Fara í efni
Pistlar

Með hæla í rassi

EYRARPÚKINN - 38

Ég hljóp þétt með girðingum hægra megin viðbúinn árás á hverju götuhorni.

Hljóp ég Ægis- og Ránargötur, Eiðsvallagötuna og út Hríseyjargötu uppí Eyrarveg með hæla í rassi enda betra að vera mjúkur í boltanum með Stebba litla þá við undum okkur löngum á lóð Hermínu skallandi knöttinn á milli okkar, sparkandi og þvælandi.

Héldum á lofti og töldum skiptin eins og heimsviðburði. Komumst í fimm og sex og dvaldist þar, komumst í átta og níu, rufum tveggjatölumúrinn og hrópuðum þrettán, seytján, tuttuguogeitt!

Og bárum okkur saman við Kára og Skúla sem héldu bolta lengst á lofti akureyrskra og vildum gera betur.

Við öttum kappi leynt og ljóst og hældum okkur fyrir framfarirnar en máttum ekki verða öfgafullir í hrósi enda samstiga í snilldinni og stríðið háð í vöku og draumi.

Þannig liðu gulir morgnar und glærri sól á stuttbuxum að skalla á milli græna skúrsins hans Hreiðars og ómúraða skúrsins Skarphéðins pabba Lilju.

Var hægt að hefja daginn hærra en að slá halda-á-lofti metið frá í gær?

Þvældumst við milli kartöflugarðs og aspa, negldum græna trérimla ristarfleygum og tróðum gras í svörð.

Ekkert blómahaf í Ægisgötu 14 og óhætt að spyrna við fótum á mörkum Hermínu og Lönguvitleysunnar en á snarrót bæjarlengjunnar hópuðust Eyrarpúkar í Fallna spýtu og Stórfiskaleik og skiptu liði í Slábolta og Yfir.

Héldum við Stebbi litli boltanum á lofti svo tugum skipti og stefndum ótrauðir á fyrsta hundraðið.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Með hæla í rassi er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Hús dagsins: Norðurgata 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. janúar 2026 | kl. 06:00

Hvor var betri, Tommi eða Kóki?

Orri Páll Ormarsson skrifar
23. janúar 2026 | kl. 06:00

ʻŌhiʻa Lehua

Sigurður Arnarson skrifar
21. janúar 2026 | kl. 10:00

Vökustaurar

Jóhann Árelíuz skrifar
18. janúar 2026 | kl. 06:00

Runnkennt elri til landgræðslu - Seinni hluti: Tegundir

Sigurður Arnarson skrifar
14. janúar 2026 | kl. 09:45

Hreyfing – þegar gæði skipta meira máli en magn

Guðrún Arngrímsdóttir skrifar
13. janúar 2026 | kl. 06:00