Fara í efni
Pistlar

Stillimynd

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 14

Okkur Akureyringum hafði verið það nokkuð ljóst upp úr miðjum sjöunda áratugnum að Reykvíkingar væru komnir með sjónvarp. En þeir sætu kvöldin löng og ljúf fyrir framan ljósmagnaðan skerm í kassalaga kistu þar sem lífið birtist eins og á hvítu tjaldi kvikmyndahúsanna. Munurinn væri bara sá að nú hefði myndin verið smækkuð heim í hvert einasta hús.

En okkur norðanmönnum hafði verið sagt að þessarar blessunar yrðum við líka aðnjótandi eftir nokkur misseri. Það tæki bara tíma að tengja. Og landið væri víðfeðmt og vogskorið. Eins og við landsbyggðarfólkið þekktum það nú ekki.

En biðin var löng og leið. Ekki eitt, heldur tvö ár.

Allan þann óralanga tíma hvarf mannskapurinn á Syðri-Brekkunni inn í barm sinn við það hallærislega hlutskipti að hlýða á kvöldsöguna í útvarpi á meðan hann sá fyrir sér sunnanliðið að spegla sig í spennandi sjónvarpsmyndum.

Þangað til uppreisnin hófst í Álfabyggðinni. Það yrði sko líka gónt á skjáinn fyrir norðan. Og það þótt ekkert væri í honum.

Því einn af efnuðustu nágrönnum okkar hafði keypt sér þessa kassalega kistu að sunnan, áður en nokkur bekenti hvenær tilsmækkað bíó færi að berast okkur úr höfuðborginni. Hann vildi bara að nágrannarnir vissu að hann hefði verslað sér kassann. Og gott ef karlinn náði ekki stillingunni nokkuð fljótt og greitt, en þar glóði svarthvít stillimyndin með tifandi klukku og mynd af Eyjafirði á bakgrunni.

Og segir þá af því að aldrei varð álíka gestkvæmt á heimili þessa ágæta manns eftir að hann keypti kassann, af því að enginn var til viðtals í bænum nema að hann hefði augum barið þessa svarthvítu stillimynd að sunnan.

Og sátu þar margir kvöldlangt og nutu vel.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: HANSAHILLUR

Lífviður frá Asíu

Sigurður Arnarson skrifar
11. september 2024 | kl. 09:45

Verkstjórar eigin hugmynda

Magnús Smári Smárason skrifar
10. september 2024 | kl. 15:45

Kaupfélag verkamanna

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. september 2024 | kl. 10:30

Apótekaralakkrísinn

Jóhann Árelíuz skrifar
08. september 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15

Sjálfbærni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
07. september 2024 | kl. 09:00