Fara í efni
Pistlar

Skíðabelti

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 66

Berir og kaldir kaðlarnir uppi í Fjalli voru ekkert endilega að manns skapi. Það er bernskuminningin. En skemmtunin, að renna sér niður frá hæsta punkti þeirra, var auðvitað miklu meiri en svo að maður léti handlama hangsið í helvítis spottanum draga úr sér allan þrótt.

Og þeir voru þreytandi, vissulega, lágu slyttislega ofan á fannbarðri brautinni, svo það þurfti að hneigja sig í átt að þeim í neðra, og lyfta þeim upp í klofið svo hægt væri að ná sæmilegu taki á þeim, en það var aldrei meira en svo að litlar skjálfandi hendurnar voru alltaf við það að missa takið.

En svo komu skíðabeltin til sögunnar.

Þau breyttu öllu. Og raunar meiru en svo. Því mann tók að dreyma það um miðja nótt, stökkungum stráknum, að Brekkusnigillinn liði upp um brekkurnar fyrir þær einar sakir að bandið í blautum vettlingum manns, biði manni upp í dans. En það var komið almennilegt hald í þessa hamingju manns.

Traust tak. Það var ekkert minna.

Skíðabelti voru sömu ættar og glímubelti. Líkindin voru þau helst að það var hægt að halda fast um mótherja sinn, og eiga við hann erindi í öllum vöðvum sínum og sinum.

Svo kaðallinn var að lokum lagður að velli. Beltin unnu fullan sigur á honum. Það gilti að læsa klónni um þáttaðan þráðinn, sem lá upp um alla brekkuna, og þaðan dróst maður upp um troðninginn, eins og partur af höktandi snúningsvirki, og stóð svo efst á tindi lífsins, búinn að opna klóna og skella lásnum ofan í vasa beltisins eins og hver annar kúreki norðursins á kórréttum skíðunum, eftir að hafa hleypt sér sjálfum af, niður ómælda brekkuna. Þökk sé skíðabeltinu.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: DÝRTÍÐ

Um nöfn og flokkunarkerfi – fyrri hluti

Sigurður Arnarson skrifar
19. mars 2025 | kl. 09:15

Vanrækt og gleymt horn geðheilbrigðisþjónustunnar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
18. mars 2025 | kl. 12:00

Stórkostlegt ferðalag LMA og Dórótheu í Hofi

Rakel Hinriksdóttir skrifar
18. mars 2025 | kl. 11:30

Betrekk

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. mars 2025 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 44; Elínarbaukur

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
16. mars 2025 | kl. 11:45

Wings, Vallass og vínarbrauð

Jóhann Árelíuz skrifar
16. mars 2025 | kl. 06:00