Fara í efni
Pistlar

Klukkustrengir

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 87

Ef það rigndi eitthvert sumarið, en það var ekki um það rætt á Akureyri, sat hún löngum við hannyrðir sínar í betri stofunni. En henni féll aldrei verk úr hendi, það var erindi hennar og akkeri í lífinu, og lítill strákhnokki átti það til, eftir asnaprik og eltingaleiki dagsins, að setjast niður við fótlegg hennar til þess eins að heyra mildina í kliði prjónanna. Þar voru dáhrifin komin.

En þá var hún að leggja til atlögu við enn einn klukkustrenginn. Og handavinnan var þeirrar náttúru að maður safnaði höfgi og ró. Enda fór það jafnan svo að sá hinn sami dró ýsurnar heldur fast og varanlega við fótskör mömmu sinnar.

Í endurminningunni voru þetta bestu stundirnar. Hún að sauma út á seinni pörtum sumardaganna, og litli guttinn hennar að reyna að vaka eitthvað fram eftir af algerum vanefnum.

Og sofnaði svo marflatur, auðvitað, og var fluttur inn í bedda, nætursaltaður eins og ýsa í kari, án þess að meðvitund fylgdi för.

Það sem er brýnast við svona sögur úr æskunni er að þær næra friðinn í hjarta manns. Þær draga upp myndir af tíma sem talaði til manns af rósemdinni einni saman. Og það var ekki annað í boði en að setjast niður og vera hluti af þeirri eirð og hóglæti sem þar var ætluð nálægu fólki.

Það var nefnilega tími fyrir nærstadda. Og akkúrat það sama stundaglas fjallaði um náin samskipti fólks sem gerði ráð fyrir rými hvert annars.

En þess þá heldur að pollinn kæmi þreyttur heim eftir útileiki dagsins og vissi að syfjunni yrði fundinn öruggur staður inn við brjóst og kjöltu konunnar sem hafði skipt hann öllu máli um ævina. Það var þráin, sjálf sælutilfinningin.

Og bara að hún saumaði fleiri klukkustrengi.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: ÓLÆST

Hús dagsins: Háls í Eyjafirði

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2025 | kl. 06:00

Álfar og huldufólk

Jóhann Árelíuz skrifar
12. október 2025 | kl. 13:00

Við nennum ekki þessu uppeldi

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. október 2025 | kl. 06:00

Geðheilbrigðisdagurinn 2025

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2025 | kl. 06:00

Hin einmana eik eyðimerkurinnar

Sigurður Arnarson skrifar
08. október 2025 | kl. 15:00

Eyrarrokk – Uppáhalds helgin

Ólafur Torfason skrifar
07. október 2025 | kl. 18:00