Fara í efni
Umræðan

Góður fyrri hálfleikur slapp til gegn HK

Magnús Dagur Jónatansson var meira áberandi í sókninni hjá KA í gær en áður í vetur. Hann gerði sjö mörk gegn HK. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA tók á móti HK í 15. umferð Olísdeildar karla í handbolta í gær og vann að lokum þriggja marka sigur, 30:27, eftir afskaplega kaflaskiptan leik. Eftir frábæran fyrri hálfleik var KA níu mörkum yfir í leikhléi og fátt benti til að seinni hálfleikur yrði spennandi. Annað kom þó á daginn.

KA-liðið var ólíkt sjálfu sér gegn Aftureldingu á dögunum en framan af leiknum í gær gekk allt eins og það átti að gera. KA náði strax forystunni og virtist endanlega búið að hrista gestina af sér þegar staðan breyttist úr 10:7 í 18:9 síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks. Þannig var staðan í hléi og í upphafi seinni hálfleiks jókst forskotið enn meira – eftir 7 mínútna leik var KA komið með 11 marka forystu, 23:12.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson hrökk aftur í gang og gerði sjö mörk gegn HK.

Þá loksins hrökk HK-liðið í gang og á næstu átta mínútum skoraði HK 7 mörk, án þess að KA næði að svara. Seinni hálfleikur hálfnaður, munurinn kominn niður í 4 mörk og það var farið að fara um áhangendur KA. Var martröðin gegn Aftureldingu að endurtaka sig? KA náði þó að stoppa í götin um sinn en HK-liðið var komið á bragðið og þjarmaði vel að heimaliðinu. Þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks minnkuðu gestirnir muninn í 2 mörk, 27:25, en KA náði að halda haus á lokamínútunum og sigla heim 30:27 sigri. 

Bikarleikur gegn Fram á föstudaginn

Þetta var sannarlega leikur tveggja ólíkra hálfleikja og eftir frábæra frammistöðu KA sem skilaði 11 marka forskoti var ótrúlegt að HK næði næstum því að taka eitt eða tvö stig úr leiknum – sem hefði alveg getað gerst með smávegis heppni. Gestirnir voru mun sprækari í seinni hálfleik og KA-menn áttu í miklum vandræðum með 5-1 vörn þeirra. 

Hinn ötuli liðsstjóri KA, Haraldur Bolli Heimisson, hugsar vel um sína menn; mætir t.d. jafnan með handklæðið og þurrkar af þeim svitann í leikhléum.

Sigurinn heldur KA áfram í 5. sæti deildarinnar, núna þegar hlé verður gert á deildarkeppninni. KA á einn leik eftir á árinu en á föstudagskvöldið tekur liðið á móti Íslands- og bikarmeisturum Framara í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Mörk KA: Magnús Dagur Jónatansson 7, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 7 (2 víti), Giorgi Dikhaminjia 6, Morten Linder 3, Einar Birgir Stefánsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Logi Gautason 2.

Varin skot: Bruno Bernat 12 (1 víti).

Mörk HK: Haukur Ingi Hauksson 6, Andri Þór Helgason 6 (1 víti), Ágúst Guðmundsson 5/2, Sigurður Jefferson Guarino 5, Tómas Sigurðarson 2, Leó Snær Pétursson 1, Hjörtur Ingi Halldórsson 1, Styrmir Hugi Sigurðarson 1.

Varin skot: Róbert Örn Karlsson 5 (1 víti), Brynjar Vignir Sigurjónsson 2.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz

Staðan í deildinni

KA-maðurinn Bruno Bernat varði 12 skot í gærkvöldi.

Treystir Viðreisn þjóðinni í raun?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. desember 2025 | kl. 10:00

Hvað þarf að gerast til að stórauka framboð íbúða og lækka verðið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. desember 2025 | kl. 11:30

Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi

Benedikt Sigurðarson skrifar
12. desember 2025 | kl. 08:00

Innflytjendur, samningar og staðreyndir

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 06:00

Húsnæðisbóla

Benedikt Sigurðarson skrifar
11. desember 2025 | kl. 10:00

Eftir Hrun

Benedikt Sigurðarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 13:00