Fara í efni
Pistlar

Gljámispill

TRÉ VIKUNNAR - XXXIX

Haustið er komið. Við sjáum það á myrkrinu og kertunum og við finnum það á kuldanum. En tryggasta merkið er tilkoma haustlitanna. Haustlitadýrðin er engu lík. Allir mögulegir tónar af gulum og rauðum litum eru mest áberandi Ein af þeim tegundum sem skartar glæsilegum haustlitum er gljámispillinn sem vex víða í bænum. Hann fær ótrúlega rauða haustliti og við útnefnum hann núna sem tré vikunnar þótt hann teljist frekar til runna en trjáa.

Myndir af laufum gljámispils. Myndirnar allar teknar sama dag og sýna lauf í sama limgerðinu í Síðuhverfi. Hægt er að skoða hverja mynd betur með því að smella á þær. Myndir: Sig.A. þann 28. sept. 2023. 

Ættkvíslin Cotoneaster

Talið er að um 30 tegundir tilheyri þessari ættkvísl sem við köllum mispla, Cotoneaster spp. Sumar tegundir ættkvíslarinnar eru líkar innbyrðis og því getur verið flókið að greina þær í sundur. Því er tegundafjöldi dálítið á reiki. Ættkvíslin er innan rósaættarinnar, Rosaceae. Eins og svo margar aðrar ættkvíslir ættarinnar fá flestar tegundir mispla glæsilega, rauða haustliti. Má nefna reynivið og þyrna sem dæmi, en þær ættkvíslir hafa verið glæsilegar í allt haust. Sumir misplar eru sígrænir og fara því ekki í haustliti. Aðalheimkynni mispla eru í Kína og í Himalajafjöllum en sumir þeirra vaxa allt vestur til Evrópu. Asísku tegundirnar hafa, margar hverjar, verið í ræktun í Evrópu í meira en eina öld. Allar tegundirnar þrífast í nánast hvaða jarðvegi sem er nema í bleytu. Skærasta haustliti fá tegundirnar á sólríkum stöðum og frekar þurrum jarðvegi. Mest ræktaða tegund ættkvíslarinnar á Íslandi er sennilega gljámispillinn, Cotoneaster lucidus, en aðrar tegundir, svo sem skriðmispill, C. adpressus, grámispill, C. integerrimus, breiðumispill, C. dammeri og hengimispill, C. suecida eru líka ræktaðir í bænum. Sá síðast taldi oftast græddur á stofn einhvers annars mispils svo hann fái að hanga. Ef til vill fjöllum við síðar um einhverjar af þessum eða öðrumtegundum ættkvíslarinnar.

 
 
Mismunandi rauðir litir. Þessa mynd af limgerði úr gljámispli tók Guðríður Helgadóttir þann 30. september 2003. Myndin er eign Félgas garðplöntuframleiðenda.

Þessi tegund er þéttgreindur og harðgerður runni og vex villtur austur í Síberíu og víðar í norðurhluta Asíu. Hann er talinn bæði nokkuð vind- og saltþolinn og þolir vel klippingu. Í erlendum bókum er sagt að hann geti orðið 2-3 metrar á hæð en hér á landi nær hann sjaldan þeirri hæð, enda oftast klipptur. Blómin á gljámispli eru lítil og óáberandi. Þau eru hvít eða aðeins út í ljósrautt. Ef runninn er klipptur dregur mjög úr blómgun. Aldinið er fyrst rautt en dökknar svo og verður svart. Það er ekki nema tæpur sentimetri í þvermál og lítið áberandi. Þau eru talin óæt og valda óþægindum í maga, en fuglar éta þau með bestu lyst. 

Fullþroska ber og rauðir haustlitir á óklipptum gljámispli. Mynd: Sig.A.

Aðalskraut gljámisplanna eru haustlitirnir. Þeir eru glæsilegir. Framan af sumri eru blöðin dökkgræn og dálítið brúnleit ef vel er að gáð. Þau eru gljáandi á efra borði og ber mispillinn nafn sitt af því. Blöðin eru frekar smá og auðþekkt frá blöðum annarra runna sem hér eru í ræktun. Svo taka haustlitirnir við. Þá er tegundin upp á sitt besta.

 

Nöfn og nafnaruglingur

Gljámispill er stundum nefndur fagurlaufamispill. Til er tegundin broddmispill, C. acutifolius, sem er nauðalík gljámispli og hefur eflaust stundum verið seldur sem sá fyrrnefnefndi. Báðar þessar tegundir hafa einnig verið nefndar glansmisplar og er rétt að forðast það nafn, enda er ekki alltaf víst við hvað fólk á þegar það ber á góma.


Haustlitirnir í gljámispli eru rauðir og glæsilegir. Mynd: Sig.A.
 

Munurinn á þessum tegundum er helst að sjá á blöðum og berjum. Blöðin eru ekki eins áberandi glansandi á broddmispli og lauf hans eru ögn hærð á báðum hliðum fyrst á vorin en gljámispillinn aðeins á neðra borði. Þegar líður á sumarið verða laufin mjög lík. Hitt atriðið tengist berjunum. Fræfjöldinn í hverju beri er ekki sá sami. Því miður ber heimildum ekki saman um fjölda fræja í hvorri tegund.

Svo rammt kveður að ruglingi þessara tegunda að í bók Ásgeirs Svanbergssonar frá árinu 1982 er ekki að sjá annað en þar sé verið að lýsa broddmispli frekar en gljámispli. Þessi ruglingur er víðar. Í bókinni Ræktaðu garðinn þinn eftir Hákon Bjarnason er ekkert talað um gljámispil en C. acutifolius kallaður glansmispill. Í Garðagróðri, sem Ingólfur Davíðsson og Ingimar Óskarsson skrifuðu, er líka fjallað um C. acutifolius og þar er tegundin kölluð broddmispill. Í bók Hákonar er sagt að blöðin séu glansandi en í bók Ingólfs og Ingimars eru þau gljálaus og sama orð notar Ásgeir. Þetta gæti bent til þess að báðar tegundirnar hafi verið komnar til landsins þegar þessar bækur voru skrifaðar en ekki verið aðgreindar.

Á svipuðum tíma og þessar bækur voru skrifaðar var stofnuð nefnd um íslensk háplöntuheiti. Niðurstöðurnar birtust meðal annars smám saman í Garðyrkjuritinu. Árið 1989 var sagt frá nöfnum á hátt í þrjátíu misplum. Þar eru báðar ofangreindar tegundir tilgreindar. C. acutifolius er nefndur broddmispill og C. lucidus gljámispill. Við förum eftir þessum tillögum og sleppum með öllu að tala um glansmispil.

 

Tvö limgerði undir trjám í Síðuhverfi. Á fyrri myndinni er mispillinn undir alaskaösp en á þeirri seinni undir gullregni. Myndir: Sig.A. 

Vel má vera að enn gæti þessa ruglings í sumum garðyrkjustöðvum og stundum hafa verið fluttir inn misplar sem reynst hafa fremur illa. Þau yrki sem finna má í betri garðyrkjustöðvum eru að jafnaði þrautreynd og þrífast vel, ef allt er eðlilegt. Svo líkar eru þessara tegundir að sumar heimildir telja að gljámispillinn sé afbrigði af broddmispli og beri að skrá sem Cotoneaster acutifolius var. lucidus. Algengara er þó að telja þetta til tveggja tegunda og fræðingarnir í Kew Gardens telja þetta tvær aðskildar tegundir eins og sjá má hér.

Þessi ruglingur skiptir venjulega ræktendur engu máli og því ræðum við broddmispilinn ekki frekar en höldum okkur við heitið gljámispill.

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00

Skógar sem vatnsdælur

Sigurður Arnarson skrifar
18. september 2024 | kl. 10:30

Temjum tæknina III: Uppfærð kortasjá og ný heimasíða

Magnús Smári Smárason skrifar
17. september 2024 | kl. 14:15

Skemman

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. september 2024 | kl. 13:00

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00