Fara í efni
Umræðan

Rannveig í 25. skipti í Akureyrarhlaupinu

Rannveig Oddsdóttir kemur í mark, langfyrst kvenna, þegar fyrst var keppt í 55 km hlaupi í Súlur Vertical fjallahlaupinu á Akureyri árið 2021. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Ungmennafélag Akureyrar (UFA) heldur Akureyrarhlaup Mizuno og atNorth í dag, fimmtudaginn 3. júlí, í 33. skiptið. Fyrsta Akureyrarhlaupið var haldið árið 1992, en Rannveig Oddsdóttir, hlaupari og formaður UFA Eyrarskokks, segir að hugsanlega sé það þriðja elsta götuhlaup landsins. „Víðavangshlaup ÍR er elst og þvínæst Reykjavíkurmaraþonið. Frá upphafi höfum við boðið upp á hálfmaraþon og 10 km hlaup, og frá og með 2011 höfum við boðið upp á 5 km líka,“ segir Rannveig við blaðamann Akureyri.net.

Hefur bara misst úr tvö hlaup síðan 1999

„Þátttakan hefur verið frekar jöfn í gegnum tíðina, en fjöldi hlaupara hefur verið á bilinu 150-200,“ segir Rannveig, en þáttakan er mjög góð í ár og skráningar eru yfir 200. Hún er sjálf að fara að hlaupa í Akureyrarhlaupi í 25. skipti. „Ég tók fyrst þátt árið 1999 og hef hlaupið öll ár síðan nema 2000 og 2009. Ég hef verið í fyrsta sæti 17 sinnum, þrisvar verið önnur og þá fjórum sinnum neðar en það. Inn í þessu eru reyndar ár eins og 2008 þar sem ég hljóp komin 8 mánuði á leið. Eitt árið hljóp ég líka með dóttur minni.“

Mér finnst eiginlega erfiðara að hlaupa ekki, heldur en að hlaupa!

Markmið Rannveigar í ár er þríþætt, en hún segir að það sé yfirleitt þannig að hún mæti til leiks með markmið A, B og C. „Núna langar mig að ná aldursflokkameti í flokki 50-54 ára, sem er 1.29.36. Það er markmið A,“ segir Rannveig. Hún segist ekki alveg viss hvort það gangi, að hún hlaupi á innan við einum og hálfum klukkutíma, „en B markmiðið er að ná betri tíma en þegar ég keppti fyrst. Það var árið 1999 og ég hljóp á 1.35.36. Ef það klikkar líka, þá er C markmiðið einfaldlega að klára 25. hálfmaraþonið í Akureyrarhlaupi!“ 

Frá Akureyrarhlaupinu á síðasta ári. Mynd: Ármann Hinrik

Akureyrarhlaupið er fyrir alla

Rannveig segir að það sé markmiðið hjá UFA að fá almenning til þess að taka þátt, en oft eru flestir þátttakendur hlauparar. „Við viljum endilega fá sem flest til þess að taka þátt, þó að flest séu á hlaupum, þá viljum við alveg að fólk komi og gangi í 5 km hlaupinu ef það hentar betur. Það getur líka verið einhver blanda af hlaupi og göngu og það fer þetta hver á sínum hraða.“

Stöðugleiki og félagsskapur skipta mestu

„Það sem skiptir mestu máli, til þess að halda sér í góðu formi fram eftir aldri, er að hafa stöðugleika í hreyfingunni,“ segir Rannveig að lokum, aðspurð um góð ráð. „Hjá mér er þetta náttúrulega orðið þannig að hreyfing er orðin stór partur af daglegri rútínu. Mér finnst eiginlega erfiðara að hlaupa ekki, heldur en að hlaupa! En það er mikilvægt að halda dampi og muna að það þarf ekki alltaf að hlaupa mikið og hlaupa langt. Það er hægt að gera ýmislegt annað. Ef ég get ekki hlaupið þá hjóla ég, syndi, geng eða eitthvað annað. Hitt sem mér finnst mikilvægast, er að hreyfa sig í góðum hópi. Ég er búin að hlaupa í 28 ár og ég hef kynnst svo mörgum. Ég mæli með að finna sér hlaupahóp eða búa sér til hóp sjálf/ur. Félagsskapurinn í kring um hlaupin er svo skemmtilegur.“

Meiri upplýsingar um Akureyrarhlaupið má finna hérna. Enn er hægt að skrá sig til leiks, en þá þarf að mæta í World Class við Strandgötu á milli klukkan 16 og 18. Keppni í hálfmaraþoni hefst kl. 19:00 hjá þeim sem gera ráð fyrir að vera lengur en 1:50:00 að hlaupa vegalengdina en hraðari hlauparar fara af stað kl. 19:30. Keppni í 5 km og 10 km hefst kl. 20:05.

UFA stendur fyrir Akureyrarhlaupi í samstarfi við Mizuno og atNorth.

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 14:00

Verulegt rými til framfara

Árni Guðmundsson skrifar
02. júlí 2025 | kl. 11:00

Látið hjarta Akureyrar í friði

Guðjón Heiðar Pálsson skrifar
01. júlí 2025 | kl. 06:00

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Eyjólfur Ármannsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 09:45

Hver borgar brúsann?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. júní 2025 | kl. 12:00

Börn eiga skilið að alast upp í friði – þrátt fyrir breyttar aðstæður

Halldóra K. Hauksdóttir skrifar
25. júní 2025 | kl. 16:30