Fara í efni
Pistlar

Örlítið brot frá unglingsárum

Ég átti heima í Keflavík fyrstu 12 ár ævi minnar. Fyrstu árin vorum við fjölskylda, foreldrar mínir og við systkinin þrjú og áttum heima við Vallargötu 27 en síðar byggði pabbi þar stórt og gott hús, með kjallara og risi við Hólabraut 12 í Keflavík. Í því húsi átti ég sérherbergi. Þar hafði ég límt tvær myndir á veggina, önnur var af Elvis Presley og hin af Birgittu Bardot. Myndirnar komu í pörtum í blaðinu BRAVO, og þegar allt var komið voru þau Elvis og Birgitte í fullri stærð í herberginu mínu. Þetta var svo flott.

Einn góðan veðurdag kom mamma inn í litla herbergið mitt, settist og sagði mér að hún ætlaði að skilja við pabba. Ég fór að gráta. Hún spurði mig hvort ég vildi vera hjá sér eða pabba. Ég sagðist vilja vera hjá henni því hún gæti saumað á mig föt. Við flytjum síðan öll til Reykjavíkur og húsið var sett í sölu og seldist ári síðar. Pabbi fór til systur sinnar og fjölskyldu á Hagamel en mamma hafði leigt tveggja herbergja kjallaraíbúð við Ránargötu. Ég byrjaði í 1. bekk í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, ég var rétt orðin 13 ára.

Skömmu eftir áramótin þetta ár hófust miðsvetrarprófin í Gaggó Vest, ég sat í þröngri stofunni á Ránargötunni og var að lesa mannskynssögu þegar hávær hlátur barst úr eldhúsinu í þessari kjallaraholu sem við bjuggum í. Þar var mamma og ástmaður hennar. Ég kallaði fram og bað þau að þegja því ég væri að lesa fyrir próf. Ástmaðurinn vippaði sér þá að mér og sló mig utan undir þannig að ég þeyttist fram á gólfið. Þar lá ég og hugsaði. „Ég þarf að komast út, ég þarf að fara niður á Hagamel til pabba, en ég get ekki farið í skó eða föt, því þá nær Gunnar mér (en svo hét ástmaðurinn).“ Ég hugsaði aðeins fleira, ég þyrfti að taka með mér bækur fyrir næstu próf, landafræði og dönsku. Mér tókst að safna þessu lesefni saman, og hlaupa út á sokkaleistunum. Ég kom útgrátin og rennandi blaut á Hagamelinn og sagði pabba og fólkinu þar hvað hefði gerst. Pabbi og Gunnar mágur hans fóru strax upp á Ránargötu.

Ég vissi lengi vel ekki hvað gerðist þar, en var sagt að mamma hefði hringt í lögregluna og pabbi „setið inni“ þessa nótt. Það er stutt síðan ég frétti þetta. Pabbi, sá sómakæri maður sat inni eftir að ókunnur maður hafði lamið dóttur hans svo á sá. Já, það er undarlegt þetta réttlæti lífsins. Í framhaldi af þessum átökum var ég send til fulltrúa barnaverndarnefndar í Reykjavík og beðin að segja hvað gerðist þarna í kjallaraíbúðinni. Ég sagði áreiðanlega skýrt og greinilega frá en eina sem ég man af samtali mínu við barnaverndarfulltrúann var: „Það er ljótt að segja mömmu sinni að þegja.“ Þar hafði ég það.

Um vorið fluttum við pabbi suður í Kópavog. Ég eldaði, bakaði og þreif en bjó líka við mjög mikið frelsi, ég var á fullu í skátastarfi og fjallgöngum og sinnti náminu mínu.

Við pabbi bjuggum saman í Kópavogi í sjö ár eða þar til ég flutti til Akureyrar til að gerast kennari. Ég hafði reyndar verið eitt sumar á Akureyri, árið 1964, þegar ég var 18 ára og segi frá því sumri í næsta pistli.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Barkarbjöllur – ógn við íslenska skóga

Sigurður Arnarson skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:45

Serie A

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 11:30

Uppá eldhússkápnum

Jóhann Árelíuz skrifar
04. maí 2025 | kl. 10:00

Heilbrigt vantraust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. maí 2025 | kl. 06:00

Njósnir í skólastofunni

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
03. maí 2025 | kl. 07:45

Sístöðulaust óhljóð frá hjartanu

Orri Páll Ormarsson skrifar
02. maí 2025 | kl. 11:00