Fara í efni
Pistlar

Sanngjarn sigur og Þór fór upp í 4. sæti

Rafa Victor gerði fyrra mark Þórs í kvöld og þakkar hér Ibrahima Balde fyrir undirbúninginn með því að pússa skóna hans, eða þannig ... Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu Grindvíkinga 2:0 í Boganum í kvöld og eru í fjórða sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, eftir 15 umferðir. Þórsliðið færðist því upp um eitt sæti eftir leiki kvöldsins.

Njarðvík vann HK 3:0 og er efst með 31 stig, ÍR er með 29 en á leik við Selfoss á morgun til góða, Þróttur vann Fylki 2:1 og er með 28 stig og síðan kemur Þór með 27.

Sigur Þórs var sanngjarn en stuðningsmenn liðsins urðu að bíða þolinmóðir eftir marki. Þótt Þórsarar væru meira og minna með boltann allan fyrri hálfleikinn náðu þeir aldrei að brjóta sterka vörn gestanna á bak aftur og ekkert reyndi á markvörðinn. Í blálok hálfleiksins fengu gestirnir hins  vegar óvænt færi en skotið fór fram.

Þórsarar keyrðu upp hraðann í seinni hálfleik, voru áfram mikið með boltann framan af og brutu loks ísinn þegar tæpur klukkutími var búinn af leiknum. Markið kom eftir eldsnögga sögn: Aron Birkir markvörður Þórs varði skot og var fljótur að hugsa; spyrnti langt fram, Ibrahima Balde  hafði betur í baráttu við varnarmann – eins og í flestum tilfellum – þegar hann tók boltann niður og sneri andstæðinginn af sér, lék inn í vítateig og renndi á Rafael Victor sem skoraði úr miðjum teignum. Boltinn lá í neti Grindvíkinga rúmum 10 sekúndum eftir að Aron varði hinum megin.

Þórsarar komast í 1:0. Ibrahima Balde tók boltann niður eftir langa spyrnu Arons Birkis markvarðar Þórs, lék inn í vítateig ...

... og sendi á Rafa Victor sem var aleinn í miðjum á vítateignum og skoraði.

Rafa Victor var markahæsti Þórsarinn í fyrra en var frá vegna meiðsla í allan vetur og fram á sumar. Þetta var annað mark hans á leiktíðinni og framherjinn gladdist að vonum. Myndir: Ármann Hinrik

Grindvíkingum óx ásmegin eftir markið, þeir náðu að halda boltanum mun betur en fyrri hluta leiksins og Þórsarar færðu lið sitt örlítið aftar. Gestirnir voru þó aldrei nálægt því að skora fyrr en á 76. mínútu er Aron Birkir gerði gríðarlega vel að verja hörkuskalla af stuttu færi.

Hlutirnir gerðust reyndar hratt á þessum kafla; mínútu áður höfðu Þórsarar verið í mjög góðu færi hinum megin eftir hornspyrnu en markvörður Grindavíkur bjargaði á síðustu stundu þegar varnarjaxlinn Yann Emmanuel Affi virtist ætla að skora, og tveimur mínútu eftir vörslu Arons Birkis lá boltinn í neti Grindvíkinga á ný. Heppnisstimpillinn frægi var á því marki, þótt undirbúningurinn hafi verið góður. Þórsarar náðu boltanum á miðjum eigin vallarhelmingi, Sverrir Páll Ingason tók á rás með hann fram hægri kantinn og hugðist senda fyrir markið þegar hann nálgaðist vítateigshornið en Haraldur Björgvin Eysteinsson, varnarmaður Grindavíkur, varð fyrir því óláni að reka fót í boltinn sem breytti um stefnu og lak í markið við nærstöngina.

  • Vængmaðurinn eldfljóti, Clement Bayiha var ekki í leikmannahópnum hjá Þór í kvöld. Hann fór úr axlarlið gegn Keflavík í síðustu umferð.
  • Kristófer Kristjánsson var í byrjunarliði Þórs í kvöld, í fyrsta skipti í sumar. Hann tók þátt í tveimur leikjum í maí en þurfti síðan í aðgerð og kom ekki við sögu aftur fyrr en gegn Keflvíkingum í síðustu viku, eftir tveggja mánaða fjarveru.
  • Fannar Daði Malmquist var í leikmannahóp Þórs í kvöld, í fyrsta skipti á leiktíðinni. Hann sleit krossband í hné í desember.

Yann Emmanuel Affi í óvæntu færi eftir hornspyrnu á 75. mín. en Matias Niemela var fljótur að bregðast við og varði. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Sverrir Páll Ingason hljóp fagnandi að varamönnum Þórs sem voru að hita upp við hornfánann eftir að sending hans fyrir markið breytti um stefnu af varnarmanni, endaði í markinu og staðan var orðin 2:0. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

Sigurður Arnarson skrifar
30. júlí 2025 | kl. 09:00

Atlavík

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. júlí 2025 | kl. 11:30

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Sumarfrí

Jóhann Árelíuz skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er farin í hundana

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. júlí 2025 | kl. 06:00

Reikningur vegna látins manns

Orri Páll Ormarsson skrifar
25. júlí 2025 | kl. 09:00