Fara í efni
Pistlar

Níu slitnar rætur

Hann var sex ára og bjó með foreldrum sínum og frændfólki á sveitabæ. Þá braust út stríð og ráðist var á fjölskylduna. Drengurinn horfði upp á hvern fjölskyldumeðliminn á fætur öðrum myrtan. Foreldrar hans náðu að flýja með hann.

Í tvö ár voru þau á flótta. Þegar drengurinn var átta ára hafði hann búið í níu löndum. Hann var búinn að tapa móðurmáli sínu, talaði nú sambland af þeim tungumálum sem hann hafði kynnst í öllum þessum löndum. Að lokum endaði hann í litlum bæ í Svíþjóð.

Ungur myndlistarmaður var nýfluttur til bæjarins. Drengur fór að venja komur sínar á vinnustofu unga myndlistarmannsins. Þrátt fyrir aldursmun urðu þeir mjög góðir vinir.

Þannig gekk það í eitt ár. Þá ákváðu stjórnvöld að það væri orðinn nægilegur friður í heimlandi drengsins svo fjölskyldan var flutt til baka. Það sem beið þeirra var brunninn sveitabær og líkamsleifar ættmenna. Eina húsið sem stóð var gamalt fjós og þar settist fjölskyldan að.

Fyrir myndlistarmanninn var það eins og að missa náinn ættingja að horfa á eftir drengnum fluttan nauðungarflutningum í burtu. Til heiðurs vini sínum setti hann upp myndlistarsýningu.

Ég sá þessa sýningu. Hún reif í hjartað. Heill veggur var þakinn ljósmyndum af litlum brosmildum dreng. Gleði og hamingja skein úr andliti drengsins á öllum myndunum, nema þeim í neðstu röðinni, þær voru af kveðjustundinni. Á miðju gólfinu var stytta af drengnum í rifinni fótboltaskyrtu með slitinn fótbolta undir hendinni. Út úr baki drengsins uxu níu slitróttar rætur. Ein slitin rót fyrir hvert land sem drengurinn hafði búið í. Fótboltinn hafði alltaf fylgt drengnum. Í hvert sinn sem hann flutti á nýjan stað tók hann boltann sinn og fór út á næsta völl. Fótboltinn tengdi hann við önnur börn, þar þurfti ekkert tungumál, allir kunnu leikinn.

Það er stærsti kosturinn við fótbolta, þessi félagslega tenging.

Listmaður gleymdi ekki litla vini sínum. Hann leitaði í nokkur ár og að lokum náðu þeir saman á ný. Saman gerðu þeir heimildarmynd um drenginn sem vann til margra verðlauna.

Drengurinn heitir Gzim Derwishi og listamaðurinn Knutte Wester.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30