Fara í efni
Pistlar

Landnám blæaspa

TRÉ VIKUNNAR - III

Það er engum blöðum um það að fletta, hvorki laufblöðum né öðrum blöðum, að ásýnd Íslands var ekki sú sama við landnám og nú er. Landið var allt betur gróið og 25-40% landsins var skógi vaxið. Undraskamman tíma tók forfeður okkar að breyta þessari ásýnd. Skógum var miskunnarlaust eytt og landgæðum hnignaði. Af þeim trjátegundum sem talið er að hafi verið hér við landnám tókst næstum að útrýma einni en ekki alveg. Þetta er tegundin blæösp eða Populus tremula.

Í þessum pistli skoðum við hinn endann á keðjunni. Hvernig barst þessi tegund til Íslands og hvaðan kom hún?

Meginheimildirnar eru genarannsóknir og tvær ritgerðir sem Sæmundur Sveinsson átti þátt í. Eru honum færðar okkar bestu þakkir fyrir aðstoðina sem og þeim sem góðfúslega leyfðu okkur afnot af myndum. Þakkir fá einnig þeir sem veittu okkur ýmsar gagnlegar upplýsingar.

Blæösp í Grundarreit þann 22. september 2022. Þá er hún enn heiðgræn. Fremst á myndinni má sjá gul og græn birkilauf. Ljósmynd: Helgi Þórsson.

Ending blæaspa í vistkerfum

Þar sem aðstæður eru heppilegar geta blæaspir myndað mikið fræ sem fýkur víða. Íslenskar blæaspir verða þó seint taldar með frjósömustu öspum í heimi. Aðeins örfá dæmi eru til um að aspirnar hafi blómgast hér á landi og engin staðfest dæmi um að þær nái að mynda og þroska frjótt fræ. Hvað blómgun varðar standa þær frænkum sínum, sem kenndar eru við Alaska, langt að baki.

En þær lauma á öðru bragði. Þær setja heilan urmul af rótarskotum. Alaskaaspir geta gert þetta líka en hvað fjölda rótarskota varðar hefur blæöspin gríðarlegt forskot. Með þeim bætir hún smám saman við veldi sitt ef aðstæður leyfa og getur haldið sér við áratugum og jafnvel öldum saman. Sumum þykir jafnvel nó um fjölda rótarskota. Þeirra vegna er ræktun blæaspa í görðum ekki almenn.

Blæöspin í Vaðlaskógi eða Vaðlareit þann 22. september 2022. Þá er hún enn græn en birkið og víðirinn á myndinni í mismiklum haustlitum. Ljósmynd: Helgi Þórsson.

Þessi hegðun blæaspa, að fjölga sér eingöngu með rótarskotum, þekkist víðar en á Íslandi. Þórarinn Benedikz (1994) segir frá því að á eyjunni Hoy, sem er ein af Orkneyjum, megi finna blæasparteig sem talinn er hafa verið þar frá því á ísöld og haldið sér við með kynlausri æxlun í formi rótarskota. Aldrei hefur frést af blómgun þeirrar aspar.

Mynd af karlkyns blómum blæaspa árið 2022. Það sumar blómgaðist öspin í görðum bæði á Norður- og Austurlandi. Það tengist án efa hlýja sumrinu árið 2021. Blómgun í blæösp á Íslandi er mjög sjaldgæf og langoftast eru það aðeins karlblóm. Aðeins er vitað einu sinni um blómgun kvenkynsins aspar. Erfðafræðirannsóknir sýna þó að kvenkyns aspir finnast víðar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.

 

Þórarinn segir líka frá því að í Utah í Bandaríkjum Norður-Ameríku vex systurtegund blæasparinnar sem kallast nöturösp, Populus tremuloides. Þar er nú allt of þurrt til að asparfræ geti spírað. Samt vex hún þarna. Telja menn, af ýmsum kynjum, að hún kunni að hafa viðhaldið sér með rótarskotum í að minnsta kosti 8000 ár (Þórarinn Benedikz 1994).

Við getum því dregið þann lærdóm að þótt hver stofn á blæösp verði ekkert mjög gamall getur vel verið að blæösp hafi verið mjög lengi hér á Íslandi.

Aspir hjá frændum okkar á Hjaltlandseyjum. Þar, eins og hér, hefur sauðfjárbeit haldið öspunum niðri og komið í veg fyrir að þær myndi tré. Ljósmynd: Phil Smith. Fleiri myndir má sjá á Facebooksíðunni Rewilding Scotland

Gróður á ísöld

Eins og kunnugt er lauk ísöld á Íslandi fyrir um 10.000 árum. Lengi voru skiptar skoðanir um hvort einhver gróður lifði af hremmingar ísaldar eða ekki. Annars vegar voru (og eru) uppi hugmyndir sem kallast ördeyðu-kenningin (Tabula rasa) sem gerir ráð fyrir að allur gróður (að minnsta kosti háplöntur) hafi þurrkast út á ísöldinni. Síðan hafi gróður aftur numið land eftir að henni lauk. Hins vegar er það miðsvæðakenningin eða vetursetu-kenningin (Nunatak theory) sem gerir ráð fyrir að einhver gróður, jafnvel stór hluti, hafi lifað af ísaldirnar á jökullausum svæðum sem héldu uppi gróðursamfélögum á meðan á ísöldinni stóð. Einhvers konar blöndur þessara kenninga hafa einnig sést svo ef til vill er rétt að setja þetta fram sem fjórar sviðsmyndir, svo notað sé tískuorð.

1. Hrein ördeyðukenning sem gerir ráð fyrir að allar tegundir hafi borist hingað eftir að ísöld lauk. Jafnvel að allur gróður hafi horfið af landinu að minnsta kosti þrisvar sinnum og þurft aftur að nema land (Einar Þorleifsson 2023)

2. Aðeins lítill hluti lifði ísöld af, einkum fjallaplöntur og arktískar plöntur.

3. Nokkur, eða jafnvel stór hluti flórunnar lifði af en sumar aðrar tegundir bárust hingað eftir að henni lauk.

4. Stór hluti flórunnar lifði af og aðeins fáar tegundir bárust hingað frá því að henni lauk og þar til landnám hófst.

Einhvers staðar þarna er sannleikurinn og sem best getur hann verið allskonar blanda af þessu.

Farið er nánar yfir þessar tilgátur á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistill um Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum. Smellið hér til að sjá allan pistilinn á vef félagsins.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30