Arna Sif Ásgrímsdóttir komin heim í Þór/KA
Knattspyrnukonan Arna Sif Ásgrímsdóttir er komin til Þórs/KA á ný eftir fjögurra ára dvöl hjá Val í Reykjavík. Samningur hennar við Þór/KA gildir til tveggja ára. Greint er frá félagaskiptunum á vef Þórs/KA.
Arna Sif er 33 ára, fædd 1992. Hún hóf glæsilegan knattspyrnuferil í yngri flokkum Þórs og kom kornung inn í meistaraflokk Þórs/KA; kom í fyrsta skipti við sögu í meistaraflokksleik 14 ára, í maí árið 2007. „Samtals á hún að baki 12 keppnistímabil með Þór/KA, 2007-2014 og 2018-2021. Hún verður því reyndasti leikmaður félagsins á komandi keppnistímabili,“ segir á vef Þórs/KA í dag.

Síðasta mark Örnu Sifjar fyrir Þór/KA var eftirminnilegt; hún jafnaði 2:2 gegn Breiðabliki á Þórsvellinum á lokasekúndu uppbótartímans; með næst síðustu spyrnu leiksins því flautað var eftir að Breiðablik hóf leik á ná miðju. Jakobína Hjörvarsdóttir tók hornspyrnu frá hægri, eftir klafs rétt utan markteigsins hrökk boltinn í átt að marki og Arna Sif var eldfljót að átta sig og skoraði af harðfylgi. Varnarmaðurinn sterki sýndi gamla takta frá því hún var öflugur framherji á sínum yngri árum! Mynd: Skapti Hallgrímsson
Arna Sif var fyrirliði og lykilleikmaður í liði Þórs/KA sem varð Íslandsmeistari 2012. Hún var kjörin íþróttakona Akureyrar 2012 og hefur sem leikmaður Þórs/KA verið kjörin íþróttakona Þórs alls fimm sinnum, árin 2012, 2014, 2018, 2019 og 2021. Hún hefur einnig leikið í Skotlandi, á Ítalíu og síðustu fjögur tímabil var hún á mála hjá Val sem fyrr segir. Þar varð Arna Sif bikarmeistari 2022 og Íslandsmeistari 2023, en það ár var hún einnig kjörin íþróttamaður Vals.
Á vef Þórs/KA er eftirfarandi tölfræði um Örnu Sif birt:
- 425 meistaraflokksleikir, þar af 401 leikur og 74 mörk í KSÍ-mótum og Evrópukeppni
- Af þessum leikjum eru 290 fyrir Þór/KA
- Arna Sif spilaði 19 leiki í efstu deild Svíþjóðar 2015
- Hún spilaði fimm leiki í efstu deild á Ítalíu 2017
- Leikirnir í efstu deild hér á landi eru orðnir 272, mörkin 47, þar af 197 leikir fyrir Þór/KA
- Arna Sif á að baki 19 landsleiki og eitt landsliðsmark, auk 59 leikja með yngri landsliðum Íslands

- Fréttin á vef Þórs/KA: Arna Sif Ásgrímsdóttir gengur til liðs við Þór/KA
Græni dagurinn
„Sofðu rótt í alla nótt“– Um stöðu íslenskunnar, lestrarmenningu og ákall til okkar sjálfra
Afsakið – Kemst ekki á fundinn
Varaflugvallagjaldið og flugöryggi