Fara í efni
Pistlar

Lífið í skógarmoldinni

TRÉ VIKUNNAR - XLVIII

Jarðvegurinn er undirstaða alls sem vex á jörðinni. Því kann það að vekja nokkra furðu hvað við í raun vitum lítið um hann og það sem í honum er að finna. Við vitum ótrúlega lítið um vistkerfið undir fótum okkar. Við vitum þó að moldin er stórfenglegur lífheimur. Ólafur Arnalds (2023), sem er fremsti jarðvegsfræðingur landsins, segir að því hafi verið haldið fram að „fjöldi þeirra tegunda sem á eftir að lýsa og greina í jarðvegi séu fleiri en allar þær tegundir sem þrífast ofanjarðar.“ Ætti þetta að gefa nokkra hugmynd um auðgi þeirra tegunda sem lifa undir fótum okkar. Í þessari grein segjum við frá þeim öllum - eða ekki. Þessi umfjöllun er mjög langt frá því að vera tæmandi eins og gefur að skilja.

Birki við jökulsorfnar klappir á Akureyri. Takið eftir gróskunni við tréð. Þar kemur meðal annars til að sambýlisörverur trésins hafa áhrif á frjósemina. Mynd: Sig.A. 

Í skógum getur allt að helmingur lífmassans verið neðanjarðar með öllum sínum smásæju lífverum sem við þekkjum varla í sjón. Þær eru drifkraftur næringarhringrásanna. Megnið af lífinu í moldinni er svo smátt að við sjáum það hreint ekki með berum augum. Sagt er að í handfylli af mold megi ætla að fjöldi lífvera sé meiri en sem nemur fjölda fólks á jörðinni. Í hverju grammi jarðvegs eru hundruðir milljóna af allskonar lífverum sem allar hafa sitt hlutverk í hringrásum lífsins. Hver teskeið af jarðvegi getur innihaldið marga kílómetra að sveppþráðum. En við sjáum þetta ekki.

Þetta hulda líf er það sem gefur jarðveginum frjósemi sína. Flest tré gætu lifað ágætu lífi þótt nánast öll dýr sem við þekkjum hyrfu af yfirborði jarðar, nema hvað sum ættu í vandræðum með að mynda fræ og dreifa þeim. Ef lífið í moldinni hyrfi dræpist allur gróður og allt sem á honum þrífst þar með. Jarðvegurinn og það líf sem þar er að finna er undirstaðan.

Þessi skógarþrastarungi reynir að fela sig í birkitré. Honum gengur það ekki eins vel og mörgum lífverum sem lifa ofan í jörðinni og eru ástæða þess að tréð vex og þrösturinn fær að éta. Mynd: Sig.A. 

Frummyndun jarðvegs

Í upphafi var jörðin auð og tóm, eins og segir í 1. kafla Mósebókar. Lífið hófst ekki á þurru landi, heldur í vatni. Hugsanlega í sjónum, fjörupollum eða háhitasvæðum. 

Leirhver í Krýsuvík. Ef til vill varð lífið til við svona hveri á hafsbotni eða í fjörupollum. Mynd: Sig.A. 

Lengi var lífið fyrst og fremst í sjónum. Jörðin var nakin og líflaus. Það var enginn jarðvegur. Smám saman breyttist það og líf nam land. Þá gat jarðvegur farið að myndast og um síðir gátu tré vaxið þar. 

Jörðin hefur gengið í gegnum ótal breytingar frá því að þurrlendi varð til. Á Íslandi gekk yfir ísöld, eða réttara sagt ísaldir, með hlýskeiðum á milli. Á hlýskeiðum klæddist landið gróðri en á kuldaskeiðum stækkuðu jöklarnir og jörðin var ísum kafin. Skriðjöklar mótuðu landið, bruddu grjót og eyddu lífi.

Jökulsorfin klöpp, svokallað hvalbak, í miðnætursól þann 22. júní 2018. Hvalbök sýna í hvaða átt skriðjöklarnir skriðu á ísöld sem leið. Eins og vænta má runnu jöklarnir út fjörðinn, enda grófu þeir hann. Mynd: Sig.A. 

Til fjalla má fá tilfinningu fyrir því hvernig landið leit út í lok ísaldar. Mynd: Erna Þórey Jónasdóttir. 

Svo kom að því að síðasta jökulskeið leið undir lok. Nema við séum bara stödd á hlýskeiði á undan næsta jökulskeiði, sem er þá ókomið. Við höfum sagt frá því áður að kenningar eru uppi um að allt líf á Íslandi hafi horfið, en aðrir telja að það kunni að hafa þraukað á jökulskerjum og öðrum íslausum svæðum. Hvort heldur sem er var landið nakið og ófrjótt þegar jöklar hopuðu og líf nam land. Lífið kom í formi gerla, sveppa og plantna. Lífverurnar uxu, áttu sitt æviskeið og drápust. Rotverun tókst að brjóta efni þeirra í agnarsmáar, lífrænar sameindir sem ensím brutu niður í enn smærri efni. Úr þessari lífrænu súpu tókst lífverunum smám saman að búa til jarðveg. Þannig urðu til lífræn efni sem fóstrað gátu sífellt flóknari vistkerfi. Á þúsundum ára varð til jarðvegur sem fóstrað gat skóga. Skógarnir vernduðu jarðveginn, vörðu hann fyrir áföllum af völdum vondra veðra, vatnavaxta og öskufalls. Þegar fyrstu landnemarnir komu til Íslands var landið skógi vaxið og jarðvegur frjór.

Grímstorfa í Fellum gefur ákveðna hugmynd um hvernig landið leit út við landnám. Þangað er fullfrískum mönnum vel fært. Árið 1979 skráði Eyþór Einarsson 66 tegundir háplantna í torfunni. Samt eru klettar ekki kjörlendi fyrir plöntur eða tré. Mynd: Sig.A. 

Það verður seint of oft nefnt að þessi þróun er hæg. Mjög hæg. Hún gekk samt vel, enda voru ekki neinir stórir grasbítar á landinu sem gátu hægt á ferlinu. Það breyttist með tilkomu mannsins. Ekkert hefur haft meiri áhrif á þróun gróðurs á landinu en tilkoma mannsins ásamt þeirri ósjálfbæru landnýtingu sem fylgdi honum og húsdýrum hans. Jarðvegseyðing hófst þegar skógarnir hurfu. Eftir urðu stór svæði af örfoka landi. Land, þar sem allur jarðvegur hafði horfið.

Það getur verið ákaflega fallegt að sjá mikið ryk í andrúmsloftinu. Sólarlagið er sjaldan jafn glæsilegt og eftir góðan fokdag. Mynd: Sig.A. 

Þetta skiptir máli, því enn eru svæði á Íslandi þar sem jarðvegur er að fjúka í burtu og hverfa á haf út. Jarðvegur sem myndast hefur á þúsundum ára hverfur í sjóinn. Þetta má sjá og finna á þurrum, vindasömum dögum þegar andrúmsloftið fyllist ryki eins og á myndinni hér að ofan. Þetta má líka sjá þegar vatnavextir verða í stórrigningum. Þá verða lækir og ár brún af dýrmætum jarðvegi sem hverfur á haf út. Þá getur jarðvegur jafnvel sópast niður fjallshlíðar í skriðuföllum. Þetta má líka sjá í virkum rofabörðum á góðviðrisdögum. Þá sést í hina lífrænu mold undir börðunum sem lífverur hafa búið til í þúsundir ára. Þar bíður hún þess að vatn og vindar taki hana með sér. Gróður, einkanlega skógar, draga úr öllum þessum áhrifum.

Rofin fjallshlíð ofan við Vaglaskóg. Sjá má á moldinni að rofið er virkt. Þrátt fyrir að hlíðin sé svona illa farin er hún nýtt til matvælaframleiðslu. Þar er sauðfé á beit. Mynd: Sig.A

Lífverur í jarðvegi

Jarðvegur heldur samt áfram að myndast, einkum þar sem ekki er gengið of nærri gróðri. Stórar og litlar lífverur halda áfram að eiga sitt æviskeið. Smásæ dýr gera sér fæðu úr þessum lífrænu leifum og sundrendur í jarðveginum, svo sem sveppir og gerlar, breyta þeim í næringu. Í moldinni eru allskonar ormar, bjöllur, mítlar, mordýr og fleiri dýr sem öll vinna að því að gera moldina frjósama á einn eða annan hátt. Það gera þau með því að stuðla að hringrás næringarefna. Fjölmörg þessara jarðvegsdýra á þó enn eftir að leiða í ljós, ef svo má segja. Við þekkjum þau ekki öll. Við getum nefnt sem dæmi að Wohllenben (2016) segir okkur að í Evrópu einni séu þekktar um 1.400 ranabjöllutegundir. Flestar eru minni en 5 mm og þær eru allar jurtaætur. Þá eru öll önnur skordýr og öll önnur smádýr ótalin.

Birki í Krossanesborgum við Eyjafjörð seint að hausti. Greinilegt að landið er frjórra þar sem jarðvegslífverur í tengslum við birkið eru til staðar. Til vinstri við birkið má sjá hina appelsínugulu skóf klettaglæðu, Rusavskia elegans. Hún er niturkær fléttutegund. Það bendir til þess að steinninn hafi löngum verið nýttur sem setstaður fugla. Mynd: Sig.A. 

Aðeins lítill hluti þessara dýra getur ferðast yfir langan veg. Þau þróuðust ekki þannig að langferðir yrðu á verkefnalistanum. Litlar pöddur og ánamaðkar fara ekki yfir auðnir þar sem ekkert er að hafa. Enn smærri lífverur eiga vitanlega líka í vandræðum með slík ferðalög. Þetta getur leitt til þess að á Íslandi getur tekið langan tíma að skapa skógarvistkerfi þar sem skógar eru á annað borð horfnir. Sérstaklega ef á milli þeirra svæða er örfoka land. Þeim mun dýrmætari eru þau skógarvistkerfi sem okkur hefur tekist að vernda og koma upp. 

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar
 
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00