Fara í efni
Pistlar

Til hamingju, Freyvangsleikhús allra landsmanna

Freyvangsleikhúsið á sér langan og viðburðarríkan feril. Þar hafa mörg ævintýri og örlagasögur lifnað við í meðförum áhugaleikara, undir stjórn þrautreyndra leikstjóra. Undirrituð hefur átt þess kost að sjá nokkrar af sýningum leikfélagsins og margar lifa með henni sökum fegurðar, metnaðar og margslunginna áhrifa.

Nú hefur Freyvangsleikhúsið sett upp ævintýrið elskaða Kardimommubæinn eftir Thorbjörn Egner í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar en tónlistarstjóri sýningarinnar er Guðlaugur Viktorsson. Kardimommubærinn hefur verið mér hjartfólginn síðan ég var barn í sveit með ekkert sjónvarp á fimmtudögum né í júlímánuði og einvörðungu línulega dagskrá. Þá var ekki amalegt að eiga aðgang að plötuspilaranum í stofunni og henda Kardimommubænum á fóninn en eðli barna er að vilja gjarnan endurtekið efni svo eldri systkini mín máttu þola að heyra ævintýrið leikið aftur og aftur í ógleymanlegri uppfærslu Þjóðleikhússins á ævintýrinu. Í þeirri uppfærslu lék afasystir mín Emilía Jónasdóttir leikkona Soffíu frænku og sennilega hafa fáir verið jafn stoltir af því að eiga skyldleika við Soffíu frænku eins og sú sem þetta ritar. Það kom mér því ekki óvart en gladdi að uppgötva að ég hreinlega mundi heilu samtölin úr leikritinu þegar ég sat á dögunum í Freyvangi og naut sýningarinnar. Ömmustelpan mín var með í för og ég var svo glöð hvað aðstandendur sýningarinnar voru trúir textanum því um þessar mundir er oft vinsælt að draga samtímann inn í sýningar oft í þeim tilgangi að skemmta foreldrum. Hér er hins vegar bara Kardimommubærinn beint af kúnni og er það að mínu mati vel. Nýjar kynslóðir eiga rétt á því að kynnast þessari klassík eins og hún var skrifuð.

Boðskapur sögunnar er í stuttu máli sá að virða fjölbreytileika mannlífsins, að elska reiðina og tilfinningaheftingu úr fólki samanber Soffíu frænku og að fela þeim sem villst hafa af leið en tekið út sína refsingu hlutverk í samfélaginu svo þeir finni til ábyrgðar og skynji sig hafa tilgang, samanber ræningjana þrjá. Þetta eru stórgóð og mikilvæg skilaboð inn í samtímann og svo má við bæta að í sögunni er líka lögð áhersla á dýravernd og virðingu gagnvart allri sköpun.

Uppsetning Freyvangsleikhússins er fögur, sönn, hlý og góð. Það er væntumþykja í leiknum, húmor og gleði. Ræningjarnir þrír eru í einu orði sagt frábærir, harmonera vel saman, alveg á sama tíðnisviði í leiknum sem er mikilvægt. Soffía frænka hefur til að bera mjög Soffíu frænkulega rödd og svipbrigði og Kamilla litla á dásamlega innkomu með undurfögrum söng. Bæjarfógetinn Bastían er góðlegur og sympatískur í sinni persónu sem engan vill styggja og Tommi er yndislegur drengur sem manni þykir strax vænt um. Tobías í turninum opnar sýninguna með virðulegum en kraftmiklum hætti, öldungurinn í bænum sem allir líta upp til og hlýða á.

Fleiri persónur glæða sýninguna töfrandi litum. Leikmynd og búningar eru gerð af metnaði, leikmyndin er tvískipt þar sem bærinn tekst á við hreysi ræningjanna og það er ótrúlega vel gert. Tónlistin er flutt af húsbandi sem náttúrlega færir svona sýningu upp á æðra stig, það kemur ekkert í stað lifandi tónlistar, skemmtilegt að sjá þverflautuleikarann á sviðinu í upphafi sýningarinnar.

Til hamingju Freyvangsleikhús allra landsmanna með metnaðarfulla sýningu og takk fyrir að setja upp barnasýningu að þessu sinni því þær eru aldrei of margar, ef við ölum ekki börn upp við leikhús þá sækja þau það síður sem fullorðið fólk rétt eins og ef við höldum ekki bókum að þeim munu þau síðar lesa á fullorðinsaldri.

Megi félags- og mannauður Freyvangsleikhússins blómstra um ókomna tíð.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju og pistlahöfundur hjá Akureyri.net

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
08. júní 2024 | kl. 14:50