinssyni í Haukadal. Þá kenndi Ísleifur biskup í Skálholti [d 1080] klerkleg fræði, en hann gekk í klausturskóla við nunnuklaustrið í Herfurðu, Herford, í Nordrheim-Westfalen, og Teitur, sonur hans, rak skóla í Haukadal, og í Odda hélt Sæmundur fróði skóla, eins og kunnugt er. Kennsla í öllum þessum skólum hefur án efa verið sniðin eftir þeim fyrirmyndum sem lýst var hér að framan. Með auknum kristnum áhrifum á Íslandi – og sérstaklega eftir kristnitökuna – breyttust viðhorf Íslendinga smám saman. Ein breytingin sem fylgdi kristni og stofnun kirkju á Íslandi var að sjálfsögðu sú, að Íslendingar gátu ferðast tálmunarlaus um lönd Evrópu, en áður höfðu norrænir menn, víkingarnir, verið taldir hættulegir óvinir.

Sögur eru af Íslendingum sem fóru í skóla í Þýskalandi, Frakklandi og Englandi – og ef til vill víðar. Eru nöfn sumra þeirra kunn. Margir fóru þegar á 11. öld pílagrímsferðir til helgra staða, einkum Rómar, og virðast þær ferðir hafa hafist snemma. Þá gengu Íslendingar í Væringjalið Miklagarðakeisara, og síðar í krossfaraherinn. Einnig jukust ferðir erlendra manna til Íslands og má nefna ferðir trúboðsbiskupa og annarra prestvígðra manna til landsins, sem áður var á minnst. Skemmtilegt dæmi um aukin tengsl Íslendinga við umheiminn er Leiðarvísan Nikulásar ábóta á Munkaþverá í Eyjafirði [d 1159] sem rituð var fyrir pílagríma á suðurvegum.

Hólaskóli hinn forni

Skóli Jóns Ögmundarson er fyrsti formlegi dómskóli sem stofnaður er á Íslandi. Aðrir skólar á þessum tíma voru skólarnir í Skálholti, Haukadal og Odda, en Skálholtsskóli virðist síðan hafa þróast á sama hátt og skólinn á Hólum. Ljóst er, að Hólaskóli var þegar í upphafi formlegur dómskóli, katedraskóli, og laut lögmálum dómskóla kaþólsku kirkjunnar. Hólaskóli er því með fyrstu dómskólum sem stofnaðir er á Norðurlöndum, eins og áður er á minnst. Í Jóns sögu hins helga segir: „Þá er Jón hafði skamma stund byskup verit, þá lét hann setja skóla heima þar á staðnum vestr frá kirkjudurum ok lét smíða vel og vandliga, ok enn sér merki húsanna”. Í sögunni segir einnig, að Þóroddur Gamlason kirkjusmiður var „svá næmr, þá er hann var í smíðinni, þá heyrði hann til er prestlingum var kennd íþrótt sú er grammatica heitir, en svá loddi honum þat vel í eyrum af miklum næmleik ok athuga at hann gerðisk inn mesti íþróttamaðr í þess konar námi”. Af þessum orðum sögunnar að dæma hefur Jón Ögmundarson stofnað skóla áður en kirkjusmíðin hófst en kirkjuvið hafði hann með sér frá Noregi úr vígsluferð sinni. Það er því réttmætt að ætla að Hólaskóli sé jafnvel stofnaður árið 1106, en fullvíst má telja að prestaekla hafi verið og hafi biskup því viljað hraða stofnun skóla. Lét hann reisa sérstakt skólahús á staðnum „vestur frá kirkjudyrum”, eins og frá er sagt í sögu hans.

Skólameistari á Hólum í upphafi var gauskur maður, Gísli Finnason. Er hann sagður hafa verið vel læður og kenndi grammaticam og voru þar með taldar biblíuskýringar. En franskur maður, er Ricini hét, kenndi sönglist og versagjörð. Er því ljóst að kenndir hafa verið hlutar úr bæði þrívegi og fjórvegi á Hólum. Sennilegt má telja að Jón Ögmundarson hafi flutt báða þessa menn út með sér frá Lundi árið 1106 og ef til vill náð í Ricini á leið sinni til Rómar að fá leyfi páfa til biskupsvígslu. Einn þeirra sem námu í Hólaskóla var Bjarni prestur Borgþórsson [d 1173]. Ætla menn að hann sé hinn sami og Bjarni prestur tölvísi, sem nefndur er í fornum rímtölum og hefur sýnilega samið ritgerð um tímatal og því verið lærður í öðrum greinum hinna sjö frjálsu lista sem áður voru nefndar: reikningi eða tölvísi, arithmeticae, og stjarnfræði, astronomiae. Bjarni prestur tölvísi var samtímamaður Stjörnu-Odda Helgasonar í Múla í Reykjadal, sem gerði svo merkar athuganir um sólargang á landinu að telja verður hann með helstu stjarnfræðingum á sínum tíma á Norðurlöndum. Ósennilegt er talið að Stjörnu-Oddi hafi getað lært fræði sín annars staðar en í Hólaskóla.

Hólaskóli olli byltingu í skólamenntun og menningu á Norðurlandi – og vafalítið víðar á landinu. „Allir hinir sæmilegustu kennimenn í Norðlendingafjórðungi voru nokkura hríð til náms að Hólum, þá sem vor aldur mátti muna, sumir af barndómi, sumir á fulltíða aldri,” eins og segir í Jóns sögu helga. Konur sóttu skólann og er einnar getið sérstaklega: Ingunnar, dóttur Arnórs Ásbjarnarsonar af Ásbirningaætt. Varð hún svo vel að sér í latínu að hún kenndi hana mörgum. Þegar rætt er um níu alda skólahald á Norðurlandi væri ef til vill ástæða til að fjalla sérstaklega um starf það sem unnið var í klaustrum á Íslandi á miðöldum, þar sem auk fræðistarfa fór fram kennsla. Fyrsta klaustrið, sem lífvænlegt reyndist, virðist Jón helgi Ögmundarson hafa stofnað á Þingeyrum árið 1112. Klaustrið á Þingeyrum var af Benediktsreglu og var fyrst undir stjórn príors sem laut valdi biskups, en árið 1133 kom fyrsti ábótinn að klaustrinu en það ár var fyrrum talið stofnár klaustursins. En umfjöllun um klaustur á Íslandi bíða betri tíma.

Menntaskólinn á Akureyri

Menntaskólinn á Akureyri er arftaki Möðruvallaskólans og á rætur að rekja til stólskólans á Hólum í Hjaltadal, sem Jón Ögmundarson, verndardýrlingur Menntaskólans á Akureyri, stofnaði á fyrstu biskupsárum sínum í upphafi 12. aldar. Því segjum við nemendur skólans af lítillæti okkar, að Menntaskólinn á Akureyri sé elsti skóli á Íslandi, sem að venju er slitið í dag – 17. júní.

Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003.

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00

Gaza - Almenningur og stjórnvöld á Íslandi verða að ná samstöðu

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
04. júní 2024 | kl. 16:40

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Ingibjörg Isaksen skrifar
30. maí 2024 | kl. 16:16

Ég kýs Katrínu

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. maí 2024 | kl. 06:00