Fara í efni
Pistlar

Krúttlegi ættinginn eða fulli frændinn

Það eru bráðum sex ár síðan ég flutti frá Íslandi. Á þessum sex árum hef ég bara komið tvisvar í stuttar heimsóknir til Íslands þannig að Ísland er orðið býsna fjarlægt í huga mínum.

Að vera Íslendingur í Svíþjóð er gott, Svíum þykir afar vænt um Íslendinga, við erum litli krúttlegi ættinginn. Svíum þykir svo vænt um Ísland að þeir vilja ekki heyra neitt slæmt um landið; þegar ég segir þeim frá verðtryggingu, Panamareikningum og hruni þá vilja þeir ekki hlusta.

Mér finnst alltaf jafn gaman að sýna sænskum vinum mínum myndir frá Íslandi, þeir eiga ekki orð yfir hversu fallegt landið er. Meðan ég bjó á Íslandi þá sá ég ekki þessa fegurð. En ég sé hana núna. Og sakna hennar, sakna íslenskrar náttúru. Það er fallegt hérna í Svíþjóð líka, en samt ekki jafn töfrandi, jafn stórbrotið.

Á Íslandi naut ég mín best úti í náttúrunni, þegar ég var þar þá gat ég stundum fengið ró á hugsanirnar, nokkuð sem mér hefur annars nánast aldrei tekist. Hér í Svíþjóð nýt ég ekki náttúrunnar, hér truflar mig tilhugsun um höggorma, skógarmýtla, elgi og skógarbirni. En þetta eru þeirra heimkynni og ég virði það.

Þegar Ísland er með á stórmótum í íþróttum þá halda Svíar með þeim. Þegar við vorum nýflutt hingað þá náði Ísland að vinna sér inn þátttökurétt á EM í fótbolta. Inga mín er ekki áhugasöm um fótbolta og þegar fólk óskaði henni til hamingju var hún djúpt snortin án þess að hafa hugmynd um hvað fólk væri að tala um. Hún komst svo hressilega að því þegar Ísland sló í gegn í keppninni sjálfri, þá bókstaflega rigndi yfir okkur hamingjuóskum. Inga mín gat stolt sagt frá því að náfrændi hennar væri í liðinu, það er það sem er mest íslenskt, við erum öll meira og minna skyld hvert öðru.

Ég starfaði lengi vel sem þjálfari í líkamsræktarstöð hér í Svíþjóð, ég notaði mikið íslenska tónlist í mínum tímum. Svíunum þótti með ólíkindum hvað mikið er til af frábæru tónlistarfólki á Íslandi. Þau lög sem voru á íslensku þýddi ég fyrir Svíana, ég samt söng þau ekki, ég er ekki svo mikill fantur. Sem aðdáandi Sigurrósar þá spilaði ég þá mikið, að útskýra texta þeirra var þó ekki auðvelt. En ég bjargaði mér samt, laug bara einhverju fallegu.

Svíar segja oft að þeir séu bara lítið land, það er það sem er innbyggt í sænska þjóðarvitund, undarleg hógværð, að monta sig er nánast dauðasynd hér. Mér finnst þetta alltaf jafn fyndið, geri óspart grín að þeim og bendi þeim á að þeir séu tíu milljónir en við Íslendingar rétt rúm þrjúhundruðþúsund og samt tilbúnir að takast á við hvern sem er óháð stærð. Það finnst sænskum vinum mínum ekkert skemmtilegt.

En við Íslendingar erum vissulega eins og krúttlegi ættinginn. Þessi sem alltaf telur sig geta allt og lætur smæðina ekki aftra sér, reynir aftur og aftur og tekst ótrúlega oft. En það á ekki við um pólitík og peningamál, þar erum við meira eins og fulli frændinn sem alltaf er til vandræða.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30

Tæknin er að gera frænku gráhærða

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. apríl 2024 | kl. 22:00