Fara í efni
Pistlar

Rauðkál

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 73

Rauðkál í krukkum fór að verða áberandi í nýlenduvöruverslunum í ungdæmi mínu, og þótti svo umdeildur matur í kjafti kynslóðanna að þeir eldri í ættinni áttu ekki til aukatekið orð hvað yngra fólkið væri farið að troða inn fyrir varir sínar.

Grænmeti gæti ekki verið rautt.

En engu síður vandist það svo mjög í munni manns að annað kom ekki til greina en að panta sér pylsu með öllu – og þar með töldu rauðkáli, en farið var að kalla réttinn þann arna Eyfirðing á æskuárum mínum. Og gott ef aðkomufólkið varð ekki forviða þegar sá rauðkálstaumana í munnvikum okkar heimamanna, enda mátti allt eins ætla að maður væri blóðrisa í framan á meðan öllu saman var gúffað í sig. Dreyrinn skein við í skoltinum.

En víst er að vaninn er manns annað eðli, og fyrir vikið varð akureyska pylsan með öllu, með þeim allra litríkustu á landinu, og langtum glæsilegri og miklum mun matarmeiri en þekktist fyrir sunnan. Bragðið var líka eftir því, svo til hæfilega beiskt og súrt, í samblandi við sætuna.

Sigmundur afi, sannfærðasti framsóknarmaður bæjarins, og þótt víðar væri leitað, lagði sérstaka fæð á rauðkál eins og annan litríkan mat um sína daga. Hann væri líka innfluttur óþarfi, og þar að auki kominn undan kommúnisma, en hann vissi til þess að upprunalega hefði fæðan sú arna borist til Evrópu frá Rússlandi. Þess vegna væri hún rauð. Og hann færi nú ekki að setja svona sovéskt glundur inn fyrir sínar varir.

Mamma hafði því ávallt varann á sér ef karlinn var væntanlegur í lambalærið í hádeginu einhvern sunnudaginn. Þá var heimalagaða rauðkálssalatið geymt inni í búri og grænu baununum skipt inn á stofuborðið. En þær væru bílddælskar.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SVEFNSÓFI

Í hita leiksins

Jóhann Árelíuz skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 14:00

Steinvalan í öldugangi Öskjuvatns

Rakel Hinriksdóttir skrifar
17. ágúst 2025 | kl. 12:00

Gervisáli

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 18:00

Á fjöllum erum við öll í sama liði

Rakel Hinriksdóttir skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 14:00

Þessi þjóð er hrædd við útlendinga

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þokaðu úr lokunni, aðeins andartak

Rakel Hinriksdóttir skrifar
15. ágúst 2025 | kl. 06:00