SÍMEY brautskráði sex af nýrri námsbraut

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar brautskráði í vikunni sex nemendur á námsbrautinni Færni á vinnumarkaði. Þessi námsbraut var í fyrsta skipti í boði í SÍMEY og öðrum tíu símenntunarmiðstöðvum landsins núna á haustönn. Námið hefur það að markmiði að auka náms- og starfstækifæri fólks með fötlun.
Námið var skipulagt í samstarfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, Fjölmenntar og símenntunarmiðstöðvanna í landinu, þar á meðal SÍMEY. Bóklegur hluti námsins var í SÍMEY, samtals 70 klukkustundir, en starfsnámið, 110 klukkustundir, var á vinnustöðum. Nemendurnir sex tóku starfsnám sitt á Akureyri; á leikskólunum Kiðagili, Hulduheimum og Naustatjörn - hjá Fagkaupum (Johan Rönning, Ísleifur og Vatn og veitur), í Ráðhúsi Akureyrar og Hertex.
Jenný Gunnarsdóttir er verkefnastjóri og aðalkennari nemenda á þessari nýju námsbraut í SÍMEY. Hún segir um tilraunaverkefni að ræða og því hafi bæði kennarar og nemendur rennt nokkuð blint í sjóinn um útkomuna. En hún leyfi sér að fullyrða að niðurstaðan hafi verið afar jákvæð og ljóst sé að haldið verði áfram á sömu braut á næsta ári og komandi árum, námsbrautin Færni á vinnumarkaði sé komin til að vera.
Í bóklega hluta námsins er víða komið við, m.a. er horft til almennrar starfshæfni, vinnustaðamenningar, heilsueflingar, sjálfseflingar, geðræktar, samskipta, tímastjórnunar og færslu verkdagbóka.
Á vinnustöðunum fengu þátttakendur leiðsögn starfsmanna og vill Jenný verkefnastjóri koma á framfæri kærum þökkum til þeirra fyrir þátttöku í verkefninu, því án samstarfs við atvinnulífið væri verkefni af þessum toga ekki mögulegt.


Án öflugs atvinnulífs megum við okkur lítils

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn?

Höfuðborgin Reykjavík og aðgengi landsbyggðarbúa

Sjá, þannig skal vandað til þess, sem á lengi að standa
