Fara í efni
Pistlar

Verkfall dæmt ólöglegt og kennarar mæta á ný

Tómlegt hefur verið um að litast á skólalóð Síðusels undanfarið en þar verða væntanlega fjörug börn að leik í fyrramálið. Mynd: Þorgeir Baldursson

Félagsdómur dæmdi í dag verkföll Kennarasambands Íslands í 13 leikskólum og sjö grunnskólum víða um land ólögmæt. Verkfall var í einum skóla á Akureyri, leikskólanum Hulduheimum, og kennarar þar mæta því til starfa þar eins og annars staðar í fyrramálið, á mánudagsmorgni.

Tveir dómarar við Félagsdóm skiluðu sératkvæði í málinu, sem Samband íslenskra sveitarfélaga höfðaði gegn Kennarasamband Íslands, en meirihlutinn, þrír dómarar af fimm, töldu verkföllin ólögmæt að undanskildu verkfalli í Leikskóla Snæfellsbæjar.

„Í ljósi niðurstöðu Félagsdóms vill Kennarasambandið koma því skýrt á framfæri við félagsfólk sem lagði niður störf vegna verkfalla þann 1. febrúar sl. að það mæti til vinnu í fyrramálið og sinni sínum hefðbundnu störfum,“ segir í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands í kvöld.

Ætluðu að opna deild þeirra yngstu

Áður en úrskurður Félagsdóms var birtur undir kvöld hafði foreldrum yngstu barna á Hulduheimum verið tilkynnt að deildin yrði opnuð frá og með morgundeginum, þrátt fyrir verkfall. Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Hulduheima voru ekki í verkfalli, ekki frekar en ófaglært starfsfólk, og Akureyrarbær ákvað í síðustu viku að sá hópur myndi sinna börnunum frá og með morgundeginum.

Skólinn er á tveimur stöðum og ráðgert var að þar yrði opið til skiptis; öll 20 börn yngstu deildar á Síðuseli við Kjalarsíðu gætu mætt mánudaga, miðvikudaga og föstudaga og hluti barna á Holtakoti við Þverholt á þriðjudögum og fimmtudögum. Dregið hafði verið um hvaða börn mættu koma á Holtakot og var fjöldinn ákveðinn með tilliti til þess hve ófaglærðu starfsmennirnir eru margir, því ekki má flytja þá á milli deilda.

Þessi áform hafa nú verið lögð til hliðar þar sem verkfallið var dæmt ólöglegt og skólastarf verður því aftur með hefðbundnum hætti.

Bergfuran við Aðalstræti 44

Sigurður Arnarson skrifar
20. ágúst 2025 | kl. 23:00

Eyrarland, gamla íbúðarhúsið

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
19. ágúst 2025 | kl. 10:00

Strandir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. ágúst 2025 | kl. 11:30

Í hita leiksins

Jóhann Árelíuz skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 14:00

Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns

Rakel Hinriksdóttir skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 12:00

Gervisáli

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 18:00