Fara í efni
Umræðan

Ferðalag tuskunnar í bæjarstjórnarkosningarævintýri

Saga tuskunnar byrjaði í Hollandi og átti síðan viðkomu í gilinu í „Garn í gangi“ búðinni þar til dag einn Júlía nokkur sá garnið, féll fyrir því, fjárfesti í því og fitjaði upp á því. Það sem garnið gat ómögulega vitað þá var að Júlía er þónokkur klaufi svo tilraunir til að búa til fullmótaða og frágengna tusku tókst illa og dróst á langinn – tuskan fékk því að vera áfram í eftirdragi og átti viðkomu á fjölmörgum stöðum. Varnaðarorð mömmu um að „það væri kannski betra að byrja á einhverju einfaldara en stjörnuhekli“ voru lögð til hliðar í þetta sinn sem mögulega var ekki svo gáfuleg hugmynd en engu að síður skilaði sér að lokum.

Tuskan fór í framboðsheimsóknir á stórar stofnanir, lítil félög og vinnustaði – staði á borð við SAk, Frú Ragnheiði, Skammtímaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni, Safnasafnið, hugbúnaðarhús, skóla og fleiri staði. Tuskan kom með í útkall hjá Frú Ragnheiði og á vakt með börnum með sérstakar stuðningsþarfir. Tuskan fór á fundi með forsætisráðherranum, Mumma félags- og vinnumarkaðsráðherra, ýmsum frambjóðendum, iðnaðarmönnum, kennurum, ræstitæknum, frumkvöðlum, félagi eldri borgara, tónlistarkennurum, hjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum, háskólanemum, menntaskólanemum, tónlistarfólki, foreldrum, börnum, unglingum, eldra fólki og svo fjölmörgum öðrum. Öll koma þau frá mismunandi stöðum og hafa verið misheppin í gegnum tíðina sem hefur haft áhrif á allt þeirra líf.

Tuskan fékk því að sjá, heyra, kynnast og upplifa hve stórt og magnað bæjarfélagið sem við búum í er og hve flóran er fjölbreytt. Sömuleiðis hve mikilvæg þjónusta fer fram hér í bæ sem fyrir nokkrum árum var á framúrskarandi hátt sjálfbær! Tuskan fékk að heyra reynslusögur fyrirtækjaeiganda, talsmanna ýmsa minnihlutahópa, tuskan heyrði í fulltrúum á öllum aldri og fékk að vita hvað brennur á fólki á mismunandi æviskeiðum.

Tuskan gekk ekki áfallalaust í gegnum þessa vegferð – síður en svo – hún lenti í hrakföllum með drífandi og orkumiklum fimm ára gutta í bílaleik sem endaði í flækju og svo aftur þegar talningin klikkaði og rekja þurfti upp. Flækjurnar voru þó mjög virkniskapandi þar sem öll fjölskyldan var komin í að leysa garnaflækjuna miklu! Þar með talið langafinn í fjölskyldunni.

Ferðalag tuskunnar má líkja við ferðalag og æviskeið bæjarfélags – það koma upp allskonar flækjur, allskonar vandamál sem þörf er á að leysa og þá er ekki verra þegar öll leggja hönd á plóg við að leysa úr vandanum og finna lausnir. Saman getum við byggt upp enn betra samfélag þar sem raddir ólíkra hópa hvaðanæva úr samfélaginu fá að heyrast.

Augljóst var í framboðsbröltinu að velferðarmálin eru í miklum brennidepli núna sem tuskan gleðst yfir – víða er pottur brotinn og mikilvægt að hlúa að veikustu hlekkjunum í keðjunni – tryggja viðeigandi þjónustu fyrir öll og bæta okkur sem bæjarfélag þar sem þörf er á.

Stóra spurningin er því núna – hvort tuskan verði klár á undan kosningunum eða kosningar ráðast fyrir lokaútkomuna á tuskunni? Hvort heldur sem er endar það allt saman vel eins og í öllum ævintýrum.

Herdís Júlía Júlíusdóttir situr í 8. sæti á listi VG fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri á morgun.

Þarf forseti Íslands að vera góð manneskja?

Kjartan Ólafsson skrifar
24. maí 2024 | kl. 16:45

Um orkuöryggi og orkuskipti

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
23. maí 2024 | kl. 10:51

Jákvæð sálfræði

Þóra Hjörleifsdóttir skrifar
23. maí 2024 | kl. 10:00

Vanlíðan barna er stöðugt að aukast

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar
22. maí 2024 | kl. 20:30

Sammála um að taka á neikvæðum áhrifum snjallsíma

Heimir Örn Árnason og Gunnar Már Gunnarsson skrifa
22. maí 2024 | kl. 20:00

Sókn Landsnets gegn hagsmunum Akureyringa

Ólafur Kjartansson skrifar
17. maí 2024 | kl. 12:00