Fara í efni
Umræðan

Fyrsta haustlægðin

Fyrsta haustlægðin reið óvenju snemma yfir Norðurland í ár, þegar mennta- og barnamálaráðherra tilkynnti áform um að sameina Verkmenntaskóla Akureyrar og Menntaskólann á Akureyri. Hugmyndin kom samfélaginu í opna skjöldu, enda einkenndist framgangur ráðherra af flumbrugangi, þar sem hvorki var haft samráð við kennara né nemendur.

Umboðsmaður barna hefur raunar brugðist við þessu og sent ráðherra bréf. Þar kemur fram „að mat á því sem er börnum fyrir bestu eigi ávallt að liggja til grundvallar ákvarðanatöku af hálfu hins opinbera og að slíkt mat eigi að framkvæma áður en ráðist er í aðgerðir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Jafnframt kemur fram að hluti af slíku mati sé að veita börnum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að réttmætt tillit sé tekið til skoðana þeirra.“ Það er ámælisvert ef barnamálaráðherra landsins virðir ekki rétt og raddir barna.

Um er að ræða tvo mjög öfluga en ólíka skóla, með ólíkan skólabrag. Annars vegar einn elsta menntaskóla landsins; hefðbundinn bóknámsskóla með bekkjarkerfi, þar sem nemendur eru allir á svipuðum aldri. Hins vegar verkmenntaskóla, sem býður uppá mikinn sveigjanleika fyrir nemendur á ólíkum aldri. Sem foreldri hef ég mjög góða reynslu af báðum skólunum, sem báðir svöruðu ólíkum þörfum barnanna minna mjög vel.

Ráðherra reyndi lengi vel að klæða þessi áform sín í faglegan búning og tíundaði hversu mikið framfaraspor þau væru fyrir skólasamfélagið á Akureyri. Fljótlega viðurkenndi ráðherra þó að hvatinn væri fyrst og fremst sparnaður, enda hafi honum ekki tekist að sannfæra fjármálaráðherra um að leggja til það fjármagn sem skólarnir þurfa til að sinna skyldum sínum og sækja enn frekar fram. Í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi, tók hann svo af öll tvímæli um að svo væri. Í nýlegri grein Karls Frímannssonar skólameistara MA kemur fram að reynsla annarra þjóða af sameiningu menntastofnana sýni að þegar markmiðið með þeim er að spara hafi sameiningar mistekist í yfir 90% tilvika.

Nái hugmyndir ráðherra fram að ganga er hætt við að kennurum fækki, bekkir stækki, sálfræðiþjónusta og valkostir nemenda skerðist og ólík menning skólanna glatist. Um langt skeið hafa börn á öllu Norðurlandi og víðar á landsbyggðinni getað valið um tvo spennandi framhaldsskóla á Akureyri eftir 10 ár í grunnskóla. Það myndi þá heyra sögunni til.

Og það er alls ekki léttvægt mál. Ísland er mjög þéttbýlt ef horft er til þess háa hlutfalls íbúa sem býr á mjög afmörkuðu svæði á suðvestur horninu. Hlutfall sem er alveg á skjön við önnur Evrópuríki. Þó það megi að einhverju leyti rekja til skiljanlegra ákvarðana sem voru teknar þegar Ísland var að brjótast til sjálfstæðis, fyrir rúmum 100 árum, hafa fyrir löngu kviknað mörg viðvörunarljós og mikilvægt að stemma stigum við frekari byggðaröskun. Sem dæmi bjuggu um 7% landsmanna í Reykjavík árið 1900 og 11% á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2020 bjuggu hins vegar um 36% í Reykjavík en 65% á höfuðborgarsvæðinu Fyrir nokkrum áratugum var Akureyri annar stærsti bær landsins en er nú sá fimmti stærsti. Það er því ábyrgðarhluti að veikja meðvitað öflugasta byggðakjarnann utan höfuðborgarsvæðisins.

Þvert á móti er skynsamlegt að styrkja búsetuskilyrði um allt land. Liður í því er að tryggja fjölbreytt atvinnutækifæri, góðar samgöngur og fyrsta flokk heilbrigðis og velferðarþjónustu. En ekki síst gott og fjölbreytt námsframboð. Það yrði mikið bakslag fyrir lífsskilyrði á landsbygginni ef litróf menntunar á Norðurlandi yrði fátæklegra. Og óskiljanlegt, í ljósi íbúaþróunar síðustu 120 árin, að hefja sameiningar framhaldsskóla á Akureyri.

En þótt byggðarrökin vegi hér þungt snýst málið að sjálfsögðu ekki síst um börnin okkar, skólana tvo og hverjar afleiðingarnar verða muni þeir sameinast.

Það skýtur skökku við að ráðherra sem kveðst hafa farsæld barna í öndvegi skuli birtast með hugmyndir sem ganga þvert gegn henni. Góð hugmynd væri að hann gæfi nú framhaldsskólunum smá frið til að vinna í næði, eftir að hafa á nokkrum undanförnum árum þurft að glíma við styttingu í þrjú ár og áskoranir samfara Covid strax í kjölfarið.

En eitt er víst að nú reynir á það hvort Framsóknarflokkurinn er búinn að gefast upp á verkefninu og fylgi fjármálastefnu Sjálfstæðisflokksins eins og viljalaust verkfæri eða standi með ungu fólki í landinu.

Logi Einarsson er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Samfylkinguna

Það er þörf fyrir aukna skaðaminnkun á Akureyri

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
15. október 2024 | kl. 11:30

Varði ekki viðsnúninginn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. október 2024 | kl. 11:00

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50