Dæmdi á Akureyri 2013 – dæmir úrslitaleik EM

Úrslitaleikur Evrópumóts kvennalandsliða í knattspyrnu fer fram í dag. Þar mætast Evrópumeistarar Englands og heimsmeistarar Spánar. Leikurinn fer fram á St. Jakob-Park í Basel í Sviss og hefst kl. 16.
Þegar rýnt er í knattspyrnusöguna má finna örlitla tengingu við Akureyri í úrslitaleiknum og nokkrar að auki í mótinu sjálfu. Sterkasta tengingin við Akureyri er auðvitað landsliðskonan okkar Sandra María Jessen, sem var í byrjunarliði Íslands í öllum leikjum liðsins í riðlinum og stóð sig vel í sínu hlutverki.
Akureyrarvinkill á úrslitaleiknum tengist ekki liðunum sjálfum heldur dómara leiksins í dag, hinni frönsku Stephanie Frappart. Hún hefur getið sér gott orð sem dómari, en hún hóf ferilinn sem alþjóðadómari 2009 og hefur dæmt á fjölda stórmóta og dæmt fjölda stórleikja undanfarinn áratug.
Stephanie Frappart dæmdi nefnilega Evrópuleik á Þórsvellinum miðvikudaginn 9. október 2013 þegar Þór/KA tók á móti rússneska liðinu Zorkij í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Sandra María var í byrjunarliði Þórs/KA í þeim leik. Um sex árum síðar varð Frappart svo fyrst kvenna til að dæma úrslitaleik í karlaflokki á vegum UEFA þegar hún dæmdi leik Evrópumeistara Liverpool og Evrópudeildarmeistara Chelsea um ofurbikar Evrópu haustið 2019 og braut svo annað blað í knattspyrnusögunni rúmu ári síðar þegar hún varð fyrst kvenna til að dæma leik í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki.
Ef vel er að gáð má svo finna fleiri tengingar við Akureyri á EM, fyrir utan okkar konu og þann fjölda fólks sem fór héðan til að styðja íslenska liðið. Danska landsliðskonan Pernille Harder var leikmaður Wolfsburg 2018 þegar liðið mætti Þór/KA á Þórsvellinum 12. september. Hún var í leikslok verðlaunuð sem maður leiksins og fékk að launum gjafabréf á Greifann. Harder skoraði í báðum leikjunum gegn Þór/KA. Pólska landsliðskonan Ewa Pajor var einnig leikmaður Wolfsburg 2018 þegar liðið mætti Þór/KA í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Báðar spiluðu þær með sínum landsliðum á EM sem lýkur í dag.
Ef kafað er enn dýpra mætti finna þekktar knattspyrnukonur sem voru mögulega einhvern tímann á leið til Akureyrar til að spila fyrir Þór/KA, eða voru til skoðunar hjá þjálfara liðsins. Hverjar það voru verður ekki upplýst hér enda aðeins um þreifingar og möguleika að ræða, sem ekki varð úr.


Timburmenn

Sumarfrí

Þessi þjóð er farin í hundana

Reikningur vegna látins manns
