Fara í efni
Pistlar

Lagning

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 19

Það voru ekki alltaf fjármunir fyrir hendi á heimilinu til að bregða sér í lagningu niðri í bæ. Gott ef það var ekki bara á færi fínni frúnna að setjast mánaðarlega inn á hárgreiðslustofurnar til að láta fagfólkið túbera á sér lokkana.

Hinar sátu heima. Oftar en ekki. En dóu þó ekki ráðalausar. Eftir baðþvottinn, einhvern rólegri daginn, var komið sér fyrir við eldhúsborðið með álitlegum spegli við hliðina á kambi og nælonpoka, fullum af rúllum.

Svo hófst handavinnan. Og mér finnst eins og það hafi bara gerst í gær þar sem ég mæni á hana móður mína greiða hvert svaðblauta hárknippið af öðru upp í loft og kefla skúfinn svo með einni rúllunni af annarri. Og fumleysið var algert. Þar fór saman festa og natni. Ekki síst á endanum þegar spennunni var brugðið um upprúllaðan brúskinn, svo hann sat eftir í sverðinum, óbifandi.

Þetta var auðvitað mikið sjónarspil. Og svo sem ekki laust við að konan á heimilinu væri nokkuð undarleg til höfuðsins með allt heila rúllusettið á kollinum.

Stundum fékk ég að leggja slæðuna yfir þessi líka herlegheitin og binda á hana hnút undir höku, en það átti að gera varlega og allra síst af þjösnaskap, því þá væri hætta á hárvindan sæti ekki rétt í rótinni.

En þá tók biðtíminn við. Og öll sú þolinmæði þar til hárið þornaði. En þá var lagður kapall á eldhúsborðið, hver á fætur öðrum – og stundum svindlað lítillega ef spilin skiluðu sér ekki í almennilegri röð.

Loks var að losa sig við slæðuna og tína hverja rúlluna af annarri úr liðunum til að geta túberað lokkana með greiðuna í annarri hendi og spreybrúsann í hinni, svo eftir sat mútta manns, aldeilis himinlifandi með hárprýðina, áþekka hárri heysátu á höfðinu.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: FANNFERGI

Kartöflur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. apríl 2024 | kl. 11:30

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00