Fara í efni
Pistlar

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

TRÉ VIKUNNAR - 124

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Veðurfarslega tilheyrir Ísland hinu vel þekkta barrskógabelti norðursins. Öll önnur gróðurbelti heimsins speglast á bæði hvel jarðarinnar en þar sem barrskógabeltið ætti að vera á suðurhveli eru ekki nægilega stór landsvæði til að hægt sé að tala um hið suðlæga barrskógabelti. Það merkir samt ekki að engin barrtré vaxi á suðurhveli jarðar. Það er þekkt á báðum hvelum jarðarinnar að barrtré geta vaxið víðar en í barrskógabeltinu.
 

Af þeim barrtrjám, sem vaxa á suðurhveli jarðar, er ein ætt mest áberandi. Samkvæmt Orðabanka Íslenskrar málstöðvar heitir hún gagnviðarætt. Fræðiheiti hennar er Podocarpaceae. Samkvæmt Tudge (2005) og Farjon (2008) eru 18 ættkvíslir innan ættarinnar og frægust þeirra er sjálf gagnviðiaættkvíslin eða Podocarpus. Innan ættarinnar í heild hefur orðið mikil og merkileg þróun. Meðal annars hefur þróunin gert ýmsar tilraunir með einkennilega köngla. Nú er svo komið að þeir geta verið býsna fjölbreyttir í útliti innan ættarinnar. Ef lesendur vilja rifja upp muninn á ættkvíslum og ættum geta þeir glöggvað sig með því að lesa þennan pistil frá 2021 og til frekari glöggvunar má lesa þennan pistil. Þar er farið dýpra í þessi fræði.

Mjög algengt er að nota köngla til að skipta tegundum barrtrjáa í ættkvíslir og þessi fjölbreytileiki innann gagnviðarættarinnar hefur leitt til þess að ekki er alltaf auðvelt að ákveða hvaða tegundir tilheyra hvaða ættkvísl innan þessarar ættar. Á norðurhveli jarðar er það fyrst og fremst gerð köngla sem ræður því í hvaða ættkvísl barrtrjáategundum er skipað og skapar það miklu minni vanda en á suðurhveli. Við komum nánar að þessum könglum hér neðar.

Þar sem þessi pistill fjallar fyrst og fremst um ættkvísl gagnviða en ekki gagnviðarættina sleppum við því í bili að segja frá ýmsum furðum innan ættarinnar. Seinna segjum við frá furðutrjám innan hennar, en nú skoðum við hina stóru ættkvísl gagnviða.

Það kann að valda ruglingi þegar bæði er talað um gagnviðarætt og gagnviðarættkvísl. Það þarf samt ekki að vera þannig. Þegar talað er um gagnviði er átt við ættkvíslina, rétt eins og þegar talað er um víði þá er talað um víðiættkvíslina, Salix, en ekki víðiættina, Salicaceae. Sama á við þegar talað er um rósir. Þá er átt við tegundir innan rósaættkvíslarinnar, Rosa, en ekki ættarinnar, Rosaceae, í heild.
 
Podocarpus elatus er algengt tré í regnskógum í Nýja-Suður-Veils og Queensland í Ástralíu. Tréð vex einnig á Papúa Nýju-Gíneu. Tréð ber æta ávexti sem þroskast í mars til júlí. Að auki myndar tegundin ágætis timbur. Mynd og upplýsingar eru af þessari síðu.
Podocarpus elatus er algengt tré í regnskógum í Nýja-Suður-Veils og Queensland í Ástralíu. Tréð vex einnig á Papúa Nýju-Gíneu. Tréð ber æta ávexti sem þroskast í mars til júlí. Að auki myndar tegundin ágætis timbur. Mynd og upplýsingar eru af þessari síðu.

Stórar ættkvíslir barrtrjáa 

Af öllum barrtrjám eru furur, Pinus spp. taldar mynda flestar tegundir samkvæmt flestum heimildum en næst í röðinni koma gagnviðir eða Podocarpus spp.

Þessar ættkvíslir bera höfuð og herðar (eða greinar og krónu) yfir aðrar ættkvíslir og nánast jafnmargar tegundir eru taldar tilheyra þeim. Samt er það svo að á meðal flestra íbúa landsins þekkjum við, íbúar á norðurhveli, bara aðra ættkvíslina.

Innan gagnviðarættkvíslarinnar þekkist margs konar vaxtarlag. Trén geta myndað allt frá jarðlægum runnum upp í stórvaxin, einstofna tré. Má nefna að hvorutveggja finnst á Nýja-Sjálandi. Annars vegar er þar að finna P. nivalis, sem vex þar til fjalla og getur við bestu skilyrði orðið um 40 cm á hæð. Hins vegar vex þar einnig P. totara sem oftast er um 20 til 25 metra hátt tré (Farjon 2008). Aðrar heimildir segja að það tré geti orðið enn hærra.

 
Podocarpus nivalis í konunglega grasagarðinum í Edinborg. Myndin tekin í desember árið 2018. Vel má vera að þessi tegund geti þrifist á Íslandi því á heimaslóðunum þrífst hún ofan  skógarmarka. Mynd: Sig.A.
Podocarpus nivalis í konunglega grasagarðinum í Edinborg. Myndin tekin í desember árið 2018. Vel má vera að þessi tegund geti þrifist á Íslandi því á heimaslóðunum þrífst hún ofan skógarmarka. Mynd: Sig.A.

Colin Tudge (2005) segir frá því að Maórar, sem voru frumbyggjar bæði á Suðurey og Norðurey, sem eru megineyjar Nýja-Sjálands, kölluðu þessa tegund totara og hefur það heiti ratað inn í fræðiheitið. Reyndar notuðu þeir það heiti einnig á P. cunninghamii sem vex á sömu eyjum en hærra til fjalla og verður ekki eins hávaxin. Tudge segir að P. totara geti náð allt að 40 metra hæð og að stofnarnir geti haft tveggja metra þvermál í brjósthæð. Maórar dáðu þetta tré. Það var ekki bara vegna mikils vaxtar heldur einnig vegna hins rauða litar sem er á timbrinu. Rautt litu þeir á sem konunglegan lit. Þeir áttu það til að höggva niður svona stóra stofna og hola þá að innan og nota sem eintrjáninga sem borið gátu allt að 100 ræðara (Tudge 2005).

Podocarpus totara 'Pendula' er ekki líkt neinum barrtrjám sem vaxa villt á norðurhveli. Myndin er fengin af þessari síðu. Af sumum algengum tegundum gagnviða þekkjast fjölmörg yrki.
 
Podocarpus totara 'Pendula' er ekki líkt neinum barrtrjám sem vaxa villt á norðurhveli. Myndin er fengin af þessari síðu. Af sumum algengum tegundum gagnviða þekkjast fjölmörg yrki.

Barr eða lauf?

Flest vitum við að lauftré hafa lauf en barrtré hafa barr. Ef málið væri alltaf svona einfalt væri þessi kafli alveg óþarfur. Í rauninni má segja að öll venjuleg tré hafi lauf. Laufið á barrtrjánum (eða berfrævingum, ef við viljum ekki lenda í þessu veseni með heitin) köllum við barr. Í flestum tilfellum eru slík tré sígræn, en á því eru undantekningar. Á Íslandi vaxa nokkrar tegundir af lerkitrjám sem allar eiga það sameiginlegt að fella barrið á haustin eða snemma vetrar. Þegar hlýnar á vorin laufgast þau aftur. Engum dettur í hug að segja að þau barrist. Þau laufgast. Þarna geymir tungumálið ágætan vitnisburð um að í raun og veru er barrið lauf.

Sumar tegundir berfrævinga (sem við gjarnan köllum barrtré) sem lifa á suðurhveli jarðar bera „barr“ sem er miklu líkara hefðbundnu laufi en því barri sem við þekkjum á trjám sem vaxa á Íslandi. Sumar tegundir gagnviða fylla þann hóp. Í sumum tilfellum er barrið – eða laufið – svona mitt á milli þess að vera barr og lauf. Í mörgum tilfellum getur það minnt meira á laufblöð en barr í útliti eins og sjá má á myndum í þessum pistli. Má jafnvel segja að sumir gagnviðir séu barrtré með sígræn lauf í stað barrs.

 

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Atlavík

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. júlí 2025 | kl. 11:30

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Sumarfrí

Jóhann Árelíuz skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er farin í hundana

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. júlí 2025 | kl. 06:00

Reikningur vegna látins manns

Orri Páll Ormarsson skrifar
25. júlí 2025 | kl. 09:00

Sýprus

Sigurður Arnarson skrifar
23. júlí 2025 | kl. 09:00